Þann 11. apríl síðastliðinn voru liðin fimm ár upp á dag frá fangelsun Julian Assange þegar ég tók mér stöðu fyrir utan Belmarsh-fangelsið til að heimsækja hann. Ferlið við að fara inn í andstyggilega múrsteinsbygginguna, jafnvel sem gestur, er hannað til að niðurlægja og auðmýkja.
Ég rek út úr mér tunguna í skoðun í eftirlitinu. Ég er strokinn og klappaður. Fingraför mín eru tekin aftur og aftur. Loftþrýstiklefi opnast og lokast á eftir mér; þrjár rammagerðar og tvöfaldar dyr þar sem sú aftari verður að renna í lás svo sú fremri opnist . Á meðan hljóðin og þefurinn leika við vit mín dögum saman eftir heimsóknina þarf Julian að húka áfram þarna þegar við gestirnir sleppum.
Hvernig líður honum? Er ég óhjákvæmilega spurður. Þessi ástralski blaðamaður sem hefur aldrei verið ofbeldishneigður, sakfelldur eða dæmdur en hefur nú verið í öryggisfangelsi í fimm ár. Þar á undan var hann í sjö ár í þröngri sendiráðskytru. Eftir að hafa þreyjað tvö ár í stofufangelsi.
Hvernig heldurðu að honum líði? Hvernig myndi þér líða?
Julian líður ekki vel. Hann var of lasburða til að mæta síðast fyrir rétt, jafnvel þó að þar gæfist skömm andrá utan fangelsis. Á meðan á síðustu fyrirtöku stóð í dómssal fékk hann minniháttar heilablóðslag sem fjölmiðlar heimsins fylgdust með í gegnum myndavélar frá loftlausum klefa í Belmarsh.
Á meðan á síðustu fyrirtöku stóð í dómssal fékk hann minniháttar heilablóðslag.
Einangrun hans og niðurdrepandi kringumstæður tendra örvæntingu, ráðvillu, veikla hann og brjóta niður. Hann er eins fjarri þef og hljóðum skógargróðurs Ástralíu jafnt sem hlýju sólar og hugsast getur.
Vitaskuld snart það Julian á Valentínusardag þegar meirihluti fulltrúaþings Ástralíu kallaði eftir því að Bandaríkin og Bretland leyfðu honum að snúa aftur til Ástralíu. Öll þessi ár höfum við aldrei áður séð ríkisstjórn Ástralíu grípa inn í eða eða kalla opinberlega eftir að honum verði sleppt. Við höfðum aldrei áður orðið vitni að slíkri einingu og virkri þátttöku ritstjórna fjölmiðla, samtaka fjölmiðla, málsvara frjálsrar fjölmiðlunar og mannréttindasamtaka.
Áður var rödd fyrrum öldungardeildarþingmanns Græningja, Scott Ludlam, sú eina á þinginu sem kallaði eftir frelsi Julians – en nú hefur skapast breiðfylking vinveitts meirihluta með fulltrúum hvers flokks og raunar alla stjórnarandstöðuna innbyrðis. Og stuðningurinn heldur áfram að vaxa.
Þá eru kærkomnar fregnir að forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, íhugi nú endurtekna beiðni frá áströlskum stjórnvöldum þess efnis að binda endi á þjáningar Julians og láta ákærur niður falla. Íhugun er farsælt fyrsta skref. Eðlileg niðurstaða þeirrar íhugunar ætti að vera að fella niður ákærurnar.
Þetta er mál sem hefði aldrei átt að hrinda af stað til að byrja með. Ríkisstjórn Obama útilokaði ákæru og nú loksins getur Biden látið niður falla þessa árás stjórnar Trumps á blaðamennskuna. Það væri grimmd að draga þessa íhugun Bidens öllu frekar á langinn þar sem Julian hefur nú þegar verið rændur fjórtán árum af lífi sínu. Litlu synir hans þarfnast föður síns heima og konan hans, staðfastur málsvarinn, er orðin örmagna eftir þennan ljóta slag.
Það væri grimmd að draga þessa íhugun Bidens öllu frekar á langinn þar sem Julian hefur nú þegar verið rændur fjórtán árum af lífi sínu.
Breski áfrýjunarrétturinn veitti Bandaríkjunum tækifæri til að ábyrgjast að Julian verði ekki látinn líða fyrir það gagnvart réttinum að vera ástralskur. Við fyrri áheyrnir höfðu Bandaríkin staðhæft að vegna þess að Julian er ástralskur myndi hann ekki njóta verndar fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar sem lýtur að tjáningarfrelsi. Bresku dómararnir urðu nógu hugsi yfir því til að biðja um útlistingar.
Ef þessi yfirgengilega afvegaleiðandi texti er lesinn reynist sú trygging sem átti að ábyrgjast þar vera alveg innihaldslaus. Hann rétt tæpir á því að Julian „muni hafa möguleikann á að biðja um að fá að njóta réttarverndar sem byggist á fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar sem tekur á fjölmiðlafrelsi.“
Hann gæti eins beðið um aðstoð einhyrnings. Það þýðir ekki að dómstóllinn muni ábyrgjast beiðni hans. Julian getur beðið um vernd en ekki vænst þess að öðlast hana – hann er ástralskur ríkisborgari saksóttur fyrir erlendum dómstól.
Nú höfum við lært af bagalegri reynslu að það að stóla á rökhugsun og sjálfgefnar staðreyndir á ekki við í máli Julian Assange. Það á sjaldnast við í málum þar sem dómsvaldið er sniðið að pólitískum ofsóknum.
Dómararnir fóru þess einnig á leit að ábyrgst yrði að Bandaríkin myndu ekki umbreyta ákærunum eina ferðina enn – líkt og þau hafa ítrekað fullyrt að sé réttur þeirra – og þannig þrýst Julian í átt að dauðarefsingu. Í meira en áratug hafa fulltrúar bandarísku ríkisstjórnarinnar opinberlega túlkað ásakanirnar á hendur Assange sem landráð og kallað eftir dauðarefsingu.
Nú síðast árið 2018 kannaði CIA möguleika á að aflífa hann eða ræna honum. Þrátt fyrir að Hillary Clinton neiti því er raunin samt sú að hún „sló á létta strengi“ í spjalli við starfsfólks sitt með orðunum: „Getum við ekki bara drónað þennan gaur!“
Þrátt fyrir að Hillary Clinton neiti því er raunin samt sú að hún „sló á létta strengi“ í spjalli við starfsfólks sitt með orðunum: „Getum við ekki bara drónað þennan gaur!“
Julian sótti um áfrýjun á grundvelli þess að augljóslega er ekki hægt að framselja einhvern til lands hvers leyniþjónusta hefur þá þegar áætlað að ræna viðkomandi og drepa hann. Dómararnir vörpuðu frá sér þeirri röksemd með þeim svokallaða rökstuðningi að ef hann yrði framseldur þá væri hvorki ástæða til að ræna honum né aflífa hann í London.
Já, þetta er það sem við erum að fást við!
Mál hans verður tekið aftur fyrir dómi í London þann 20. maí næstkomandi. Að öllum líkindum er það síðasti möguleikinn sem hann fær til að sporna við framsali og dauða í fangelsiskerfi Bandaríkjanna.
Á meðan lögmennirnir þreyja baráttu í réttarsalnum vitum við af sárri reynslu að úrlausn mála er aðeins að finna á sviði stjórnmálanna. Hið pólitíska ferli hefur hnýtt sig í hnút og við vitum að hægt er að leysa það, í dag, með laufléttri stroku úr penna forsetans – Joe Biden. Hann getur, eins og hann kveðst vera að íhuga, ósköp einfaldlega endað þessa martröð og látið ákærur niður falla.
Ég hlakka til dagsins þegar Julian snýr aftur til heimalands síns. Hann kemur til með að þarfnast hvíldar og heilunar eftir það sem hann hefur þurft að lifa. Hann mun þarfnast náttúrunnar. Þarfnast strandanna og tengsla við ástralskt samfélag.
Ekkert getur fært honum aftur tímann sem hann hefur glatað. En með stuðningi getur hann grætt þjáningarnar sem líkami og hugur hans hafa þurft að þola – sökum refsingar fyrir að birta sannleikann.
Julian þarf að öðlast frelsi úr fangelsi. Heimurinn þarfnast þess. Það verður að örla á von um að við fáum bjargað einhverjum þeim gildum okkar sem lúta að mannúð, reisn, réttlæti og frelsi. Fyrir alla þá sem óttast djúpt að heimur okkar rambi á brúninni verður frelsi Julians til marks um vonina að annars konar heimur sé mögulegur. Frelsið Julian Assange.
Athugasemdir (1)