Þetta skrifar Davíð Oddsson, annar ritstjóri Morgunblaðsins, í Reykjavíkurbréfi blaðsins í dag. Þar vísar hann í ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur sem samþykkti í nóvember í fyrra að láta taka niður stytta af Séra Friðriki Friðrikssyni, stofnanda kristnu æskulýðsfélaganna KFUM og KFUK á Íslandi, sem staðsett var á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs.
Tilefnið var að í bókinni „Séra Friðrik og drengirnir hans“ eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og blaðamann komu fram ásakanir á hendur Friðriki um kynferðislegt áreiti og ofbeldi sem hann er sagður hafa beitt drengi. Í kjölfar útgáfu bókarinnar komu fram fleiri frásagnir af brotum Friðriks, meðal annars í Heimildinni.
Styttan var tekin niður eftir að Reykjavíkurborg leitaði umsagna KFUM og KFUK annars vegar og Listasafns Reykjavíkur hins vegar, um hvort taka ætti minnismerkið af stalli. Umsagnirnar hnigu báðar í sömu átt, að tala ætti minnismerkið niður.
Algjör samstaða var í borgarráði um að láta fjarlægja styttuna, sem var af Séra Friðriki og ótilgreindum litlum dreng. Fulltrúar allra flokka sem þar sitja samþykktu að hún yrði tekin niður, en Séra Friðrik var hífður af stalli í janúar síðastliðnum.
Peningalausir sem þykjast betri en annað fólk
Davíð, sem er fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, forsætisráðherra og seðlabankastjóri ásamt því að hann var formaður Sjálfstæðisflokksins í um fjórtán ár, segir í Reykjavíkurbréfinu að hann hafi verið hallur undir KFUM og sé þakklátur fyrir að hafa kynnst Séra Friðriki, þótt hann væri vel við aldur þegar kynni þeirra hófust. Hann segir styttuna hafa verið tekna niður til að selja bók, sem þó hafi ekki gengið vel. „Þúsundir ungmenna, nú fyrir löngu fullveðja menn, könnuðust ekki við þetta tal. Erlendis er þessi tegund af ofstæki, „WOKE“, nýtt um hegðun fólks, sem notar hvert tækifæri til að þykjast betra en annað fólk, og sönnunarmerkið að vera meira „politically correct“ en annað fólk og peningalausara.“
Davíð líkir stöðunni svo við það sem átt hefur sér stað í Bandaríkjunum þar sem „standmyndir af afreksmönnum fyrir tugum eða hundruðum ára [séu] sprengdar í tætlur af WOKE, af því að einhver taldi styttuna stangast á við sjónarmið í núinu. Haft var til réttlætingar að viðkomandi hafi ekki verið fullkominn í öllum greinum.“
Alls hafa rúmlega 160 styttur og annarskonar minnisvarðar verið fjarlægðir úr almannarýmum í Bandaríkjunum, og þorri þeirra hefur verið fjarlægður á síðasta tæpa áratug. Flestar voru stytturnar í þeim hluta Bandaríkjanna sem áður tilheyrðu Suðurríkjasambandinu þar sem aðskilnaðarstefna milli hvítra og svartra, sem fól í sér skert réttindi og lífsgæði fyrir síðarnefnda hópinn, var lengi vel lögfest og viðurkennd.
Allur gangur er á því hvernig niðurrifinu hefur verið háttað. Stundum hafa ríki eða sveitarfélög haft frumkvæði að því, en stundum hafa mótmælendur einfaldlega fjarlægt stytturnar eða minnisvarðanna sjálfir.
Reistar til að ógna svörtum
Þrýstingur á að fjarlægja stytturnar eða minnisvarðanna jókst mikið eftir að Dylann Roof myrti níu manns í kirkju svartra í Charleston í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum þann 17. júní árið 2015. Roof, sem var dæmdur til dauða fyrir hatursglæp, sagðist hafa framið ódæðið til að hvetja til þess að aðskilnaðarstefna milli hvítra og svartra í Bandaríkjunum yrði endurvakin og að hann hafi jafnvel viljað hefja kynþáttastríð. Málstaður þeirra sem vildu losna við stytturnar fékk enn meiri byr í seglin eftir að George Floyd var myrtur af hvíta lögreglumanninum Derek Chauvin í maí 2020, en morðið á honum leiddi umfangsmestu mótmæla í Bandaríkjunum í áratugi.
Þeir sem tala fyrir af styttur verði fjarlægðar úr opinberum rýmum segja að þær hafi ekki verið reistar sem minnisvarðar heldur til að ógna svörtum íbúum Bandaríkjanna, sérstaklega í Suðrinu, eftir borgarastyrjöldina í Bandaríkjunum, sem einnig er nefnt Þrælastríðið, og staðfesta yfirburði hvítra.
Andstæðingar þess að fjarlægja minjarnar telja að með því sé verið að afmá söguna og að í því felist virðingarleysi fyrir arfleið Bandaríkjanna. Hvítir þjóðernissinnar og nýnasistahópar hafa mótmælt niðurrifinu sérstaklega og í sumum Suðurríkjum Bandaríkjanna hafa verið samþykkt lög sem vernda minnisvarða í opinberum rýmum frá því að vera rifnir niður.
Þa getur DO tekið gleði sina a ny.