Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) gagnrýna fyrirhugaða breytingu á lagafrumvarpi matvælaráðherra um lagareldi sem felur í sér að tímabinda á rekstrarleyfin í greininni. Eins og frumvarpið var lagt fram af matvælaráðherra áttu rekstrarleyfin í laxeldinu að vera ótímabundin. Þetta hefur mætt harðri andstöðu og Bjarkey Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur dregið í land með þessa grein frumvarpsins. Í stað ótímabundinna rekstrarleyfa eiga þau að gilda í 16 ár.
Samanburðurinn við kvótakerfið í sjávarútvegi
Frumvarpið hefur verið borið saman við gjafakvótann í sjávarútveginum, í veiðum á villtum fiski, á níunda áratugnum. Munurinn á kvótakerfinu í sjávarútvegi og þessu kvótakerfi í laxeldi er hins vegar sá að einn helsti tilgangur kvótakerfisins í sjávarútvegi var visfræðilegur og sneríst um að verja villta fiskistofna gegn ofveiði og að gera ætti fiskveiðar sjálfbærar til framtíðar.
Þetta er óumdeildi hluti kvótakerfisins í sjávarútvegi, sá umdeildi er hvernig gæðunum var dreift og á hvaða forsendum. Þessu vistfræðilega sjónarmiði er ekki til að dreifa í sama hætti í laxeldinu þar sem ekki er um villta tegund að ræða. Vandamálið við laxeldisfrumvarpið er hins vegar það sama og í tilfelli kvótakerfisins: Að gefa eigi laxeldisfyrirtækjum varanlegan, ótímabundinn kvóta í laxeldi.
Eignarrétturinn sagður brotinn
Í umsögn um frumvarpið sem SFS sendi til atvinnuveganefndar Alþingis þann 16. maí síðastliðinn kemur ítrekað fram að samtökin telja að of mikil og íþyngjandi afskipti ríkisvaldsins af laxeldisfyrirtækjunum geti farið gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar, líkt og rekstrarleyfin í laxeldinu séu í reynd eign eða ígildi eignar hjá sjókvíaeldisfyrirtækjunum.
Um þetta segir meðal annars í umsögn SFS að ef breyta eigi þessu atriði, sem hingað til hefur verið umdeildasta atriði frumvarpsins, þá þurfi að milda það á annan hátt samhliða: „Samtökin benda þó á að eftil álita kemur að breyta frumvarpinu á þá leið að rekstarleyfum verði áfram markaður tiltekinn gildistími verður ekki framhjá því litið að fjöldamörg íþyngjandi ákvæði frumvarpsins eru mótuð með tilliti til varanleika rekstrarleyfa. Samhliða slíkum breytingum verður því að fara fram endurskoðun til mildunar á samhangandi heimildum til eignaskerðinga, stjórnsýsluviðurlaga og áformum um aukna gjaldtöku.“
Á öðrum stað í umsögninni er gagnrýnt að ríkisvaldið eigi að geta tekið kvóta í af laxeldisfyrirtækjum ef brot eiga sér stað í starfsemi þeirra, eins og til dæmis slysasleppingar. Samtökin segja að slíkar aðgerðir ríkisins feli sér í skerðingu á eignarréttindum. „Slík ákvæði fela í sér skerðingu á eignarréttindum og atvinnuréttindum sem njóta verndar 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.“
„Við slíkan samanburð skiptir höfuðmáli að öll leyfi til fiskeldis í Noregi eru veitt til varanlegrar eignar sem leyfishafa er heimilt að framselja á opnum markaði.“
Tímabundin leyfi leiði til minna íþyngjandi regluverks
Í umsögn SFS kemur einnig ítrekað fram að ef rekstrarleyfin í laxeldinu verða tímabundin þá eigi það að leiða til minni gjaldtöku, sekta, eftirlits og í reynd minni afskipta ríkisvaldsins af rekstri laxeldisfyrirtækjanna þar sem verðmætin sem þau eru með í höndunum verði minni. Þau telja að bæði gjaldtaka og eftirlit með laxeldinu séu „óhófleg“.
Um gjaldtöku ríkisins af laxeldisfyrirtækjunum segir um þetta: „Það gefur auga leið að forsendur frumvarpsins að þessu leyti grundvallast á því að verðmæti varanlegra rekstrarleyfa eru í eðli sínu meiri en þar sem þeim er úthlutað í formi afnotaréttar til afmarkaðs tíma.“
Samtökin benda á að í samanburði við gjaldtöku af laxeldisfyrirtækjunum í Noregi þá séu leyfin þar í landi varanleg og að ef þau eigi ekki að vera ótímabundin á Íslandi þá þurfi að horfa til þess við gjaldtöku á sjávarútvegsfyrirtækin. „Við slíkan samanburð skiptir höfuðmáli að öll leyfi til fiskeldis í Noregi eru veitt til varanlegrar eignar sem leyfishafa er heimilt að framselja á opnum markaði.“
Almennt séð segir um þessa gagnrýni samtakanna að endurskoða þurfi stóran hluta frumvarpsins í reynd ef breyta á ótímabundnum rekstrarleyfum í tímabundin.
Þau fá aldrei nóg, en þjóðin ræður engu!