Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi, lenti oftast í 1. sæti í Kosningaprófi Heimildarinnar fyrir forsetakosningarnar 2024. Katrín lenti í 1. sæti hjá 24,4 prósent þátttakenda, rétt tæpu prósentustigi lægra en hún hlaut í kosningunum sjálfum. Katrín fékk 25,2 prósent greiddra atkvæða í forsetakosningunum og laut í lægra haldi gegn Höllu Tómasdóttur sem fékk 34,1 prósent greiddra atkvæða.
Gengi Höllu í Kosningaprófi Heimildarinnar var öllu lakara, en hún reyndist sjötti vinsælasti frambjóðandinn þar sem 8,9 prósent þátttakenda var oftast sammála Höllu.
Jón Gnarr var næst vinsælasti frambjóðandinn á eftir Katrínu. 17,1 prósent þátttakenda voru oftast sammála Jóni. Þar á eftir kom Arnar Þór Jónsson (14,5 prósent), Halla Hrund Logadóttir (13,1 prósent) og Helga Þórisdóttir (9,4 prósent).
Halla Tómasdóttir var, sem fyrr segir, í sjötta sæti en í því sjöunda var Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir sem lenti í fyrsta sæti í 4,8 prósent tilfella. Baldur Þórhallsson kom þar á eftir en lenti í fyrsta sæti hjá 3,8 prósent þátttakenda. Þar á eftir komu Ásdís Rán Gunnarsdóttir (2,6 prósent) og Eiríkur Ingi Jóhannsson (1,5%).
Svör bárust ekki frá Viktori Traustasyni og Ástþóri Magnússyni.
Niðurstöðurnar byggja á nafnlausum prófniðurstöðum. Athugið að engin takmörk voru á því hversu oft mátti taka prófið.
Athugasemdir (2)