Ég hef oft verið spurð að því hvað Fjölskyldufræðingar gera og því langaði mig að skrifa um mikilvægi starf fjölskyldufræðinga. Fjölskyldan er grunneining samfélagsins og byggir velferð samfélaga einnig á því hvernig við eigum samskipti við okkur sjálf, aðra og umhverfi okkar. Góð tengsl í fjölskyldum hafa forvarnargildi varðandi félagslega, líkamlega og andlegan líðan.
Í þróunarsögu mannsins hefur komið fram að maðurinn gat ekki lifað einsamall til að komast af í náttúrunni horft til líkamlegs atgervis, til dæmis í baráttu við rándýr. Maðurinn þurfti því að vera hluti af hóp þar sem tengsl við aðra menn skipti sköpum til að lifa af, afla sér fæðu og verjast ógn. Það sem hefur áhrif á þrautseigju okkar og velferð er að vera í nánum tengslum við aðra, að mynda heilbrigð geðtengsl og þar spilar fjölskyldan stórt hlutverk.
Ástæða þess að ég tala hér um geðtengsl er sú að fjölskyldufræðingar horfa til mikilvægi þess að hafa tengslagleraugun alltaf uppi, það er kjarninn sem við horfum til sama hvaða aðferðafræði í meðferð er notuð. Þær tengslaaðstæður sem við bjuggum við á uppvaxtarárunum hefur áhrif á samskipti okkar við aðra síðar á lífsleiðinni. Þegar við fullorðnumst höfum við enn þörf fyrir tengsl við aðra, að eiga örugga höfn hjá öðrum einstakling líkt og við þörfnuðumst sem börn.
Rannsóknir hafa sýnt að geta okkar til að mynda geðtengsl við aðra á fullorðinsárum veltur einnig á eigin geðtengslamyndun í frumbernsku og hvernig umönnun við fengum. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt að tengslaáföll sem og önnur áföll geta erfst kynslóða á milli því áföll hafa áhrif á andlega- og líkamlega heilsu og geta haft áhrif á færni okkar til að mynda og viðhalda tengslum við aðra.
Í dag er hraðinn í samfélaginu mikill, fjöldi gæðastunda sem fjölskyldur eiga saman fer dvínandi og streitukerfi fjölskyldna er oft þanið. Heilbrigt tengslakerfi getur verið ein sterkasta forvörnin varðandi það hvernig við tökumst á við streitu, erfiðar tilfinningar og hvernig við túlkum og lesum í aðstæður. Flótta- og árásarkerfi líkamans er varnarkerfi og ef umhverfi barna sem og fullorðinna er sífellt undir streitu dregur það úr færni til að vinna úr tilfinningum og getur aukið líkur þess að leitað sé óheilbrigðra leiða til að takast á við erfiðar tilfinningar.
Í samfélagi nútímans er ein af stærstu áskorunum okkar mannsins að hægja á og skapa aukið rými til að fjölskyldur geti átt tengslaeflandi samveru. Fjölskyldugerðir geta verið flóknar og eru allar einstakar á sinn hátt. Margt getur truflað fjölskyldukerfið og valdið streitu, til dæmis breyttar aðstæður, áföll, veikindi, sorg, geðrænn vandi, fíknivandi, skilnaðir og stjúptengsl, vandi í parasamböndum og krefjandi hegðun barna.
Fjölskyldufræðingar veita einstaklingum, fjölskyldum og pörum meðferð sem miðar að því að styðja fjölskyldumeðlimi að eiga betri samskipti, efla tengsl, að auka skilning og samkennd, stuðla að lausn ágreinings og styrkja fjölskylduna til að takast á við mótlæti lífsins. Þegar ákveðnir þættir verða yfirþyrmandi innan fjölskyldunnar eða það reynist erfitt að brjóta upp neikvætt mynstur þá getur fjölskyldumeðferð verið gagnleg.
Ekki er alltaf þörf á að allir í fjölskyldunni taki beinan þátt í meðferðinni en markmið fjölskyldumeðferðar er að vinna með einstaklinginn sem hluta af stærri heild þar sem einstaklingar mótast í samskiptum við aðra sem hefur áhrif á líðan þeirra og hegðun. Í fjölskyldumeðferð gefst einstaklingum, fjölskyldum og pörum tækifæri til að eiga erfið samtöl og geta kannað erfiðar og oft flóknar tilfinningar í öruggu umhverfi undir handleiðslu fjölskyldufræðings.
Markmið fjölskyldumeðferðar er að vinna að bættri velferð fjölskyldna og einstaklinga innan hennar, styrkja tengsl, auka skilning og jafnvægi í fjölskyldukerfinu og stuðla að því að fjölskyldan geti átt heilbrigð samskipti. Fjölskyldumeðferð getur hjálpað einstaklingum að skilja stöðu sína innan fjölskyldna betur og víðar í samfélaginu. Það getur leitt til aukins skilnings á sjálfum sér og hvernig við mótumst í samskiptum við aðra, hvernig við sjáum okkur sjálf og hvernig við sjáum aðra.
Sú menning og samskiptamynstur sem á sér stað innan fjölskyldna getur endurspeglast í því hvernig samfélag þessar sömu fjölskyldur skapa. Þess vegna getur sérþekking fjölskyldufræðinga og þjónustan sem þeir veita verið mikilvægur liður í því að stuðla að velferð samfélaga.
Fjölskyldufræðingar hafa lokið klínísku námi í fjölskyldumeðferð og starfa víða í samfélaginu, til dæmis á heilsugæslum og sjúkrahúsum, í félagsþjónustum, í skólum og á einkareknum stofum. Ég hef langa reynslu í vinnu með fólki sem glímir við erfiðleika og það er upplifun mín að fagþekking fjölskyldufræðinga eigi við á fjölmörgum stöðum og sé oft vannýtt úrræði.
Við erum allt og oft einungis að fræða og vinna með einkenni vandans en minna að veita meðferð sem miðar að því að skoða hvað það er sem veldur vandanum. Fjölskyldufræðingar veita meðferð byggð á gagnreyndum aðferðum sem hafa skilað árangri víða um heim. Í þessu streitumikla og hraða samfélagi sem við búum við er mikil þörf á auknu aðgengi að fjölskyldufræðingum sem veita tengslaeflandi meðferð og áfallavinnu með einstaklingum og fjölskyldum, en þeir hafa þjálfun í gagnreyndum aðferðum til að sitja í samtali með mörgum í einu og veita viðeigandi meðferð.
Þegar horft er til laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, lög nr. 86/2021, þá er það markmið laganna að börn og foreldrar hafi aðgang að þjónustu við hæfi án hindrana og mikilvægt að tryggja réttindi barna í samræmi við samning sameinuðu þjóðanna. Þá er horft til þess með lögunum að bregðast við þörf barna og foreldra fyrir þjónustu um leið og þörf krefur á fyrri stigum og draga þannig úr líkum þess að til verði alvarlegur vandi. Það er gert með því að styðja einnig við foreldra því það eykur líkur þess að það náist enn betri árangur í því stóra verkefni að gæta hagsmuna barna og hlúa að velferð þeirra.
Þessi nýju lög tala sérstaklega í takt við þá þjónustu sem fjölskyldufræðingar veita þegar horft er til þess að vinna með barn og foreldra saman en ekki í sitthvoru lagi, eða bara með barnið eins og algengt er. Eftirspurn eftir fjölskyldufræðingum hefur aukist töluvert síðustu ár og starfa margir þeirra í teymi með öðrum sérfræðingum sem gerir það að verkum að við náum enn betri árangri í þjónustu fyrir einstaklinga, börn og fjölskyldur, því saman getum við meira.
Athugasemdir