Nú hefur sá árlegi viðburður átt sér stað að SFS grætur úr sér augun yfir hlutfalli þorskheimilda sem úthlutað er til almennings í landinu af sameiginlegri eign landsmanna. Tilefnið er að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra tók þá ákvörðun að bæta 2.000 tonnum við strandveiðipottinn. Ráðherra á heiður skilinn fyrir að standa með smábátasjómönnum. Þessi ákvörðun hefur krafist hugrekkis enda víla kvótakóngarnir ekki fyrir sér að ráðast af fullri hörku á hvern þann sem láist að beygja sig fyrir þeirra vilja og þeir líta á sem þránd í sinni götu.
Útkoman er sú að vesalings sægreifarnir fá ekki nema 197 þúsund tonn af þorski úr 209 þúsund tonna potti þetta árið. Samtökin hljóma sem rispuð grammófónsplata og nægir að benda á svar mitt við gagnrýni þeirra frá því í fyrra. Það eru þó nokkur atriði sem þola upprifjun.
Sneið strandveiðiflotans af kökunni
SFS eyðir miklu púðri í þá staðleysu að „sneið strandveiðimanna af kökunni stækkar enn eitt árið því aldrei fyrr hafa strandveiðar verið hærra hlutfall af heildarafla þorsks“ eða 5,7%. Það má skoða hlutdeild strandveiða á ýmsa vegu en það er þó furðuleg aðferðafræði að taka aðeins þessa einu fisktegund fyrir og framreikna svo allt hlutfallið út frá því. Strandveiðiflotinn má veiða þrjár fisktegundir – þorsk, ufsa og karfa – og væri nær lagi að skoða heildarhlutfallið af öllum þremur. Þá fer hlutfallið niður í 4,1%
„Það skiptir ekki máli hvaða mælistika er notuð, óréttlætið skín í gegnum þær allar.“
Enn heiðarlegra væri þó að taka þær tegundir með í reikninginn sem strandveiðisjómenn gætu veitt en mega ekki: ýsu, löngu, blálöngu, keilu, steinbít, makríl, skarkola, þykkvalúru, langlúru, grálúðu o.s.fr. Þá er hlutfallið komið niður í 3%. En lang heiðarlegast væri að skoða hlutdeild strandveiðiflotans af heildarafla í íslenskri lögsögu, í ljósi þess að sægreifarnir sem vilja knésetja okkur hafa yfir honum að ráða. Þá er hlutfallið í kringum 1%. Með öðrum orðum skiptir ekki máli hvaða mælistika er notuð, óréttlætið skín í gegnum þær allar.
Röksemdarfærsla SFS minnir á mektarmann sem situr við gnægtarborð og segir svo við pöpulinn: „Hvað eruð þið að biðja um meira, þið hafið nóg af kartöflum!“ Kaldhæðnin í þessu er að 750 minnstu útgerðirnar fá samanlagt einn tíunda af þorskheimildum sem 10 stærstu útgerðirnar fá í sinn hlut.
Gæði og hagvæmni
Sumt í pistli SFS má lýsa sem hreinum uppspuna og lygum. Umræðan um gæði og hagkvæmni er gott dæmi um það. SFS virðist halda að það dugi að velja dálka úr excel skjali sem hentar þeirra málflutningi og að enginn hafi vitsmuni til þess að afbyggja þvæluna sem frá þeim kemur. Vandamálið er að raunveruleikinn blasir við: strandveiðiflotinn stundar þjóðhagslega hagkvæmar fiskveiðar á umhverfisvænan og félagslega ábyrgan hátt. Það sama má ekki segja um sægreifana.
Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, er búinn að reka ósannindin um gæðin ofan í þau svo um munar. Andstætt því sem SFS halda fram er strandveiðifiskur fyrsta flokks vara sem er eftirsótt um allan heim, enda selst hann á töluvert hærra verði en togarafiskur. Ég á enn eftir að hitta þann hagfræðing sem getur útskýrt fyrir mér hvernig það sé þjóðhagslega hagkvæmara að fá lægra verð fyrir útflutningsvöru en hærra. Eitthvað stemmir ekki þegar harðsvíraðir kapítalistar segja að markaðurinn hafi rangt fyrir sér, sérstaklega í ljósi þess að SFS liðar kaupa sjálfir fiskinn okkar í stórum stíl í gegnum fiskmarkaði.
Umræðan um afkomu er að sama skapi gjörsamlega úr lausu lofti gripin þegar samtökin halda því fram að „ljóst er að afkoma af strandveiðum er óviðunandi og skilar vart jákvæðri afkomu samkvæmt gögnum Hagstofu í gegnum tíðina“. Nú vill það svo til að afkoma ólíkra útgerðarflokka var tekin út af Sveini Agnarssyni og Vífli Karlssyni í skýrslu Auðlindarinnar okkar. Niðurstaðan var sú að afkoma strandveiðiflotans sé vissulega örlítið lakari en hjá stórútgerðinni, þó ekki hafi verið „mikill munur á framlegð (EBITDA) sem hlutfalli af tekjum á milli kerfa“. Við höfum ekki yfir að ráða her endurskoðenda hvers eini tilgangur er að finna leiðir til að snuða sjómenn og ríkissjóð. Þar að auki dreifast útgjaldaliðirnir okkar ekki á aflandsfélög heldur fiskmarkaði, fiskvinnslur, hafnir, vélvirkja, löndunarfyrirtæki, flutningsfyrirtæki og skattinn. Eftir stendur að afkoma strandveiðiútgerða er ásættanleg og vel það. 750 einyrkjar um land allt bera þess vitni.
Hafa ber í huga að allt stefnir í að þessi vertíð verði sú þriðja í röð þar sem strandveiðar eru stöðvaðar þegar tímabilið er rétt rúmlega hálfnað. Þumalputtareglan er sú að maí mánuður fer í það að veiða fyrir kostnaði, og þá er eingöngu júní eftir til að skila hagnaði. Það er harla ólíklegt að önnur útgerðarform gætu skilað jákvæðri afkomu í slíkri spennitreyju sem strandveiðiflotinn er í.
Hvað varðar hagkvæmni og „hryggjarstykkið“ í íslenskum sjávarútvegi – hefðbundna samþættingu veiða og vinnslu – þá nægir að vitna í Baldvin Þorsteinsson sem telur þessa lóðréttu samþættingu „nokkuð snyrtilega leið til að draga úr skattgreiðslum“ og „lækka skiptahlut sjómanna“ með notkun skúffufyrirtækja í skattaskjólum. Geðsleg hagkvæmni það.
Það er þó gleðiefni að SFS sé okkur loksins sammála um að fjögurra mánaða tímarammi strandveiðitímabilsins sé of þröngur. Smábátasjómenn hafa löngum bent á að kerfið í núverandi mynd leyfi þeim ekki að sækja fiskinn þegar hann er hvað bestur á hverjum stað. STÍ hefur lagt áherslu á að víkka vertíðarrammann í 6 mánuði, frá apríl og út september, þar sem sjómenn gætu valið sér fjóra mánuði til að gera út. Þannig er tryggt að allir nái í sem bestan fisk. Við fögnum því að SFS hafi séð ljósið hvað þetta varðar.
Græðgi
Að lokum má víkja örstutt að því sem sálfræðingar kalla frávarp (e. projection), þar sem þú varpar eigin löstum yfir á aðra. SFS sakar trillukarla og konur um græðgi. Ég tel æskilegast fyrir sægreifana að leggja sér ekki það orð í munn enda telur meirihluti þjóðarinnar íslenskan sjávarútveg vera spilltan, mengandi og skapa verðmæti fyrir fáa. Hvort ætli sé meiri græðgi og frekja? Að verja einkasetu sína að kjötkötlunum með rógburði og lögsóknum gegn öllum þeim er dirfast að tala gegn þeim? Eða barátta fyrir stjórnarskrárvörðum rétti allra Íslendinga að skapa sér atvinnu með því að sækja sjóinn á eigin forsendum?
Bjarkey Olsen hefur gefið skýr skilaboð um að hún sé ekki hrædd við útgerðarmafíuna og blöskri ofríki þeirra, frekja, yfirgangur og græðgi. Smábátasjómenn hlakka til að vinna með henni að því markmiði að gera strandveiðikerfið mannsæmandi, þjóðinni og komandi kynslóðum til heilla.
Höfundur er trillukarl og formaður Strandveiðifélags Íslands
Án þess að vita nokkuð um það sjálfur, þá grunar mig að það sé hagstæðara fyrir ríkið að gefa meiri kvóta til strandveiða út frá græðgis sjónarmiði. Enda hverfa allir þessir peningar sem stóru útgerðinar fá ovaní peningaholu í panama eða eitthvað álíka.
Þjóðin á auðlindina og þeir gleyma því að aflamarkinu er bara úthluta eitt ár í senn.
Það er hægt að innkalla það allt.
"Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum"