Þegar ég finn fyrir nostalgíu fer ég á flakk um Google-kort. Skoða umhverfið þar sem ég ólst upp eða sumarbúðir í skógarjaðrinum þar sem ég varði bernskunni. Staðirnir líta ekki út eins og í minningunum: ég sé varla sumarbúðirnar fyrir trjákrónum, en heimþráin minnkar nokkurn veginn eftir svona ferðir.
Síðustu mánuði hef ég heimsótt Gaza-ströndina á Google-kortum. Ég stilli kortið sem gervihnött, geng um og skoða götur og þök, körfuboltavelli, pálmatré. Kortin eru ekki uppfærð, þótt það standi 2024 á þeim. Ég ýti á myndir af görðum, verslunum, kaffihúsum, ströndum sem birtast á leiðinni. Mér líður eins og ég sé í vísindaskáldsögu, þar sem allt sem ég sé ætti að vera framtíð en ekki frosin þátíð.
„Kannski er best að vita það ekki.“
Ég hitti enga vegfarendur og fáa bíla. Ég fer fram hjá Sharm-garðinum. Ýti á myndir og sé vatnsrennibrautagarð, rússíbana, kaffihús og samkvæmt þeim 230 myndum er staðurinn mjög vinsæll hjá almenningi. Lokað tímabundið. Ég held áfram göngu minni. Gaza field hospital. Lokað tímabundið. Al-Azhar Egyetem Jogi Kar, Al-Mughraqa skólinn. Lokað tímabundið. Við hlið byggingarinnar rekst ég á stóra snyrtilega hvíta bókstafi á gráu malbikinu: WARS HAVE LIMITS. Ég hnýt um setninguna og finnst að hún ætti frekar að vera WARS HAVE NO LIMITS. Það er enginn í kringum mig sem ég get spurt hvenær þessi áletrun var gerð, hvað varð um hana, hvað varð um fólkið sem málaði hana. Kannski er best að vita það ekki.
Fyrir nokkrum árum heimsótti ég einnig Maríupol, þangað sem mig dreymdi um að flytja þegar ég var barn því þar bjó uppáhaldsfrændi minn. Sviðna jörð og eyðilagðar byggingar. Hjá leikhúsi sem hafði verið lagt í rúst rakst ég á áletrunina ДЕТИ – BÖRN. Ég fór ekki þangað aftur.
Í hvert sinn sem ég fer á Gaza er ég smákvíðin að sjá raunverulega mynd af svæðinu, þar sem skoðunarferð í hillingum mun breytast í hrylling. En eins og er flakka ég um tómar götur og hugsa með nostalgíu til þeirra tíma þegar við héldum að stríð hefðu takmörk.
Athugasemdir (1)