Baldur Sigurðarson hefur búið á áfangaheimilum Betra lífs í Fannborg, Ármúla og á Kópavogsbraut. Á meðan hefur hann verið að selja ýmis lyf. „Ég get alveg viðurkennt það. Þessar bætur sem ég er að fá duga mér ekki,“ segir hann og tekur fram að hann fái rúmlega 300 þúsund krónur í bætur mánaðarlega.
Baldur segist hafa lent í slysi fyrir fjölda ára sem hafi leitt til þess að hann skaddaðist alvarlega á sjón. Hann sé lögblindur og öryrki. „Ég þarf að selja lyfin mín til að framfleyta börnunum mínum. Ég næ í eins mikið af lyfjum og ég get og ég sel þau. Ég hef enga aðra leið því ég er lögblindur. Ég get ekki neins staðar fengið vinnu,“ segir Baldur og grætur.
Spurður hvaða lyf hann sé að selja segir hann þetta aðallega vera morfínlyf, svokölluð bensólyf sem eru róandi, og svo örvandi lyf. „Ég get ekki gert neitt annað til að hjálpa börnunum mínum,“ segir hann.
Fyrsta áfangaheimili Betra lífs sem Baldur bjó á var í Fannborg 4, gömlum skrifstofum velferðarsviðs Kópavogs sem Arnar Gunnar Hjálmtýssin, rekstraraðili Betra lífs, breytti í áfangaheimili. Síðar hafði Baldur fengið að vera nokkra daga í Betra lífi í Ármúla, rétt áður en hann fékk inni á Kópavogsbraut.
„Þegar konur skulda mér pening og ég fer að rukka þær þá fara þær að tala um misnotkun og svona vitleysu. Sem er bara ekki satt. Veistu, það hefur verið ráðist á mig. Ég hef verið laminn út af þessu“
Að sögn Baldurs hefur hann ekki alltaf rukkað strax þegar hann er að selja heldur lánað, sér í lagi konum, og það hafi leitt til vandræða. „Þegar konur skulda mér pening og ég fer að rukka þær þá fara þær að tala um misnotkun og svona vitleysu. Sem er bara ekki satt. Veistu, það hefur verið ráðist á mig. Ég hef verið laminn út af þessu,“ segir Baldur, og vegna þess sem sagt er um hann eigi hann oft undir högg að sækja ef hann reynir að fara á Kaffistofu Samhjálpar eða í neyðarskýli Reykjavíkurborgar.
Spurður um allan þann fjölda kvenna sem eru langt leiddir fíklar og bera hann þessum sökum segir Baldur það skýrast af því að hann hafi bara lánað of mörgum of mikið af lyfjum: „Ef ég lána konu, og lána henni aftur og aftur, og skuldin er komin upp í einhver hundruð þúsund, þá segir hún „Ég ætla ekki að borga honum Baldri því hann er að heimta að ég totti sig.“ Svona kjaftæði. Þetta er bara fokkíngs lygi. Við erum að tala um tólf til fjórtán konur að minnsta kosti, eða stelpur, sem segja að ég hafi verið að misnota þær kynferðislega vegna þess að þær skulda mér og vilja ekki borga mér, og ég er að reyna að rukka þær,“ segir Baldur. „Ég er bara búinn að lenda í virkilega miklum vandræðum út af þessu,“ segir hann.
Baldur sýndi blaðamönnum húsnæði áfangaheimilisins á Kópavogsbraut skömmu áður en það var rifið. Pillur og kassar utan af þeim voru víðs vegar í húsinu og í herberginu hans Baldurs, sem hann sjálfur sýndi blaðamönnum, var kassi utan af Contalgini, morfíni.
Gat ekki spornað við vegna ölvunarsvefns
Ef gælunafni Baldurs, Ofur-Baldur, er slegið upp í leitarvél Google, er það fyrsta sem kemur upp frétt á DV um að hann hafi verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir fíkniefnalagabrot. Í greininni, sem birtist árið 2018, er einnig tekið fram að Baldur hafi alls átta sinnum hlotið dóma, þar á meðal fyrir kynferðisbrot.
Árið 1997 var Baldur dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í átta mánaða fangelsi fyrir kynferðisbrot „með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 15. desember 1996 í svefnherbergi konunnar X í íbúð að …, Reykjavík, haft holdlegt samræði við konuna og notfært sér það að hún svar ölvunarsvefni og gat af þeim sökum ekki spornað við samræðinu,“ eins og segir í dómnum.
Í skýrslu læknis á bráðamóttöku var ástandi konunnar á meðan skoðun fór fram lýst þannig að hún hafi verið „í hnipri“ hjá móður sinni og fengið hvað eftir annað grátköst. „Svo virðist sem hún hafi aðallega orðið hrædd, þegar hún vaknaði, og hún endurtaki sífellt: „Þetta gerðist heima hjá mér.“ Þá er að auki krossað við, að hún sé í losti, óróleg, óttaslegin, endurlifi árás og sýni kreppuviðbrögð, hroll og vöðvaspennu,“ segir í dómnum sem Heimildin hefur undir höndum. Sálfræðingur sem kom fyrir dóminn sagði að „fyrstu tveir, þrír mánuðurnir hefðu verið x mjög erfiðir, og taldi, að hún ætti eftir nokkra mánuði til að ná sér“.
Spurður um kynferðisbrotadóminn frá 1997 segir Baldur: „Ég var dæmdur. Þetta var svo ósanngjarnt, eins og hugsast getur. Ég er ekki kynferðisglæpamaður, það er svo langt því frá. En þetta er brot sem ég hef á minni ferilskrá. Ég get ekkert gert í því. Ég myndi aldrei misbeita konu. Það er þannig,“ segir Baldur.
Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Heimildarinnar um áfangaheimili Betra lífs sem Arnar hefur rekið á nokkrum stöðum síðan 2019.
Hér má lesa umfjöllunina í heild sinni:
Athugasemdir vegna eiturlyfja og vændis
Arnar opnaði áfangaheimilið í Fannborg árið 2019. Haustið 2020 var hann kallaður á fund Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Á fundinum var Arnari tjáð að húsnæðið væri ekki skráð í samræmi við þá starfsemi sem þar fór fram og að kvartanir hefðu borist frá íbúum.
Arnar bauð eftirlitinu að koma í heimsókn daginn eftir, sem og þeir gerðu, en hefðbundið er að heilbrigðiseftirlitið fari í óboðnar heimsóknir. Í málaskránni skrifaði fulltrúinn eftir heimsóknina: „Húsnæðið er ekki fullkomið en ekki voru sjáanleg ummerki eftir raka eða myglu, og í raun eina sem hægt var að setja eitthvað út á er umgengni íbúa á salernum sem er afar ábótavant.“
Í málaskránni fylgdi einnig minnisblað og það merkt: „Eiríkur, félagsmálaráðuneyti samtal.“ Þar kemur fram að maður að nafni Eiríkur hafi hringt og spurt út í eftirlit með áfangaheimilinu og að tveir íbúar hefðu rætt við hann varðandi „verulegan óþrifnað, brotnar hurðir, ólöglega starfsemi (eiturlyf, vændi)“. Fulltrúinn frá eftirlitinu sem sá um málið tilkynnti honum að áfangaheimili væru ekki starfsleyfisskyld og íbúar sæju sjálfir um að elda og þrífa. Fulltrúinn benti einnig á að fyrst að það væri verið að fara að rífa húsið væri „spurning hvort eitthvað eigi að vera gert þarna til að laga til“.
Athugasemdir