Tæplega 600 manns hafa nú skráð sig í Facebook-hópinn „Skutl til og frá Egilsstaðaflugvelli.“ Tilgangur hópsins, sem var stofnaður 16. júlí síðastliðinn, er að komast hjá því að greiða bílastæðagjöld við Egilsstaðaflugvöll, með því að skiptast á að skutla og sækja farþega út á völl.
Austurfrétt greindi fyrst frá.
Í júní kom Isavia á gjaldskyldum á bílastæðum við flugvellina á Egilsstöðum, í Reykjavík og á Akureyri. Þeir sem stoppa á Egilsstaðaflugvelli lengur en í 14 klukkutíma þurfa að greiða 1750 króna daggjald fyrir stæðið. Fyrstu vikuna er sólarhringsgjaldið þessar 1750 krónur, en 1350 krónur vikuna þar á eftir og þriðju vikuna 1200 krónur.
Sveitarfélög á Austurlandi reyndu með ályktunum að koma í veg fyrir gjaldtökuna og stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi fór fram á að hætt yrði við áformin. Var þar meðal annars bent á að bílarnir væru lagðir á ómalbikuðum malarstæðum sem væru ekki skipulögð sem bílastæði.
Sveitarstjórnarfulltrúi Vinstri grænna í Múlaþingi kallaði gjaldtökuna landsbyggðarskatt en oddviti Miðflokksins sagðist frekar vilja vera settur í járn en að greiða þennan auka ferðakostnað.
Gæti verið töluverður sparnaður að nýta sér hópinn
Austfirðingar og þeir sem sækja Egilsstaði heim virðast þó ekki deyja ráðalausir í viðleitni sinni að komast hjá því að greiða þessi óvinsælu bílastæðagjöld. Í stað þess að borga hyggst fólk skiptast á að keyra hvort annað til og frá flugvellinum í gegnum Facebook-hópinn.
Stofnandi hópsins er Sveinn Snorri Sveinsson sem segir í samtali við Austurfrétt að ástæðan að baki hópnum hafi verið ósætti hans í garð bílastæðagjaldanna. Hann segist vonast til að taki nógu margir þátt geti íbúar á svæðinu komist til og frá vellinum ókeypis og mótmælt gjaldtökunni um leið.
„Aðalatriðið í svona hóp er að viðhaldi traustinu milli þeirra sem eru með. Það þarf aðeins eitt skipti þar sem ekki er staðið við sitt til að þurrka út traust á hópnum svo það þarf að passa vel. En á hinn bóginn getur þetta verið töluverður sparnaður fyrir þá sem þurfa oft í flug eða þurfa að vera lengi burtu fyrir utan auðvitað að sýna Isavia að við hér austanlands getum alveg staðið saman þegar á þarf að halda. Ég vona sannarlega að þetta gangi upp og hvet alla til að koma með okkur,“ segir Sveinn Snorri við Austurfrétt.
Athugasemdir (2)