Flestir, sem ganga til kosninga um næsta forseta lýðveldisins, nú 1. júní, virðast sammála um, að forsetinn þurfi að vera jafn hlutlaus og frekast má verða, og, að málefnaleg afstaða hans gagnvart stjórnmálunum sé örugg. Þar verður armslengdarreglan að gilda.
Skyldu stjórnmálin vilja fara aðra leið, en þjóðin, eða, ef forsetinn metur það svo, að stefna stjórnmálanna, í tilteknu máli, fari ekki saman við hagsmuni landsmanna, þá geti og muni hann grípa inn í og leggja málið fyrir þjóðina. Grípa til málsskotsréttarins.
Í þessu tilliti gegnir forsetinn mikilvægu eftirlits- og öryggishlutverki. En það er önnur hlið á valdi forseta, sem skiptir ekki minna máli, kannske miklu meira; veiting stjórnarmyndunarumboðs.
Það er algjörlega á valdi forseta, eftir hverjar Alþingiskosningar, hverjum hann veitir stjórnarmyndunarumboð. Þar gildir reyndar að nokkru leyti hefð, en hún er óljós og hana getur forseti túlkað skv. eigin dómgreind. Stærsti flokkurinn, eða sá, sem sótti mest fram, eins og var með Vinstri græna 2017!? Og, hvað, ef tveir flokkar eða þrír verða álíka stórir!? Sá, sem fær stjórnarmyndunarumboðið, með réttu eða röngu, reynir auðvitað að nýta það í botn; mynda stjórn, sem gæti svo setið í 4 ár.
Valdastaða flokka og tengsl
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa lengst af verið helztu stjórnmálaflokkar landsins, þó að Samfylkingin hafi nokkuð sótt í sig veðrið síðustu misseri. Formenn D og B eru enn ungir að árum, Bjarni Benediktsson 54ra ára og Sigurður Ingi 62ja ára. Guðmundur Ingi, sem tók við af Katrínu hjá Vinstri grænum, 47 ára.
Með formönnum D og B, auk síns eigin manns, hefur Katrín unnið mjög náið í 6-7 ár. Má ætla, að náin tengsl, trúnaður og vinátta, hafi myndast milli hennar og þessara félaga hennar. Sést það líka á verkunum, eða, öllu fremur, á öllum þeim miklu og margvíslegu málamiðlunum, sem þessir aðilar hafa sætzt á. Til að þau gætu haldið áfram saman, haldið áfram sinni nánu samvinnu.
Valdatími forseta og næsta ríkisstjórn
Guðni Jóhannesson ákvað að sitja aðeins í tvö kjörtímabil, svona eins og forseti BNA. Það kann að vera góður tími, nógu langur til að menn nái því fram, sem þeir vilja leggja áherzlu á, en ekki það langur, að ferskir vindar nái ekki að blása inn á milli á Bessastöðum.
Ef Katrín yrði kosin og sæti í tvö kjörtímabil, þó þau væru þrjú, gæti það gertzt, að sömu góðvinir hennar og fyrrum samherjar og mátar, Bjarni, Sigurður Ingi og Guðmundur Ingi, muni enn dómínera stjórnmálasviðið í landinu.
Hvernig mætti Katrín í þessari stöðu rækja forsetaskyldur sínar af fullkomnu hlutleysi og út frá málefnunum einum sér!? Jafnvel þó að hún vildi það – en ég ætla henni ekki annað – næði hún því vart í framkvæmd. Samherja- og vinatengsl eru alltaf sterk, skilja eftir sig sín spor og spila sína rullu.
Fyrir mér kæmi með slíkum hætti upp óheilbrigð og vafasöm staða. Kosið verður til Alþingis næsta ár.
Ef Sjálfstæðisflokkur og Samfylking stæðu þá uppi með svipað fylgi, og Bjarni væri enn forsætisráðherra, hverjum ætti Katrín þá að veita stjórnarmyndunarumboð? Bjarna eða Kristrúnu?
Líklegt er, að það þeirra, sem fengi umboðið, næði að mynda nýja stjórn og tryggja sér völdin til jafnvel 4ra ára.
Ef Katrín verður kjörin forseti, væri þetta í hennar höndum. Þarna myndi ég treysta betur á annan, hlutlausan og óbundinn forseta.
Hvað segja skoðanakannanir?
Skoðanakannanir benda til, að aðeins Halla Hrund Logadóttir og/eða Katrín Jakobsdóttir hafi raunhæfa möguleika á að ná kjöri. Þær eru einu frambjóðendurnir, sem eru með um/yfir 20% fylgi vegið fylgi. Það er liðið verulega á kosningabaráttuna, og líklegt, að þeir, sem liggja nú undir 20% fylgi, eigi ekki raunverulegan sjéns lengur.
Þetta verður því að líkindum tveggja frambjóðenda kapphlaup, Halla Hrund gegn Katrínu, og brýnt, að menn geri upp við sig, hvorn þessara frambjóðenda þeir vilja styðja, því stuðningur við aðra frambjóðendur gæti verið sóun atkvæðis.
Hér kemst aðeins einn að! Ef menn vilja vera með í leiknum, verða þeir að velja einhvern þeirra, aðra hvora, sem í raunveruleikanum á möguleika.
Ef menn veðja á „vonlausan hest“, kunna þeir í reynd, að vera að velja þann frambjóðanda, sem þeir vildu sízt!
Hvor hentar þjóðinni betur?
Halla Hrund býr yfir feikigóðri menntun, hérlendri og erlendri, auk umfangsmikillar starfsreynslu, á háu kunnáttu- og ábyrgðarstigi, líka hérlendis og erlendis. Hún er látlaus og alþýðleg, velviljuð og með góðan skilning á stöðu og möguleikum Íslands í heiminum. Hún er náttúru- og umhverfissinni – við eigum bara eina jörð – þjóðleg og, umfram allt, sjálfstæð og hlutlaus, óháð öllum stjórnmálaöflum landsins.
Halla Hrund er auðvitað ekki jafn þjálfuð og örugg í framkomu, á fundum og í kappræðum, og Katrín. Þar slær Katrín hana út á þessu stigi. Katrín er þrautþjálfuð í að koma fram og flytja sitt mál sannfærandi og vel, með sannfæringarkrafti og sjarma, eftir tæplega 7 ára forsætisráðherratíð og margvíslega þátttöku og framkomu hérlendis og erlendis.
En, þessi kosning snýst ekki um það!
Svipuð staða 1968
Þessi staða minnir á þann alþýðlega og tilgerðarlausa brag, sem var á Kristjáni Eldjárn, í samanburði við glæsilegan og málsnjallan stjórnmálamanninn Gunnar Thoroddsen, í kosningunum 1968. En, þá þegar, fyrir meira en hálfri öld, skildi þjóðin nauðsyn þess, að forsetinn væri hlutlaus fulltrúi þjóðarinnar, og kaus Kristján í embættið. Vigdís og Guðni fylgdu á sömu forsendum.
Þessar forsendur hafa reynst vel, og þær ættu að gilda áfram! Þess vegna mæli ég með Höllu Hrund til forseta!
Athugasemdir