Æ, djöfull,“ segir Bubbi Morthens þegar blaðamaður tjáir honum að hann er ekki á meðal tekjuhæstu 1% Íslendinganna sem hátekjulisti Heimildarinnar 2024 nær yfir. En hann er bara að grínast, hann hefur engan áhuga á að vera á þessum lista.
„Þetta var kaldhæðni. Peningar eru alveg eins og fíkniefni. Þegar þú ert kominn á þann stað að peningar skipta öllu máli, þá bara verði þér að góðu, þá ertu staddur í einhvers konar helvíti þó að þú haldir að þú sért staddur í einhverju öðru. Mér sýnist að þeir sem eiga mestu peningana í landinu glími við hluti sem ég er rosa feginn að þurfa ekki að glíma við og ég held að allir landsmenn ættu að vera það líka.“
„Að því sögðu þá held ég að virði hlutanna sé bara þetta: Að börnin þín séu heilbrigð, að þú sért elskaður og elskar, að þú sért laus við veikindi og sjúkdóma og þú sért hamingjusamur í vinnunni þinni. Þetta er það eina sem skiptir máli.“
„Þeir sem eiga mestu peningana í landinu glíma við hluti sem ég er rosa feginn að þurfa ekki að glíma við.“
En Bubbi gerir sér grein fyrir að peningar eru óhjákvæmilegir til að komast af í samfélaginu. „En þeir geta líka verið böl. Við þurfum öll pening til að borga skuldir og borga mat og til að geta klætt börnin okkar og jafnvel haft það mikið milli handanna að við erum ekki svefnvana út af því að við eigum ekki fyrir mat eða skuldum. Það er það sem í rauninni allir ættu að vera, á þeim stað að það væri þannig að þau væru með góð laun. Þannig ætti þetta að vera.“
Varð aldrei var við fátæktina sem barn
Bubbi er staðráðinn í að peningar hafi ekki kennt honum neitt. Við nánari umhugsun hefur hann þó dregið einn lærdóm. „Eina sem peningar gera er að þeir geta hjálpað þér við að losna úr einhverri skuld. En peningar sem slíkir hafa kennt mér það að það er enga hamingju að finna í of mikið af peningum.“
Á lífsleiðinni hefur Bubbi bæði upplifað fátækt og auðlegð. Það er lærdómsríkt. „Þegar ég á peninga er ég ekki með afkomukvíða yfir heimilinu, ég er ekki með afkomukvíða í sambandi við börnin mín, að ég geti ekki klætt þau og leyft þeim að stunda tómstundir og eiga mat og föt. Þar liggur munurinn, en hann liggur ekki í þessum gildum. Ég ólst upp við gríðarlega fátækt og alkóhólisma en inni í þessu mengi var alltaf hamingja og ákveðin frelsistilfinning sem við fengum í uppeldinu, bræðurnir, frá móður okkar. Við urðum aldrei varir við, ég held að börn aðlagi sig að öllu, ég varð aldrei var við að ég væri að alast upp við fátækt. Ég upplifði alltaf að við ættum allt, en svo var sannarlega ekki.“
„Þetta er bara fíkn“
Bubbi líkir peningum við fíkniefni. Það er auðvelt að verða háður peningum rétt eins og fíkniefnum. Það þekkir hann af eigin raun. „Þetta er snúið. Ég man þegar ég tók kókaín í fyrsta skipti, hún var rosaleg sú upplifun. Alveg rosaleg. Hún var ólýsanleg. Hún kom aldrei aftur en ég var alltaf að leita að þessari tilfinningu. Því meira sem ég mokaði í nefið á mér, því neðar fór ég. Því meira skaðaði ég mig.“ Þessari upplifun má vel líkja við það að verða háður peningum. „Þetta er það sem fólk sem er háð peningum upplifir, þetta er sú tilfinning sem það verður fyrir þegar það eignast fyrstu 100 milljónirnar og svo er aldrei nóg. Og verður aldrei nóg. Það mun aldrei verða nóg ef þetta er fókusinn.“
„Því meira sem ég mokaði í nefið á mér, því neðar fór ég. Því meira skaðaði ég mig.“
Peningar eru fíkn. „Þú ert háður, eins og fíkill, þetta er bara fíkn. Það sem gerist líka við þessar aðstæður er að fólk tapar siðferði. Í rauninni verður framheilinn fyrir skaða, eins og kókaínið skaðar framheilann, þetta hef ég lesið, að þeir sem eru komnir í þessa stöðu og eru að græða, þetta herjar á sömu stöðvar heilans og kókaín og veldur sömu tilfinningu. Ég get lofað þér því að ef þú kemur að kókaínfíkli sem er með eitthvert efni og þú segir: „Gefðu mér helminginn.“ Hann myndi frekar skjóta þig í hausinn heldur en að láta þig fá það.“
Bubbi greiðir glaður sína skatta. Öll eigum við að greiða skatta í hlutfalli við tekjur. En tekjuhæsta eitt prósent Íslendinga mætti vel greiða hærri skatta. „Er eitthvað að því að segja: „Heyrðu, við viljum að þið borgið 70 prósent og þið ættuð glöð að gera það,“ segir Bubbi og nefnir erlend fordæmi í Bandaríkjunum á borð við Bill Gates og Jeff Bezos. „Vá, hvað það væri stórkostlegt,“ svarar Bubbi, aðspurður hvort skattakóngar og -drottningar Íslands ættu að gera slíkt hið sama. „Það væri algjörlega geggjað.“
Tekjuhæsta prósentið er yfirleitt í þeirri stöðu að það getur valið um að greiða sér laun sem fjármagnstekjur og borga af þeim 22% skatt eða sem atvinnutekjur sem bera 46.25% skatt.