Í þjóðmálaumræðunni má oft heyra fullyrðingar um að hér á landi ríki ójöfn og óréttlát tekjuskipting, en það fer minna fyrir umfjöllun um ójafna og óréttláta skiptingu eigna. Sé horft á þau lögmál sem hagkerfi vestrænna þjóða hafa komið sér upp má segja að það sé keppikefli að hámarka tekjurnar í samfélaginu, en minna fer fyrir lögmálum um sanngjarna skiptingu þessara tekna. Svo er það hin hliðin á peningnum, sem er eignamyndunin. Það er a.m.k. einnar messu virði að skoða skiptingu eigna í samfélaginu með gagnrýnum augum.
Ísland með jöfnustu tekjudreifinguna
Ísland er með jöfnustu tekjudreifinguna í hópi auðugra ríkja og stendur í þeim efnum mun framar en hin Norðurlöndin. Meðaltekjur upp á rúmlega 3 milljónir króna á mánuði eða tæplega 37 milljónir á ársgrundvelli nægja til að vera talinn til þess hóps 1% Íslendinga, sem hæstar hefur tekjurnar, en sambærileg tala í Bandaríkjunum er um 12 milljónir króna á mánuði eða um fjórum sinnum hærri. Tekjur margra í eina prósentinu á Íslandi duga ekki til að skapa fólki mikla auðlegð í neinum samanburði. Þær nægja þó vissulega til að fólk geti byggt upp sparnað yfir starfsævina og búið sér og sínum efnahagslega öruggt líf. Í sumum tilfellum liggur mikil vinna að baki, en í sumum tilfellum hafa eignir viðkomandi nær alfarið skaffað tekjurnar. Eitt af álitamálunum í umræðu um tekjumyndun og tekjudreifingu varðar virði menntunar. Í eina tíð þótti það sjálfsagt mál að þau sem lögðu á sig langt og strangt nám, fengju umbun í formi góðra launa. En í dag veltum við fyrir okkur hvort sú sé ekki lengur raunin. Getur verið að vanmat á menntun og of mikil þjöppun á launaspönn geti skapað óréttlæti til lengri tíma rétt eins og ójöfnuðurinn getur gert?
„Getur verið að vanmat á menntun og of mikil þjöppun á launaspönn geti skapað óréttlæti til lengri tíma?“
Ráðstöfunartekjur háskólamenntaðra þær sömu árið 2021 og 2001
Á árunum 2001–2021 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna hjá fólki með meistaragráðu ekkert. Ráðstöfunartekjurnar voru s.s. þær sömu árið 2021 og þær voru tuttugu árum áður, að teknu tilliti til verðbólgu! Á meðan jukust ráðstöfunartekjur þeirra sem voru með grunnmenntun um rúmlega 30% umfram verðbólguna. Þessi þróun endurspeglast í nýjustu tölum um tekjur landsmanna. Í mörgum tilfellum munaði óverulegum upphæðum á útborguðum meðalheildarlaunum verkafólks og sérfræðinga á Íslandi á árinu 2023. Verst var staðan hjá sérfræðingum sveitarfélaganna sem fengu litlu hærra greitt í heildarlaun en verkafólk að meðaltali. Þótt jöfnuður og aukin velferð allra hópa, ekki síst verkafólks, eigi að vera markmið okkar á hverjum tíma, þá skiptir máli að velta fyrir sér hvað vanmat á menntun þýðir til lengri tíma. Stór kynslóð ungs fólks horfir nú fram á hverfandi ávinning af menntun sinni, háa byrði námslána, sligandi húsnæðiskostnað og óverulegan stuðning gegnum millifærslukerfin. Draga mun úr ásókn í háskólamenntun á næstu árum að óbreyttu, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á velferð allra.
Raunverulegt efnahagslegt óréttlæti liggur í eignunum ekki tekjunum
Á árinu 2022 áttu 242 heimili eða topp 0,1% landsmanna alls 353 milljarða króna í eigin fé. Þessi hópur skuldar lítið sem ekkert en eiginfjárhlutfall hans er 98%. Matið á raunverulegri eignastöðu þessara 242 heimila er hins vegar háð mikilli óvissu og í raun er eignastaðan verulega vanmetin því hlutabréfaeign hópsins er ekki metin á markaðsvirði í opinberum gögnum. Tölur um raunverulega eignastöðu ríkasta fólksins liggja því ekki fyrir og stjórnmálamenn hafa ekki viljað bæta úr þessum skorti á upplýsingum þrátt fyrir sífelldar ábendingar. Gera þarf gangskör í því að rannsaka eignadreifingu á Íslandi með bættri gagnaöflun hjá Skattinum. Það kann að koma á daginn að í eignadreifingunni liggi hið raunverulega efnahagslega óréttlæti á Íslandi, en ekki í tekjum landsmanna.
Athugasemdir (1)