Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri mælist með 31 prósent fylgi í nýjustu kosningaspá Heimildarinnar. Fylgi hennar jókst um fimm prósentustig á milli spáa og hefur nú rúmlega sexfaldast síðan að fyrsta kosningaspáin var gerð 13. apríl. Halla Hrund leiðir nú kapphlaupið á Bessastaði með töluverðum og mælanlegum mun, en Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, mælist með næst mest fylgi. Alls segjast 25 prósent að Katrín sé þeirra val sem næsti forseti, eða sex prósentustigum færri en gerðu það rúmri viku eftir að hún lýsti yfir framboði sínu fyrir mánuði síðan.
Þær tvær virðast vera að skilja sig frá næstu tveimur frambjóðendum, Baldri Þórhallssyni, prófessor í stjórnmálafræði, og Jóni Gnarr, leikara og fyrrverandi borgarstjóra í Reykjavík. Fylgi Baldurs var afar stöðugt þangað til í lok apríl, eða um og yfir 27 prósent. Í síðustu kosningaspám hefur það dalað hægt og rólega og er nú komið niður í 21,4 prósent. Baldur hefur aldrei mælst með minna fylgi síðan að hann tilkynnti framboð seint í marsmánuði.
Vindurinn virðist líka úr framboði Jóns Gnarr, að minnsta kosti tímabundið. Hann mældist með 18 til 19 prósent fylgi í fyrstu kosningaspám sem keyrðar voru en hefur hrapað síðustu daga og mælist nú með einungis 11,2 prósent. Frá 13. apríl hefur hann því misst 41 prósent af fylgi sínu.
Sameiginlegt fylgi efstu tveggja eykst
Aðrir frambjóðendur virðast nokkuð langt frá því að eiga raunhæfa möguleika á að blanda sér af alvöru í baráttuna um að verða næsta forseti, þótt taka verði tillit til þess að enn er tæpur mánuður til stefnu og meginþorri hinnar hefðbundinnar kosningabaráttu framundan.
Halla Tómasdóttir, forstjóri B Team sem bauð sig líka fram til forseta árið 2016, mælist með 4,1 prósent fylgi og Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómari, kemur þar á eftir með 3,6 prósent. Þau eru bæði að mælast með minna fylgi en þau gerðu rétt fyrir miðjan síðasta mánuð. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona mælist með 1,6 prósent fylgi en hefur ekki náð yfir tveggja prósenta múrinn síðan 22. apríl. Aðrir frambjóðendur – alls fimm talsins – mælast svo samanlagt með 2,1 prósent fylgi.
Það virðist vera sem að fylgið sé, hægt og rólega, að setjast á þá frambjóðendur sem eru að mælast hæst en samtals segjast 88,6 prósent að þeir ætli að kjósa einhvern þeirra fjögurra efstu í kosningunum 1. júní næstkomandi. Það hlutfall hefur aldrei verið hærra.
Þá er athyglisvert að skoða sameiginlegt fylgi Höllu Hrundar og Katrínar, þeirra tveggja frambjóðenda sem mælast með mest fylgi nú. Um miðjan síðasta mánuð sögðust 36 prósent ætla að kjósa aðra hvora þeirra, 23. apríl var það sameiginlega fylgi komið í um 44 prósent en er nú í 56 prósent og hefur aldrei verið meira.
Hvað er kosningaspáin?
Kosningaspáin er unnin í samstarfi við dr. Baldur Héðinsson. Hann hefur keyrt kosningaspálíkan sem hann smíðaði fyrir fyrirrennara Heimildarinnar í öllum kosningum sem fram hafa farið á Íslandi síðastliðinn áratug, og mun gera það í aðdraganda forsetakosninganna einnig. Líkanið miðar að því að setja upplýsingar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Niðurstöður spálíkansins eru svo birtar reglulega í Heimildinni, jafnt á prenti og vef, í aðdraganda kosninga.
Þær kannanir sem teknar eru gildar í kosningaspánni verða að uppfylla lágmarksskilyrði tölfræðilegrar aðferðafræði. Þar er litið til stærðar úrtaksins, fjölda svarenda, könnunartímabils og þess hvort úrtakið standist kröfur til að reynast marktækt, svo fátt eitt sé nefnt.
Sjö þeirra sem sækjast eftir embætti forseta Íslands hafa þegar mætt í kappræður í Pressu á Heimildinni í tveimur aðskildum þáttum. Hægt er að horfa á þá hér að neðan:
Athugasemdir