Oddný G. Harðardóttir, þingkona Samfylkingarinnar, sagði á þingi í dag ekki útlit fyrir að stjórnvöld ætluðu sér að veita Grindvíkingum aukinn stuðning til þess að mæta því tjóni sem þeir hafa þegar orðið fyrir vegna jarðhræringa og eldgosa við bæinn. Tvö stjórnarfrumvörp um stuðning við Grindvíkinga voru til umræðu á Alþingi í gær.
„Á þeim frumvörpum sem við ræddum í gær má skilja að ekki verði meira gert í stuðningi við Grindvíkinga,“ sagði Oddný og vísaði til stjórnarfrumvarps um framhald á núverandi stuðningsaðgerðum við Grindvíkinga og stjórnarfrumvarps um afurðasjóð Grindavíkurbæjar.
„Frumvarpið var um framlengingu rekstrarstyrkja og húsnæðisstuðningi út árið ásamt framlengingu á stuðningi til fyrirtækja til að greiða laun starfsmanna út ágústmánuð. Hitt málið er um afurðasjóð ef tjón verður á matvælum og fóðri í næstu hamförum og er ekki ætlað að bæta tjón sem þegar hefur orðið,“ sagði Oddný sem telur að enn liggi ekki fyrir lausnir sem virki fyrir alla.
„Stjórnarflokkarnir lofuðu að þeim sem ekki fengju lausn sinna mála yrði mætt síðar en það bólar ekkert á slíkum lausnum. Einstaklingarnir þurfa að standa skil á lánum og skuldbindingum og mörg þeirra eru komin í veruleg vandræði,“ sagði Oddný og spurði:
„Á virkilega að láta hóp Grindvíkinga sitja uppi með stórkostlegt tjón eftir hamfarirnar?“
Síðasta framlengingin
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, kynnti frumvarpið um breytingar á ýmsum lögum um framhald á stuðningsaðgerðum við Grindvíkinga. Í frumvarpinu er lagt til að ýmsar stuðningsaðgerðir verði framlengdar, mest til 31. janúar 2025. Þetta á að vera síðasta framlenging aðgerðanna, miðað við greinargerð með frumvarpinu.
„Ekki eru uppi áform um að framlengja frekar umrætt tímabil umfram þann tíma sem gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, spurði Lilju út í þetta í tvígang í gær. Þegar Lilja hafði verið innt eftir svörum öðru sinni sagði hún: „Vari þetta ástand áfram og við þurfum að aðstoða áfram munum við gera það.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kynnti jafnframt frumvarpið um afurðarsjóðinn í gær.
„Markmiðið er að treysta áframhaldandi atvinnustarfsemi í Grindavíkurbæ með því að gefa atvinnurekendum kost á að sækja um fjárhagsaðstoð til að bæta meiriháttar óbeint tjón á afurðum og hráefni vegna hamfaranna,“ sagði Bjarkey. „Úrræðið er hluti af tillögum ríkisstjórnarinnar um frekari stuðning við heimili og fyrirtæki í Grindavík.“
Athugasemdir (1)