Lesendur vita ekki hvort þeir eiga að gráta eða hlæja þegar þeir lesa umfjöllun Heimildarinnar um samskipti yfirvalda við fyrirtækið Running Tide. Í stuttu máli sökkti fyrirtækið þúsundum tonna af trjákurli, úr kanadískum trjám, í sjó innan íslenskrar landhelgi. Fyrirtækið hélt því fram að með þessu móti væri verið að binda kolefni. Í rauninni var kolefnið þegar bundið - í trjánum. Upphaflega hugmyndin var að rækta þörunga og sökkva þeim, en fallið var frá þessu.
Það er merkilegt að ekki færri en fjórir ráðherrar gáfu út viljayfirlýsingu gagnvart þessu verkefni, og fljótlega var gefið út leyfi fyrir þessu. Enginn virðist hafa aflað sér álits óháðra vísindamanna að neinu marki um gildi verkefnisins. Þeir vísindamenn sem hafa tjáð sig um verkefnið hafa flestir verið efins um getu þess til að binda kolefni, eða sagst vanta upplýsingar til að meta það. Auk þess hafa margir bent á áhættu varðandi umhverfið, sem er fólgin í því að sökkva timbri í hafið í stórum stíl. Þetta má t.d. sjá í grein úr MIT Technology Review og einnig frétt um umsagnir Umhverfisstofnunar, Hafró og annarra. Það var annar tónn í yfirvöldum í sambandi við Covid. Þá var farið í einu og öllu eftir ráðleggingum vísindamanna.
Það er freistandi að velta fyrir sér hvers vegna íslensk yfirvöld hafi verið svo trúgjörn í máli RT. Gagnlegt er að rifja upp skuldbindingar okkar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á landi. Óhagganlegt markmið (sameiginlegt með ESB) er að ná kolefnishlutleysi 2050. Kolefnishlutleysi þýðir að nettó losun á gróðurhúsalofttegundum verði engin þegar búið er að telja alla losun og alla bindingu þessara efna. Ríkisstjórn Íslands hefur gefið út enn metnaðarfyllra markmið, það er að ná kolefnishlutleysi 2040. Millimarkmið er sett fyrir 2030, sem er erfitt að festa hald á. Oftast er talað um 55% minnkun miðað við losun 2005. Hvað um það, millimarkmiðið varðar einungis svokallaða samfélagslosun, sem samanstendur aðallega af losun frá vegasamgöngum, sjávarútvegi, léttiðnaði, landbúnaði og meðhöndlun úrgangs. Hér geta orkuskipti gegnt mikilvægu hlutverki, með því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku (þ.e. rafmagn). Eins og sjá má er tíminn til að ná millimarkmiðinu skammur.
Það eru alvarleg vandamál sem þarf að yfirstíga til að ná þessum markmiðum. Þess vegna var beðið eftir birtingu uppfærðrar aðgerðaráætlunar í loftlagsmálum með nokkurri eftirvæntingu. Hún kom loksins út 14. júní. Því miður gerir hún ekki mikið til að vekja traust á því að markmiðum okkar í loftlagsmálum verði náð. Best lítur hún út hvað varðar samfélagslosun, en hún setur fram spá í þeim efnum um samdrátt á bilinu 35-45% fram til 2030 miðað við árið 2005. Mjög gagnleg og auðlesanleg greining á aðgerðaráætluninni birtist á vefsíðunni Himinnoghaf og er eindregið mælt með því að lesa hana.
Iðnvæðing landsins er mjög mikil miðað við höfðatölu. Losun á CO2 frá málmbræðslu heyrir ekki undir samfélagslosun. Fyrirtækjunum er úthlutað árlega ákveðnu magni af kolefnisheimildum, sem fyrirtækin mega kaupa og selja. Heimildin samsvarar ákveðnu magni af CO2, en þetta magn fer minnkandi frá ári til árs þar til kolefnishlutleysi er náð. Með þessu móti geta fyrirtækin að einhverju leyti stjórnað því, hversu hratt þau minnka eigin losun.
Þrátt fyrir þetta er losun frá málmbræðslu skráð á kolefnisreikning landsins, þannig að þegar allt kemur til alls er ábyrgðin okkar. Sú losun nær 38% af heildarlosun landsins, ef landnotkun og millilandaflugi er sleppt. Í heild jafngildir það 1,8 milj. tonna af CO2 á ári. Tölurnar hér má lesa úr línuritum á vefsíðunni Himinnoghaf. Orkuskiptin lækka ekki losun frá málmbræðslu þar sem orkugjafinn er núþegar rafmagn.
Hvað varðar málmbræðsluiðnað eru einungis þrjár leiðir fýsilegar til þess að ná kolefnishlutleysi:
- (a) Að loka einni eða fleiri verksmiðjanna.
- (b) Að bíða, og vona að ný tækni verði þróuð til að bræða málma án þess að losa CO2, og þeirri tækni verði beitt hér á landi.
- (c) Að binda CO2.
Leið (a) er enn pólitískt tabú. Leið (b) er engan veginn undir okkur komin og við getum lítið gert til að hafa áhrif í þeim efnum.
Hvað um leið (c), það er bindingu á CO2? Nýlega birtist frétt þess efnis að fyrirtækið Carbfix sækist eftir að reisa stöð við Straumsvík til að binda CO2 og geyma það í djúpbergi. Þetta er alvöru tækni, gjörólík hugmyndum RT. Hins vegar er reynsla af henni takmörkuð og samanstendur aðallega af tilraunastöð fyrirtækisins við Hellisheiðarvirkjun. Það stendur á vefsíðu fyrirtæksins að búið sé að binda 104.000 tonn af CO2 frá árinu 2014, það er síðustu 10 ár. Málmbræðsla hér á landi losar 1,8 milj. tonna á ári hverju.
Kolefnisbindistöð við Straumsvík, sem væri nógu öflug til að um munaði, gæti valdið umhverfistjóni. Umfang mögulegs tjóns hefur ekki verið metið. Óttast er að áhrif á grunnvatn gætu verið hörmuleg. Andstaða meðal íbúa Hafnarfjarðar fer vaxandi.
„Er það kannski ástæðan fyrir því að yfirvöld stökkva til þegar sölumenn banka upp á?“
Í nýju aðgerðaáætluninni í loftslagsmálum er kolefnisbinding talin möguleg aðgerð, en geta hennar til að vega á móti losun ekki metin. Notagildi kolefnisbindingar sem tól til að ná kolefnishlutleysi er því óþekkt stærð. Á meðan tifar klukkan. Enn höfum við ekki trúverðuga áætlun til að ná kolefnishlutleysi, hvort sem það verði 2040 eða 2050. Er það kannski ástæðan fyrir því að yfirvöld stökkva til þegar sölumenn banka upp á?
Höfundur er stærðfræðingur, prófessor emeritus og meðlimur í Aldin, samtökum eldri aðgerðarsinna.
Hvaða ráðherrar voru það? Guðlaugur Þór Þórðarson, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Bjarni Benediktsson! Þau spyrja ekki óþægilegra spurninga þegar grænþvottur er annars vegar.