Festi, móðurfélag Krónunnar, N1, Elko og Lyfju, hagnaðist um 953 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi ársins. Jókst hagnaðurinn um 215 milljónir miðað við sama ársfjórðung í fyrra.
Þetta kom fram í uppgjörstilkynningu félagsins til Kauphallarinnar í gær. Rekstrarhagnaður Festi fyrir afskriftir (EBITDA) á ársfjórðungnum nam 2,9 milljörðum króna og jókst um 13,8 prósent á milli ára. Þá er EBITDA-afkomuspá félagsins hækkuð um 800 milljónir á árinu vegna kaupa félagsins á Lyfju.
Félagið gekk frá kaupunum í júlí með rúmlega 5 milljarða króna greiðslu auk hlutafjár. Alls nam kaupverðið um 7,1 milljarða króna. Býst félagið við að sameiningin muni skila 2-400 milljónum króna vegna samlegðaráhrifa í rekstri.
Krónan aldrei stærri á matvörumarkaði
Krónan hefur aldrei haft stærri markaðshlutdeild, að því fram kemur í tilkynningunni, og mælist hún nú 38 prósent samkvæmt Gallup. Jókst hagnaður Krónunnar á öðrum ársfjórðungi um þriðjung á milli ára og nam alls 553 milljónum króna.
Innlend kortavelta hjá Festi jókst um 8 prósent á milli ára en erlend kortavelta dróst saman um 3,3 prósent. Þróun ferðaþjónustunnar er einn af þeim óvissuþáttum sem nefndur er í tilkynningunni.
Fjöldi bensínlítra sem olíufélag Festi, N1, seldi hefur einnig aukist um 2,7 prósent á milli ára. N1 hagnaðist um 220 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi, sem nemur 141 prósent hækkun frá sama ársfjórðungi árið 2023. Ýmir Örn Finnbogason lét nýverið af störfum sem forstjóri N1 og segir í tilkynningunni að auglýst verði eftir nýjum forstjóra til að taka við í haust.
Athugasemdir (2)