Kærunefnd útboðsmála ógilti um miðjan síðasta mánuð val tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu á ljósabúnaði, í útboði sem auglýst var síðasta vor. Tækjaleigan Exton varð hlutskörpust í útboðinu, en tvö fyrirtæki, Luxor tækjaleiga ehf. og ID Electronics ehf. kærðu útboðið og leiddi fyrri kæran, frá Luxor, til þess að samningsgerð Hörpu við Exton var stöðvuð þegar í júlímánuði.
Þetta kemur fram í tveimur úrskurðum frá kærunefndinni, sem voru birtir á úrskurðavef stjórnvalda 30. desember. Í þeim segir að í útboðinu hafi verið sett á fót sérstök matsnefnd til að leggja mat á ljósin og gefa þeim einkunnir, en við framkvæmdina voru öll þau ljós sem boðin voru fram af alls fimm fyrirtækjum sett upp og prufukeyrð í sölum hússins.
Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að aðferðafræði nefndarinnar við stigagjöfina hefði verið óhefðbundin, auk þess sem aðferðafræðinnar hefði ekki verið getið í útboðsgögnum og beiting hennar því ekki verið fyrirsjáanleg fyrir fyrirtækin sem tóku þátt í útboðinu. Auk þess taldi kærunefndin að störfum matsnefndarinnar við mat á litablöndun ljósanna hefði verið áfátt.
10, 6, 4, 2, 0
Í úrskurðum kærunefndarinnar er farið yfir það hvernig stigagjöfinni hjá matsnefndinni var háttað, en segja má að um hálfgerða Eurovision-stigagjöf hafi verið að ræða.
Við hvern lið matsins gaf nefndin stig þannig að það ljós sem þótti best fékk 10 stig, það ljós sem þótti næst best fékk 6 stig, þá 4 stig, svo 2 og loks fengi sísta ljósið 0 stig.
Kærunefnd útboðsmála segir að af þessari stigagjöf leiði „að munurinn á milli ljósanna var ekki endilega sá sem stigagjöfin gaf til kynna“.
„Það ljós sem þótti best í hverjum flokki fékk enda ávallt tilteknum stigafjölda meira en þau sem komu á eftir jafnvel þótt óverulegur munur hafi verið á gæðum ljósanna eða hvernig þau uppfylltu þau atriði sem matsnefndin horfði til. Stigamatið var því til þess fallið að ýkja gæði ljósa sem fengu góða einkunn fyrir einn þátt og gefa til kynna að þau stæðu að gæðum nokkru framar öðrum. Að sama skapi var það til þess fallið að gera öðrum ljósum erfitt fyrir ef þau fengu ekki góða einkunn fyrir einn þátt,“ segir í úrskurði kærunefndarinnar.
Niðurstaða kærunefndarinnar varð því sem áður segir að fella val Hörpu á ljósum frá Exton úr gildi, en auk þess var Harpa, sem er í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, talin skaðabótaskyld gagnvart ID Electronics, og þarf tónlistar- og ráðstefnuhúsið einnig að greiða bæði Luxor tækjaleigu og ID Electronics eina milljón króna í málskostnað.
Samkeppniseftirlitið skoðaði útboðsmál Hörpu
Ekki er ýkja langt um liðið frá því að annað stjórnvald, Samkeppniseftirlitið, gerði nokkrar athugasemdir við útboðsmál í Hörpu, en í áliti eftirlitsins frá því í júlí voru Hörpu meðal annars gefin tilmæli um að „viðhafa í ríkara mæli verðfyrirspurnir og útboð við leigu á viðbótartækjum sem nauðsynleg eru í starfsemi tónlistarhússins“.
Við greiningu Samkeppniseftirlitsins á árunum 2011-2019 sást að á bilinu 55-60 prósent allra leiguviðskipta með viðbótar hljóð-, ljósa- eða myndbúnað var við fyrirtækið Exton, sem varð hlutskarpast í útboði á ljósa- og hljóðkerfum hússins við útboð sem ÍAV stóð fyrir er húsið var í byggingu árið 2008.
Einnig fékk Harpa tilmæli um að endurskoða verklag og reglur sem heimila viðskiptavinum að leigja og nýta tækjabúnað frá öðrum aðilum en Hörpu. Var mælst til þess af hálfu Samkeppniseftirlitsins að fallið yrði frá því að gera það að skilyrði að Harpa leigði búnaðinn og endurleigði hann svo til viðskiptavina.
ID Electronics hafði þá áður kvartað yfir því að reglur Hörpu kæmu í veg fyrir að hægt væri að nota utanaðkomandi hljóðkerfi í húsinu, og þrátt fyrir að Harpa hefði að einhverju leyti brugðist við kvörtunum í þá veru var áfram kvartað yfir miklum kostnaði og öðrum mögulegum hindrunum.
Athugasemdir