Í dag, 13. maí, eru rétt 84 ár frá því örlög réðust í einni afdrifaríkustu orrustu síðari heimsstyrjaldar, orrustunni við Sedan í Frakklandi. Hún var hluti af árás þýska hersins í vesturátt og endaði með algjörum sigri Þjóðverja.
Nú munu ýmsir hvá yfir því að þessi orrusta verðskuldi orðalagið „ein afdrifaríkasta orrusta seinni heimsstyrjaldar“. Sjaldan er fjölyrt um þessa orrustu í sögu styrjaldarinnar og hún var reyndar ekki sérlega blóðug, miðað við ýmis önnur hrannvíg í heimsstyrjöldinni.
Fimm þúsund manns féllu eða særðust úr hvoru liði.
En hví skipti þessi orrusta þá svo miklu máli?
Í maí 1940 hafði stríð Breta og Frakka við Þjóðverja staðið í níu mánuði en á vígstöðvunum á landi hafði í raun fátt gerst.
Það „geisaði“ hið svokallaða „þykjustustríð“.
Frakkar áttu mjög öflugan og fjölmennan her. Í raun stóð hann þýska hernum vel á sporði hvað mannskap og tækjabúnað varðar, nema helst í lofti. Það átti þó eftir að há Frökkunum mjög illilega hve varnarsinnaðir og bölsýnir herforingjar þeirra voru. Þeim virtist fyrirmunað að bregðast hratt við, hvað þá af dirfsku.
Allir vissu hins vegar að Þjóðverjar myndu fyrr eða síðar gera árás í vestur. Frakkar létu sig hafa að bíða bara eftir þeirra árás.
Og flestir þóttust líka vita að árás Hitlers myndi í stórum dráttum fylgja forskrift keisarahersins úr fyrri heimsstyrjöld með mikilli árás gegnum Belgíu til þess að sneiða hjá varnarvirkjum Frakka á landamærum þeirra að Þýskalandi.
En Þjóðverjar höfðu lært sína lexíu af óförum fyrri heimsstyrjaldar þegar Frökkum tókst að stöðva árásina og síðan tóku við hjaðningavíg í skotgröfum í fjögur ár samfleytt.
Þjóðverjar réðust nú vissulega inn í Belgíu með miklu liði þann 10. maí og tóku þá reyndar Holland eins og í leiðinni. En þýska innrásarhernum í Belgíu var í raun ekki ætlað að stefna beint suður til Frakklands. Tilgangur hans var vissulega að ná svæðum í Belgíu en þó fyrst og fremst að lokka franskt og breskt herlið norður á bóginn meðan mestur hluti innrásarliðsins fór um Ardennajöll í Luxemburg og stefndi síðan beint til Sedan.
Fjöllin þau eru ekki há en þau eru nokkuð brött og skógi vaxin og vegakerfið um þau var í þá daga afar snautlegt, sums staðar varla nema mjóir troðningar. Það hafði hreinlega ekki hvarflað að Frökkum að Þjóðverjar myndu í alvöru senda meginher sinn um þessa fjallvegi og því voru varnir þar afar takmarkaðar.
Og það var að sjálfsögðu ástæðan fyrir því að Þjóðverjar höfðu afráðið að fara þessa leið.
Fyrstu dægrin eftir að innrásin hófst virtist allt fara eftir gömlum forskriftum. Þýski herinn í Belgíu stefndi í átt til Brussel en franski herinn axlaði sín skinn og lagði af stað norður þangað að hrekja hann brott. Frakkar fréttu náttúrlega brátt að furðu mikið þýskt lið virtist vera að brjótast um fjallvegina í Ardennafjöllum, en þeim þótti svo ótrúlegt að þar gæti verið um mikilvæga hernaðaraðgerð að ræða að þeir brugðust bæði seint og illa við.
Það var vissulega enginn leikur fyrir Þjóðverja að komast þar um. Í nokkur dægur var í fjöllunum „mesta umferðaröngþveiti í heimi“ að sögn Þjóðverja sjálfra. Þeir vissu vel að öflugar loftárásir Frakka á skriðdrekalestirnar og fótgönguliðssveitirnar í fjöllunum hefðu getað endað með algerum ósköpum fyrir innrásarliðið. En Frakkar virtust alveg glórulausir og kunnu ekkert að bregðast við þessum óvæntum tíðindum.
Þann 12. maí fóru þýsku hersveitinar að streyma niður úr Ardennafjöllum og beint til Sedan við ána Meuse. Það var lykilatriði fyrir innrásaráætlanir Þjóðverja að ná borginni og helst brúm yfir ána ósködduðum — en reyndar höfðu þeir meðferðis tæki og tól til að hrófla upp sínum eigin brúm í snatri.
Enn voru Frakkar illa undirbúnir og við Sedan voru litlar varnir. Nokkuð öflugt varnarlið var hins vegar staðsett beggja megin við borgina og ef það hefði brugðist hratt og örugglega við hefði vel getað farið svo að árás Þjóðverja hefði verið hrundið. Og þá hefði tími gefist til að kalla á meira lið til að stöðva ferðir þýska liðsins ofan úr fjöllunum.
13. maí 1940 var dagurinn sem þetta hefði átt að gerast.
Og ef Þjóðverjar hefðu verið reknir aftur frá Sedan eða Frökkum altént tekist að stöðva flutninga þeirra á liði sínu yfir ána, þá er sennilegt að heimsstyrjöldin hefði tekið allt aðra stefnu.
Ef Þjóðverjar hefðu ekki náð Frakklandi sumarið 1940 heldur stríðið þar endað í einhvers konar pattstöðu líkt og 1914, þá er til dæmis mjög ólíklegt að þeir hefðu lagt í árás á Sovétríkin 1941.
En Frakkar gripu ekki gæsina í Ardennafjöllum og ekki við Sedan.
Mikil er þeirra sök.
Athugasemdir