Fagráð um velferð dýra, sem starfar á vegum Matvælastofnunar (MAST) spyr að því hvort laxeldi geti átt sér framtíð hér á landi vegna þeirra affalla sem eru í greininni. Þetta kemur fram í nýbirtri fundargerð fagráðsins frá fundi sem haldinn var 15. maí síðastliðinn.
Þar segir orðrétt: „Fagráð um velferð dýra óskar eftir því að fram fari á vegum MAST og Matvælaráðuneytisins mun ítarlegri umræða þegar í stað um hvers konar afföll séu í raun ásættanleg í sjókvíaeldi. Þá verði að fara fram greining á vísindalegum gögnum um hvort slík ásættanleg afföll séu raunhæf við íslenskar aðstæður og hvort greinin eigi sér þá raunverulega framtíð.“
Afföll í laxeldi eru mikil hér á landi og eru reglulega sagðar fréttir um mikinn dauða fiska í greininni, meðal annars vegna sjúkdóma.
Fundagerðin barst seint á heimasíðu MAST og birtist fyrst í dag tæpum mánuði eftir umræddan fund.
„Í umræðunum á fundinum kom í ljós mikill vilji fundargesta til þess finna lausnir á miklum afföllum laxfiska í eldinu sem allir voru sammála um að væri stærsta dýravelferðarmál greinarinnar.“
Eitt af því sem fagráðið vísar til óbeint eru fréttir af lúsafaraldri hjá sjókvíaeldisfyrirtækjunum Arctic Fish og Arnarlaxi síðla árs í fyrra. Myndir af lúsétnum og dauðum eldislöxum sem Veiga Grétarsdóttir tók í Tálknafirði vöktu alþjóðlega athygli og leiddu til mikillar umræðu hér á landi um meðal annars velferð eldislaxanna í kvíunum.
Tekið skal fram að einn nefndarmaður í fagráðinu, Hilmar Gylfason, lögfræðingur Bændasamtaka Íslands, lýsti því yfir á fundinum að hann væri ósammála efasemdum um hvort laxeldi ætti sér framtíð sem atvinnugrein hér á landi.
Hlutverk fagráðsins er meðal annars eftirfarandi, samkvæmt heimasíðu Matvælastofnunar: „Að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra.“ Fagráðið getur því haft áhrif á stefnumörkun hins opinbera í málum sem snerta dýravelferð hér á landi.
Störf fagráðsins eru líklega þekktust í umræðunni um hvalveiðar Hvals hf. Í fyrra komst fagráðið að þeirri niðurstöðu til dæmis að ekki væri hægt að tryggja mannúðlega aflífun langreyða hér við land. Sú niðurstaða hafði mikil áhrif á þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur að banna Hval hf. að veiða langreyðar í fyrrasumar.
Allur textinn um laxeldið úr fundargerð fagráðsins fylgir hér að neðan:
„Á undanförnum árum hefur orðið stórkostleg aukning á framleiðslu laxa í sjókvíum við strendur Íslands. Á aprílfundi sínum á síðasta ári hóf fagráð um velferð dýra umræðu um dýravelferðarmál í ljósi þessarar auknu framleiðslu þar sem meðal annars sérfræðingar MAST í lagareldi komu fyrir ráðið. Í umræðunum á fundinum kom í ljós mikill vilji fundargesta til þess finna lausnir á miklum afföllum laxfiska í eldinu sem allir voru sammála um að væri stærsta dýravelferðarmál greinarinnar. Um leið var því fagnað að gagnsæi hefur aukist umtalsvert og framleiðslugreinin gengist undir ítarlegar kröfur um upplýsingagjöf. Ljóst er að árið 2023 endaði ekki mikið betur hvað afföll varðar heldur en árið 2022. Mikil umræða um lagareldi hefur verið í samfélaginu undanfarnar vikur eftir að drög voru lögð fram um breytt lagaumhverfi. Varla hefur þó verið minnst á velferð fiskanna og hvernig drögin taka á dýravelferðarsjónarmiðum. Fagráðið varar við að sá hugsunarháttur nái að skjóta rótum á Íslandi að velferð fiska skipti takmörkuðu máli þegar kemur að lagareldi. Fagráð um velferð dýra óskar eftir því að fram fari á vegum MAST og Matvælaráðuneytisins mun ítarlegri umræða þegar í stað um hvers konar afföll séu í raun ásættanleg í sjókvíaeldi. Þá verði að fara fram greining á vísindalegum gögnum um hvort slík ásættanleg afföll séu raunhæf við íslenskar aðstæður og hvort greinin eigi sér þá raunverulega framtíð.
Þorvaldur Þórðarson vék af fundi að lokinni afgreiðslu þessa fundarliðar.
Hilmar Vilberg Gylfason óskaði að bókað yrði að hann ggæti ekki tekið undir eftirfarandi setningu í ályktuninni „,...og hvort greinin eigi sér þá raunverulega framtíð.“
Athugasemdir (2)