Ég er löngu hætt að lesa fréttir, sérstaklega þær rússnesku. Um leið og ég sé eða heyri „forseta“ okkar fyllist hjarta mitt af hatri og hatur lokar fyrir hjartastöðina og þá er ekki hægt að finna fyrir ást og samúð lengur. Og ég vil helst finna þær tilfinningar.
Ég veit ekki hvort það er bara ég eða það eru fleiri sem upplifa að heimurinn muni aldrei verða eins og áður æ oftar síðasta ár, þar sem það sem þú getur ekki stjórnað stjórnar lífinu þínu. Þegar umræðuefni er of þungt í bókmenntum er töfraraunsæi notað sem bjargráð við áföllum. Og af því að bókmenntir eru stór hluti af mér nota ég skyldar aðferðir í veruleikanum.
Ég man eftir fyrstu tilfinningunni af þessum toga þegar heimsfaraldurinn byrjaði. Þá kafaði ég ofan í jóga, reyndi að finna jörðina undir fótunum, beygði mig niður og snerti hana með fingrunum. Tilhugsunin um aukinn sveigjanleika róaði mig.
„Þegar heimalandið mitt gerði innrás í nágrannaland okkar hrundi heimurinn aðeins meira.“
Þegar heimalandið mitt gerði innrás í nágrannaland okkar hrundi heimurinn aðeins meira og ég fann aftur fyrir því að heimurinn myndi aldrei verða samur. Ég fékk fljótt ofskömmtun af fréttum og fór aftur að æfa jóga: í þetta skipti reyndi ég að ná tökum á höfuðstöðu. Eins og þá myndi heimurinn ekki vera á hvolfi.
Tvö ár eru liðin, og heimurinn er enn í sömu stellingu og fleiri vandamál í persónulegu lífi mínu hafa komið upp. Ég æfi yin-jóga þar sem maður þarf að halda asana í lengri tíma, frá tíu sekúndum upp í nokkrar mínútur. Tilhugsunin um aukið þol róar mig. Á meðan ég held stellingunni finn ég hvernig vöðvarnir byrja að svíða, svo hristist líkaminn, svo verða vöðvarnir stífir af sársauka og svo gleymi ég að mér leið einhvern tíma öðruvísi. Það eina sem ég get stjórnað er öndunin: Hver andardráttur aðskilur fortíð frá framtíð. Með hverjum andardrætti verður heimurinn ekki eins og áður. Í smástund finn ég mig í núinu, aðeins eitt andartak, og því get ég stjórnað.
Þetta mikla hatur á Pútín er einmitt vandamál. Pútín er ekki Hitler, það þarf að semja við hann til að binda enda á stríðið í Úkraínu og til að hlífa landinu frá frekari mannfalli og eyðileggingu. Ólíkt Hitler hefur Pútín margoft boðist til að semja. Bara ef fólk (og stjórnmálaleiðtogar á Vesturlöndum) myndu hlusta.