Getur verið að við séum komin á spor svo öflugra tækniríkja úti í hinum endalausa alheimi að þau hafi megnað að smíða hvelfingar utan um heilu sólirnar og sólkerfin?
Það er að minnsta kosti ekki útilokað. Tveir hópar stjarnvísindamanna hafa verið að skoða gögn frá milljónum sólstjarna sem rannsakaðar hafa verið á undanförnum áratugum og þeir hafa fundið nokkra tugi sóla sem virðast gefa frá sér óeðlilega mikið af innrauðu ljósi miðað við stærð og gerð viðkomandi sólstjarna.
Og þótt eflaust kunni að vera ýmsar „eðlilegar“ skýringar á því, þá hafa vísindamennirnir hingað til ekki fundið þær — sem leiðir þá óhjávæmilega að þeirri ævintýralegu hugmynd hvort um geti verið að ræða svokallaðar Dyson-hvelfingar af einhverri sort.
Risastórar, já, brjálæðislega tröllvaxnar hvelfingar (eða net) sem viti bornar verur hafi þá smíðað utan um sólina sína til að afla nær ótakmarkaðrar orku frá henni.
Það var breski eðlisfræðingurinn og stærðfræðingurinn Freeman Dyson sem fyrstur skoðaði þessa hugmynd í alvöru árið 1960 en hann byggði reyndar á svipaðri hugmynd sem hafði komið fram í frægri vísindaskáldsögu Olafs Stapledons frá 1937, Star Maker.
Tilgangur Dysons var að láta sér detta í hug hugsanlegar leiðir viti borinna geimvera til að afla sér nægrar orku eftir að allar venjulegar orkulindir þeirra sólkerfis væru búnar og sú sólarorka sem hægt væri að fanga á heimaplánetunni dygði heldur ekki fyrir næstu skref.
Í raun felur hugmyndin að Dyson-hvelfingunni í sér að viðkomandi geimverur taka í sundur heilu pláneturnar í sólkerfi sínu og brjóti að lyktum niður sína eigin plánetu til þess að útvega nægt efni í hvelfinguna, sem geimverurnar búa síðan innan á.
Þetta er að minnsta kosti sú útgáfa hugmyndarinnar sem höfundar vísindaskáldsagna tóku fegins hendi, svona flestir.
Dyson sjálfur sagði seinna að hann hefði raunar alls ekki átt við heila kúlu eða hvelfingu utan um stjörnu. Það væri ógjörningur. Hann hefði í rauninni átt við einhvers konar mjög víðtækt net sólarsella, haldið uppi af stórri stórri grind.
En hvort heldur er, þá er slíkt auðvitað órafjarri mannlegri getu nú á tímum og í allri fyrirsjáanlegri framtíð.
En bíðum við.
Miðað við hraðann á tækniframförum mannsins bara undanfarin 200-300 ár, þá er hins vegar engin goðgá að ímynda sér að eitthvað þessu líkt kunni að verða hægt eftir tíu þúsund ár eða hundrað þúsund eða jafnvel milljón ár.
Nægur er tíminn — ef við náum að skrimta sem tegund.
Margir vísindaskáldsagnahöfundar tóku hugmyndinni um Dyson-hvelfinguna fagnandi, eins og drepið var á hér að ofan, og hafa nýtt hana í sögum sínum. Ein þekktasta sagan af því tagi er jafnframt ein sú fyrsta, en það er sagan Ringworld eftir Larry Niven sem út kom 1970.
Í hans sögu var raunar ekki um að ræða heila hvelfingu heldur „aðeins“ breiðan hring sem geimverur smíðuðu kringum sólina sína.
Dyson ályktaði að „einfaldasta“ leiðin til að nýta sólarljós innan hvelfingar eða nets af þessu tagi væri að breyta því í innrautt ljós. Og hann benti á að ef fólk vildi leita að sporum um tæknimenningu af þessu tagi væri til dæmis ekki galið að reyna að þefa uppi sólkerfi sem óvenju mikill innrauður varmi virtist stafa frá.
Og það er nú það sem vísindahóparnir tveir hafa nú gert.
Annar hópurinn starfar við háskólann í Uppsölum í Svíþjóð og Matías Suazo hefur orð fyrir þeim hópi. Hann bendir til dæmis á sjö „rauða dverga“ sem eru í innan við 900 ljósára fjarlægð frá sólinni okkar og gefa allir frá sér mun meiri innrauða orku en ætla mætti. Dvergsólir af því tagi væru einmitt „auðveldari“ viðfangs við byggingu Dyson-hvelfinga af því einfaldlega að þær eru ekki eins stórar og aðrar sólir.
Bæði hópur Suazo og hinn hópurinn sem Gabriella Contardo leiðir á Ítalíu leggja áherslu á að enn sem komið er sé sjálfsagt að reikna með að hið óvenjulega magn af innrauða ljósinu í sólkerfunum stafi af einhverju náttúrulegu ferli sem við höfum bara enn ekki áttað okkur á.
„En stórkostlegasta skýringin væri ef þarna leyndust Dyson-hvelfingar,“ segir Suazo.
Eitt af því sem vísindamenn hafa verið að velta fyrir sér að undanförnu er hversu æskilega það kunni að vera að við mennirnir reynum að vekja á okkur athygli í alheiminum ef hann er iðandi af lífi. Gæti ekki farið svo að þá mæti hingað bara geimverur sem fyrst og fremst hafi áhuga á að arðræna jörðina og tæma orkulindir hennar?
Um það er til dæmis fjallað í sjónvarpsseríunni 3 Body Problem sem margir hafa séð.
Þetta er spurning — en einu má þó líklega treysta: Ef geimverur búa yfir nægri þekkingu og færni til að smíða sér Dyson-hvelfingu, þá þurfa þær augljóslega ekkert á auðlindum okkar að halda og ættu því að vera hættulausar með öllu.
Er það ekki annars?
Hér er splunkuný grein á vefsíðunni New Scientist sem fjallar um þetta.
Er þetta hugarfar vegna þess að þannig hefur mannskeppnan hegðað sér í gegnum ár þúsundir, þegar nýtt land var numið ?
Ég tel að ef þróaðar verur utan úr geimnum kæmu hingað.
Þá myndu þær reyna að kenna okkur að láta af allri græðgi og þeirri siðspillingu sem tröllríður öllu hér á jörðinni.