Um miðbik grunnskólagöngu frumburðar míns fluttist fjölskyldan búferlum til Danmerkur. Dóttir mín var fljót að aðlagast í nýju skólaumhverfi. Í fyrstu foreldraviðtölunum í almenna skólanum, eftir móttökubekkinn, fengum við þó alltaf að heyra að hún tjáði sig ekki nógu mikið í kennslustundum. Hafði kennarinn þó nokkrar áhyggjur af þessu.
Okkur þótti þetta skjóta skökku við þar sem hér heima þótti vandamálið frekar snúast um að hún talaði of mikið í kennslustundunum. Sem kennari undraðist ég sjálf hvað dönsku nemendurnir mínir áttu auðvelt með að taka þátt í samræðum á málefnalegan og skapandi hátt og hversu rökræður voru þeim tamar.
Þegar við kynntumst danska skólakerfinu betur sáum við hversu munnleg tjáning skipar stóran sess í námskránni. Ólíkt því sem við áttum að venjast þá er hæfni til að koma þekkingu sinni á framfæri munnlega og færni til samskipta um námið metin sérstaklega, bæði með munnlegum prófum og þátttöku í kennslustundum.
Á Íslandi hefur fyrirlestrarformið lengi verið algeng kennsluaðferð. Kennarinn stendur uppi við töfluna og veitir fyrirlestur um námsefnið meðan nemendur hlusta, glósa og skjóta inn stöku spurningu. Eiginlegt samtal á sér ekki stað heldur matreiðir kennarinn námsefnið og matar síðan nemendur sína á því, eina skeið í einu.
Málefni barna og ungmenna sett á oddinn
Það er samfélagslega mikilvægt að börn læri frá unga aldri að taka þátt í rökræðum, beita gagnrýnni hugsun og viti að þau eiga rödd. Markviss þjálfun í því að eiga samtal er mikilvægur liður í því að stuðla að virkri þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi. Þó er ekki síður mikilvægt að kunna að hlusta – enda á samtalið sér tvær hliðar, tjáningu og hlustun.
Þetta veit háskólaprófessorinn og forsetaframbjóðandinn Baldur Þórhallsson. Hann hætti snemma á sínum kennsluferli að nota fyrirlesturinn sem kennsluaðferð og hefur allar götur síðan beitt sókratískri samræðuaðferð í sinni kennslu. Þannig virkjar hann nemendur í umræðum um námsefnið og gerir þá að virkum þátttakendum í eigin þekkingarleit.
Ég gleðst sérstaklega yfir því að Baldur skuli setja málefni barna og ungmenna á oddinn í sinni kosningabaráttu. Baldur hefur gert það að umtalsefni að mörgum börnum og ungmennum líði ekki nógu vel og að við getum gert betur. Þar er ég honum hjartanlega sammála.
Sjálf starfa ég í þverfaglegu teymi sem kemur að málum barna með fjölþættan vanda og verkefnin eru ærin. Menntun er eitt öflugasta jöfnunartæki samfélagsins og í skólakerfinu eiga öll börn að upplifa sömu tækifæri og inngildingu.
Hætta að tala um börn og fara að tala við þau
Markmið Baldurs er að jafnréttisparadísin Ísland verði í fremstu röð meðal þjóða þegar kemur að málefnum barna okkar og ungmenna. Þar vill hann beita sér á þann hátt að forsetaembættið hafi frumkvæði að því að leiða saman ýmsa hópa í samtal til að vinna að hagsæld barna og ungmenna.
Ég veit að hann mun einnig kalla börnin sjálf að borðinu. Í mínu starfi leggjum við áherslu á að tala ekki eingöngu við fullorðna fólkið um börnin og þeirra áskoranir, við teljum ekki síður mikilvægt að ræða við börnin sjálf, í samræmi við aldur þeirra og þroska. Við viljum hætta að tala bara um börn og fara að tala við þau líka. Ég veit að Baldur er sammála mér um mikilvægi þessa og hann mun bjóða börnum og ungmennum upp á samtal um málefnin sem snerta þau og brenna á þeim.
Ég er sjálfboðaliði við framboð Baldurs og er nánast daglega í einhverjum verkefnum á kosningaskrifstofunni á Grensásvegi 16. Það er sláandi falleg orka í húsinu og gleði og jákvæðni ríkjandi meðal allra sem þangað koma. Það segir mikið um mannkosti Baldurs hversu margir eru tilbúnir til þess að leggja hönd á plóginn.
Ég hef fylgst með honum taka á móti ungu fólki, kennurum og fleiri hópum í samtal. Baldur fellur aldrei í þá gryfju að breytast í vélbyssukjaft sem ryður úr sér réttu orðunum á smekklega vélrænan hátt án þess að svara neinu.
Hann er aldrei upptekinn að því að koma sjálfum sér og sínu orðagjálfri að. Baldur hlustar fyrst og fremst af alúð, einlægum áhuga og virðingu við alla sína viðmælendur, háa sem lága, og mun uppskera í samræmi við það.
Þið megið bóka að Baldur verður forseti sem hlustar á þjóð sína.
Athugasemdir (2)