Það er grundvallarstef í umræðum um opinber útgjöld hjá hægrimönnum og þeim sem aðhyllast nýfrjálshyggjuhagfræði að útgjöldin séu alltaf of há og að þau séu alltaf að aukast of mikið. Þetta er einnig algengt sjónarmið í meginstraumshagfræði og getur leitt til óeðlilegrar hlutdrægni sérfræðinga sem tjá sig um efnahagsmál. Fjölmiðlar renna þessu svo í gegn án athugunar eða gagnrýni.
Venjulega tengist þetta hugmyndafræðilegri áherslu um að draga úr hlutverki ríkisins (hins opinbera) og auka hlutverk einkageirans og markaðarins.
Undanfarið hefur það hljómað eins og síbylja hér á landi að útgjöld hins opinbera hafi aukist meira en á hinum Norðurlöndunum. Á þessu var sérstaklega hamrað í síðustu umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun stjórnvalda til næstu fjögurra ára, sem var um sumt villandi. Margir hafa í kjölfarið dregið þá ályktun að opinber útgjöld hér séu óeðlilega há og það eigi því að vera sérstakt forgangsmál að draga þau niður. Þetta var t.d. fullyrt í umsögn meirihluta fjárlaganefndar Alþingis í vikunni.
En þetta er allt kolrangt. Opinber útgjöld hér eru hvorki óeðlilega há nú miðað við síðasta aldarfjórðung né heldur miðað við önnur ríki í Evrópu. Þau voru á síðasta ári (2023) lægri en á öllum hinum Norðurlöndunum og raunar undir meðaltali Evrópuríkja.
Það sem er rétt er það að útgjöld voru aukin tímabundið í Kóvid-kreppunni (en hafa síðan lækkað talsvert), en gallinn er sá að stjórnvöld ákváðu að sleppa því að fjármagna útgjaldaaukninguna og því hefur verið halli á ríkisbúskapnum síðan.
Staðreyndirnar eru skýrar
Mynd 1 sýnir útgjöld og tekjur hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) sem hlutfall af landsframleiðslu. Útgjöldin á síðasta ári voru 45,1% en langtímameðaltalið frá árinu 2000 er 47,3%. Útgjöldin eru nú svipuð og þau voru árin 2000 og 2001 og eru sem sagt nú vel undir meðaltali tímabilsins (rauða punktalínan á myndinni). Tekjurnar eru enn meira undir meðaltali tímabilsins (bláu punktalínurnar).
Umsvif hins opinbera eru þannig með lægra móti nú en alls ekki óvenjulega há.
Myndin sýnir einnig skýrlega hvernig tekjur hins opinbera héldust með lægsta móti í gegnum Kóvid-kreppuna og síðar, sem er orsök hallans sem enn er á fjárlögum ríkisins.
En hvernig stendur Ísland í samanburði við önnur evrópsk ríki? Það má sjá á mynd 2.
Ísland er með 45,1%, rétt undir meðaltali Evrópuríkjanna á myndinni. Hinar norrænu þjóðirnar eru með frá 46,5% (Noregur) til 55,6% (Finnland). Danmörk og Svíþjóð eru með 47,2% og 48%. Ísland er sem sagt í lægri kantinum í Evrópu þegar opinber útgjöld eru könnuð og lægst á Norðurlöndum.
Sú mynd sem dregin hefur verið upp af opinberum útgjöldum sem miklum vanda hér á landi er því vægast sagt villandi. Skuldir hins opinbera á Íslandi eru einnig með allra lægsta móti í samanburði við önnur vestræn ríki.
Hættulegur áróður
Ástæðan fyrir síbyljunni um að opinber útgjöld séu of há hér á landi og að þau séu alltaf að aukast of mikið er hugmyndafræðilegs eðlis. Hún er sett fram til að halda aftur af framförum í velferðarmálum, ýta undir einkavæðingu (sbr. algeng ummæli í stjórnmálum: „selja þarf opinberar eignir til að ná niður útgjöldum og skuldum“) og til að draga úr hlutverki hins opinbera í samfélaginu.
Þetta er þannig hluti af hugmyndafræðilegri baráttu hægri manna, forystu fyrirtækjanna og margra hlutdrægra meginstraums hagfræðinga.
Þetta er sérstaklega hættulegur áróður vegna þess að í kjölfar mjög örs vaxtar efnahagslífsins á Íslandi þá hefur safnast upp mikil innviðaskuld sem brýnt er að taka á. Það er einkum afleiðing af mjög örum vexti ferðaþjónustunnar. Þetta hefur skapað gríðarlegan þrýsting á samgöngukerfið, heilbrigðiskerfið og húsnæðiskerfið, sem almennt ráða ekki lengur við hlutverk sín þannig að viðunandi sé. Á öllum þessum sviðum hafa útgjöld og framkvæmdir ekki haldið í við ört vaxandi þörf.
Það er helst Samfylkingin á Alþingi sem hefur sett lagfæringar á þessum málum á dagskrá og er það vel. Vonandi taka aðrir flokkar undir það í framhaldinu.
Á þessum vanda, sem öllum ætti að vera ljós, þarf að taka og það kallar víða á aukin opinber útgjöld. En mikilvægt er að fjármagna þau útgjöld til fulls, því þá er hægt að komast hjá auknum verðbólguþrýstingi af auknum útgjöldum.
Eins og ASÍ hefur ítrekað bent á þarf ekki að leggja aukin gjöld á almennt launafólk eða lífeyrisþega til að ná þessum markmiðum. Nóg er að færa álagningu á fjármagnstekjur, miklar eignir og auðlindanýtingu nær því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum og lagfæra augljósa galla á skattkerfinu, sem býður upp á of miklar glufur fyrir fyrirtæki og fjársterka aðila til að koma sér undan eðlilegum skattgreiðslum.
Allt talið um of mikil opinber útgjöld og endalausa þörf á niðurskurði er eins og það sé einhver ómöguleiki að taka á því sem er í ólagi í íslensku samfélagi.
Tökum bara lögregluna sem dæmi. Nú eru álíka margir lögreglumenn á vakt á höfuðborgarsvæðinu og voru um 1990. Hugsið ykkur! Allir skilja að þörfin hefur stóraukist síðan þá, vegna fólksfjölgunar og verulega aukins fjölda ferðamanna. Þetta gildir líka um heilbrigðismálin og enn frekar um húsnæðismálin.
Það er því mikilvægt að leiðrétta allar rangfærslurnar um opinber útgjöld sem viðhafðar eru hér á landi.
Stefán Ólafsson er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu.
Athugasemdir (7)