Miðflokkurinn hefur lagt fram vantrauststillögu á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra.
Vantrauststillögunni var dreift á þingi í upphafi þingfundar en ekki liggur fyrir hvenær hún verður tekin til umræðu.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gaf í síðustu viku Hval hf. veiðileyfi til hvalveiða og kvóta upp á 128 dýr fyrir þessa vertíð - veiðar á langreyðum fara fram á sumrin - og rökstuddi það með því að vísa til þess að hún væri bundin af hefð, lögum og reglum í málinu og að hún yrði að heimila veiðarnar og gefa út kvóta. Þetta sagði Bjarkey vera staðreynd málsins, óháð því hvaða pólitísku sannfæringu hún sjálf kann að hafa. „Það væri heldur ekki gott ef það væri alltaf þannig að það gæti allt verið eftir manns eigin höfði. Þess vegna erum við nú með lög og reglur.“
Bergþór sagði í samtali við mbl.is áður en þingfundur hófst að það kæmi honum á óvart ef tillagan muni ekki njóta stuðnings stjórnarandstöðuflokkanna. Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, sagði fyrir helgi að hann myndi styðja vantraust á matvælaráðherra, verði tillagan lögð fram. „Aðalatriðið er þetta: Ríkisstjórnin er ekki að ná utan um það verkefni að vinna fyrir fólkið í landinu,“ sagði Sigmar í störfum þingsins á föstudag.
Athugasemdir