Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fór yfir stöðu Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, á ríkisstjórnarfundi á þriðjudagsmorgun og lagði til stuðning ríkisins þrátt fyrir fjölskyldutengsl sín við fjölmiðilinn. Morgunblaðið varð fyrir netárás á sunnudag og voru gögn fjölmiðilsins tekin í gíslingu.
Sagði ráðherra að skoða þyrfti hvort CERT-IS, netöryggissveit ríkisins, myndi hafa beina aðkomu að netöryggismálum fjölmiðla, að því fram kemur í frétt mbl.is, og hvort skrá ætti fjölmiðla sem mikilvæga innviði. „Það er eitthvað sem ég tel mikilvægt að skoða, hvort fjölmiðlar ættu að heyra undir slíka þjónustu,“ er haft eftir henni.
„[A]ð ráðherra skuli [...] beita sér fyrir málefnum einstakra fyrirtækja sem eru svo nátengd henni og útgáfufélag Morgunblaðsins er“
Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, sagði í færslu á Facebook að framganga Áslaugar Örnu í málinu orkaði tvímælis. „Annars vegar sú hugmynd að ríkið eigi að koma að netöryggismálum einkafyrirtækja sem teljast tæplega til þjóðhagslegra mikilvægra innviða og hitt að ráðherra skuli á ríkisstjórnarfundi ræða um og beita sér fyrir málefnum einstakra fyrirtækja sem eru svo nátengd henni og útgáfufélag Morgunblaðsins er,“ skrifaði Björn Valur.
Tengsl fjölskyldu og samstarfsmanna við Morgunblaðið
Faðir Áslaugar Örnu, Sigurbjörn Magnússon, er stjórnarformaður Árvakurs og fer fyrir fyrirtækinu Legalis sf. sem á 15 prósenta hlut í Morgunblaðinu. Sjálf vann Áslaug Arna sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu árin 2011 til 2013.
Þá skipaði hún stjórnarmann Árvakurs, Ásdísi Höllu Bragadóttur, sem ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu árið 2022. Sat Ásdís Halla í stjórn Árvakurs í fjölda mánaða eftir að hún tók við sem ráðuneytisstjóri þrátt fyrir að ráðuneytisstjórum sé óheimilt samkvæmt lögum að gegna aukastörfum samhliða störfum í Stjórnarráði Íslands.
Umboðsmaður Alþingis komst í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að Áslaugu Örnu hefði verið óheimilt að setja Ásdísi Höllu sem ráðuneytisstjóra til þriggja mánaða án auglýsingar áður en hún var skipuð í embættið. Bæði Ásdís Halla og Sigurbjörn hafa verið samverkamenn Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarkonu og eins stærsta eiganda Morgunblaðsins, í fyrirtækjum sem starfa að heimaþjónustu og sjávarútvegi.
Grafalvarleg staða
Netárásin á Morgunblaðið átti sér stað á sunnudag og lá vefur blaðsins, mbl.is, niðri í um þrjár klukkustundir. Þá var ekki hægt að vinna í ritstjórnarkerfi blaðsins og útsendingar útvarpsstöðvarinnar K100 lágu niðri, að því mbl.is greindi frá.
Úlfar Ragnarsson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Árvakurs, sagði að rússneskur hópur sem kallar sig Akira hefði staðið að baki árásinni og að gríðarlegt magn gagna hefði verið tekið í gíslingu. „Staðan er grafalvarleg og eiginlega eins slæm og hún getur orðið,“ sagði Úlfar.
Samstarf í netöryggismálum
„Við erum að vinna að því að koma af stað samstarfsvettvangi opinberra aðila og atvinnulífsins um netöryggi nú í haust,“ sagði Áslaug Arna í viðtali við Morgunblaðið. „Þetta er liður af þeim aðgerðum sem við höfum boðað til að stórefla netöryggi á Íslandi. Partur af því er að bera saman stjórnskipan netöryggismála á Íslandi við Norðurlöndin.“
Hún sagði mikilvægt að efla samstarf og samhæfingu stofnanna og atvinnulífs í málaflokknum. „Ég held að þessi samstarfsvettvangur muni ná utanum margar af þeim áskorunum sem verið er að lýsa gagnvart upplýsingaskiptum, vitundarvakningu og áhættumati.“
En það er ekki talað um árás á lýðræðið þegar mbl er kostaður áróðurspési af stórútgerðinni sem vellur yfir landsmenn alla daga ársins.
Ísland er YNDISLEGT land :-) :-) :-)