Þar var komið sögunni að Jesúa frá Nasaret í Galíleu var upprisinn og hafði verið með lærisveinum sínum í fjörutíu daga. Hann leiddi þá svo upp á Olíufjallið í nágrenni Jerúsalem og boðaði þar að heilagur andi myndi brátt koma yfir þá svo þeir gætu orðið hans vottar „allt til endimarka jarðarinnar“.
Og þegar hann hafði þetta mælt, skrifar guðspjallamaðurinn Lúkas í Postulasögunni, þá „varð hann upp numinn að þeim ásjáandi og ský huldi hann sjónum þeirra“.
Lærisveinarnir horfðu á eftir honum til himins en þá stóðu allt í einu hjá þeim tveir menn í hvítum klæðum og sögðu:
„Galíleumenn, hví standið þið og horfið til himins? Jesúa þessi sem var upp numinn frá ykkur til himins mun koma á sama hátt og þið sáuð hann stíga til himins.“
Jesúa lætur bíða eftir sér
Þá glöddust lærisveinarnir er þeir fréttu að fljótlega væri von á meistara þeirra aftur frá himnum, fóru til Jerúsalem og hófu að útbreiða fagnaðarerindið. Og dró síst úr þeim kjark þótt Jesúa léti svo bíða nokkuð eftir sér og er ekki kominn enn, svo vitað sé.
Nú er það svo að mörg þau undur og kraftaverk sem guðspjöllin lýsa að hafi fylgt Jesúa á ævi hans hér á jörðu eiga sér hliðstæður í öðrum trúarbrögðum. Þar má nefna allt frá boðun hans, fæðingu og til dauða og upprisu.
En ekki bara í trúarbrögðum.
Ýmsar sögur svipaðar þeim og sagðar voru um Jesúa voru líka á kreiki um ýmsa merka menn og ekki endilega guðlegs eðlis.
Þar má nefna að í söguriti sagnaritarans Livíusar um upphaf Rómaveldis er að finna frásögn af því þegar stofnandi Rómar stígur upp til himna.
Og hún er satt að segja furðu svipuð sögunni um uppstigningu Jesúa frá Nasaret.
Sagan um úlfynjuna
Romulus var afkomandi hins goðkynjaða Trójukappa Eneasar en fæddist í borginni Alba Longa nálægt Tíber. Afi hans var þar konungur og óttaðist um sinn hag þegar Romulus og tvíburabróðir hans Remus komu í heiminn. Hann lét því bera tvíburabræðurna út en úlfynja bjargaði lífi þeirra og hjarðmaður þar í sveit ól þá svo upp.
Þegar bræðurnir voru orðnir fullorðnir steyptu sér afa sínum af stóli en vildu svo stofna sína eigin borg og þá kastaðist í kekki milli þeirra, Romulus drap Remus og varð einn konungur yfir hinni nýju borg sem dró nafn af honum.
Borgin blómstraði og Romulus ríkti sem konungur í nærri fjörutíu ár.
Sagnaritarinn skrifaði um þetta allt saman kringum upphaf tímatals okkar (kringum fæðingu Krists sem sé) og eftir að tekið fram að gjörðir Romulusar muni aldrei falla í gleymsku og dá segir hann:
„Einu sinni var hann að fylkja liði sínu á Marsvöllum við Capra-mýrina rétt utan borgarmúranna og þá brast skyndilega á með miklum stormi og fylgdu ógurlegar þrumur og eldingar. Dimmt él luktist um Romulus, svo þétt að hann hvarf sjónum allra viðstaddra og frá þeirri stundu sást Romulus aldrei framar á lífi á jörðinni.
Hermenn harmi lostnir
Hermennirnir höfðu hrokkið í kút við hinn snögga byl en jöfnuðu sig fljótt þegar hann var að baki og sólin fór aftur að skína. Þá sáu þeir að hásæti Romulusar var autt og þó þeir hlytu að trúa öldungaráðsmönnunum, sem höfðu staðið við hlið konungsins og sögðu nú að hann hefði hafist til loftsins í hvirfilbyl í miðju stormsins, þá voru þeir jafn þrumu lostnir og börn sem skyndilega hafa misst föður sinn og lengi vel stóðu þeir þöglir og sorgmæddir.
Svo upphófust nokkrar raddir sem mæltu að nú hefði Romulus verið tekinn í guða tölu, og röddunum fjölgaði og urðu að háværu hrópi og að lokum tóku allir undir einum rómi að hylla Romulus sem guð og guðsson og bænum var beint til hans að vera náðugur og vernda börnin sín.“
Hér er lýsingin á sjálfri uppstigningunni ekki bara svipuð og í Postulasögunni, sem vel að merkja var skrifuð um heilli öld síðar, heldur er líka talað um Romulus sem „guðsson“ og hann er upp frá þessu í guðatölu.
Líkt og Jesúa frá Nasaret.
Livius er enginn grasasni
Nú er það svo að þótt sagnfræðingar nútímans myndu ekki skrifa upp á allar aðferðir Liviusar við söguritun, þá var hann nú enginn grasasni og hann reynir yfirleitt að komast að því hvort sögur þær aftan úr grárri forneskju sem hann festir á papýrus séu sannleikanum samkvæmar.
Þannig tekur hann strax fram að jafnvel í þá daga (Romulus á að hafa dáið eða stigið upp til himna árið 716 FT) hafi fólk farið að velta fyrir hvort þetta hafi nú endilega verið alveg svona. Romulus hafði greinilega verið umkringdur öldungaráðsmönnum þegar hið skyndilega ský lagðist að honum og Livius er þá nýbúinn að taka fram að alþýðan hafi unnað konungi sínum meira en öldungaráðsmennirnir.
„Sú saga gekk staflaust, en undir rós samt,“ segir Livius fullum fetum, „að konungurinn hefði verið rifinn á hol af öldungaráðsmönnunum.“
Svo er að skilja sem órólegt hafi verið í borginni en einn öldungaráðsmannanna steig þá fram, Julius Proculus hét hann, „maður sem okkur er sagt að hafi verið dáður af öllum fyrir vitsmuni og góð ráð þegar mikið lá við“, segir Livius.
„Sú saga gekk staflaust ...“
Og heldur svo áfram: „Hvarf konungsins mun hafa skilið við hluta fólksins í heldur tortryggnu skapi, margir höfðu illan bifur á öldungaráðsmönnunum vegna þessa, en þegar Proculus skynjaði hve viðkvæmt ástandið var, fékk hann þá snjöllu hugmynd að ávarpa fund alþýðunnar í borginni og þar sagði Proculus:
„Romulus, faðir borgarinnar okkar, steig niður frá himnum nú í morgun og birtist mér. Fullur af lotningu og virðingu stóð ég frammi fyrir honum og bað þess í hljóði að mega líta á syndlaust andlit hans.““
Mjög athyglisvert hlýtur að teljast að Livius (eða Proculus!) skuli hér nota orðið „syndlaust“ en það var annars ekki hugtak sem var Rómverjum hugleikið — svo syndumspilltir sem þeir voru!
„Farðu,“ sagði Romulus þá við Proculus, „og segðu Rómverjum að það sé vilji guðanna á himnum að mín Rómaborg verði höfuðborg alls heimsins. Segðu þeim að læra hermennsku. Segðu þeim, og kenndu börnum þeirra, að ekkert vald á jörðinni muni geta staðið í móti hersveitum Rómar.“
Og þegar hann hafði mælt þessi orð var hann aftur hrifinn upp til himna, hefur Livius að lokum eftir Proculusi.
Nú verður að viðurkenna að hin hinstu skilaboð Jesúa annars vegar og Romulusar hins vegar eru nokkuð ólík. Jesúa leggur að lærisveinum sínum að boða fagnaðarerindið um hann en Romulus hvetur sína menn til að læra hermennsku svo þeir geti lagt undir sig heiminn með vopnavaldi.
En að öðru leyti, er þetta þá ekki sama sagan?
Athugasemdir