„Við erum í Smáralindinni. Ég fer nú bara oft hérna, ég bý ekkert langt frá, ég sit hérna oft og fer í búðir og það er oft sem ég hitti einhverjar gamlar skólasystur, yfirleitt. Mér finnst gott félagslega að sitja hérna.
Ég var sjúkraliði á spítölunum og var svo víðar, í heimahjúkrun síðustu 20 ár. Það var frábært. Þar kynnist maður skjólstæðingum. Svo þegar ég hætti fannst mér það hræðilegt. En hefði ég verið á á skurðstofunni sem ég var á áður í 15 ár hefði það verið allt öðruvísi. Þetta er persónulegra.
Maður kallar ekki allt ömmu sína. Ég var nú fyrst í Hátúninu sem var mjög erfitt félagslega. Það var þvílík reynsla, að sjá hina hliðina á lífinu. En maður kemur betur út úr því þótt það hafi verið erfitt. Það væri hægt að búa til bíómynd um það.
„Maður kallar ekki allt ömmu sína“
Ég lenti nú einu sinni í hjartastoppi. Ég var á skurðstofunni að vinna. Það sprakk æð og ég var bara svo heppin að vera á réttum stað á réttum tíma. Það voru fimm læknar í kringum mig. Það var leiðinlegt að vakna aftur, áfall. En það er svo skrýtið, þetta eru næstum 30 ár síðan en ég er aldrei hrædd við þetta. Ég er ekki hrædd við að fá þetta aftur, það er það góða við þetta. Þetta var ekki skemmtileg reynsla, þetta var óhuggulegt. En ég hugsa bara jákvætt. Ég mála, það bjargar mér alveg, þá hef ég nóg að gera.“
Athugasemdir