„Bantustan er ekki Palestína“ segir rapparinn Erpur Eyvindarson í laginu sínu Warsaw Gettó Gaza. Þar vitnar hann í Suður-Afríku á þeim tíma sem grimmileg aðskilnaðarstefna aðflutta hvíta minnihlutans gegn svarta, innfædda meirihlutanum ríkti. Þar hafði svörtum Suður-Afríkumönnum verið úthlutað lítil, auðlindalaus og uppskipt svæði með það að leiðarljósi að svört suður-afrísk samfélög gætu aldrei þróast og styrkst í framtíðinni. Þessi svæði voru kölluð Bantustan. Það sem Erpur á hér við er það að uppskiptu svæðin í Suður-Afríku og Palestínu sem innfædda fólkið hafði verið einangrað í eru ekki löndin sjálf heldur herkví nýlenduveldanna. Það sem kalla mætti Bantustan í Palestínu er almennt kallað Vesturbakkinn og Gasasvæðið í daglegu tali.
Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International hafa einnig komist að þeirri niðurstöðu, í kjölfarið á áralangri rannsóknarvinnu að Ísrael sé aðskilnaðarríki. Þar hafa vestræn stórveldi framið valdarán og skipt upp landi sem þau höfðu ekki tilkall til. Rök sem fylgjendur síonistastefnunnar nota til að réttlæta nýlendu- og aðskilnaðarstefnuna gegn Palestínubúum eru til dæmis staðhæfingin um að Palestína hafi ekki verið fullvalda þjóðríki þegar Bretland og Sameinuðu þjóðirnar, án nokkurs umboðs frá palestínsku þjóðinni, skiptu Palestínu upp. Það sama má aftur á móti segja um flest lönd á þessum tíma þar sem hugmyndin um þjóðríkið var enn frekar nýleg og mikið af þjóðríkjum voru að líta dagsins ljós í fyrsta sinn, þá sérstaklega þjóðir í Mið-Austurlöndum og Afríku sem höfðu verið hernumin af Evrópuríkjum í fjölmarga áratugi. Þessi réttlæting byggir því á sandi. Líkt og var gert í Suður-Afríku þá er palestínskum sveitarfélögum skipt upp svo samfélögin geti ekki fengið að vaxa og dafna. Um íbúa þessara svæða gilda herlög og þurfa Palestínubúar að vera með sérstök skilríki til að geta ferðast örstuttar vegalengdir, fæst hafa kost á að gerast ísraelskir ríkisborgarar og eru því ríkisfangslaus, geta ekki kosið, fengið byggingarleyfi til þess að reisa sín eigin hús og reglulega eru heilu hverfin rifin niður af Ísraelum vegna framkvæmda á ólöglegum landránsbyggðum og Palestínubúum sparkað á götuna.
Aðstæðurnar eru þó án efa verstar á Gasasvæðinu sem hefur verið í herkví Ísraels síðan 2007 og mætti í raun kalla svæðið fangelsi þrátt fyrir að íbúar þess hafi ekkert til saka unnið annað en að vera palestínskir. Nú hefur Ísraelsher framið linnulausar og grimmilegar árásir á Gasasvæðið í meira en hálft ár og 42.510 þúsund manns verið myrt, þar af aðallega konur og börn, samkvæmt heimildum frá mannréttindasamtökunum, Euro-Med Human Rights Monitor og Amnesty International. Þessi samtök telja tölfræði heilbrigðisyfirvalda Gasasvæðisins ekki ná yfir þann fjölda sem hefur verið myrtur af Ísraelsher. Euro-Med Human Rights Monitor bendir einnig á að í kringum 150.000 manns á Gasasvæðinu hafi annað hvort verið myrt, grafist undir rústum eða verið alvarlega særð. Í kjölfarið á þessum óteljandi stríðsglæpum Ísraels hefur Suður-Afríka, land sem hefur þurft að þola aðskilnaðarstefnu rétt eins og Palestína, kært Ísrael til Alþjóðadómstólsins. Þó svo að endanleg niðurstaða í málinu verði ekki gefin út fyrr en eftir nokkur ár þá er bráðabirgðaniðurstaða dómstólsins sú að það sé svo sannarlega þjóðarmorð í uppsiglingu. Ísrael hefur þó virt þær niðurstöður að vettugi.
Sameinuðu þjóðirnar skilgreina aðskilnaðarstefnu sem glæp gegn mannkyni. Við bíðum því og vonumst til þess að aðskilnaðarstefnan verði á endanum lögð niður og að palestínskt fólk geti loksins um frjálst höfuð strokið í frjálsu Palestínuríki.
Að lokum vil ég mæla með 15 mínútna heimildarmynd frá Amnesty International um aðskilnaðarstefnu Ísraels auk lagsins Warsaw Gettó Gaza eftir Erp Eyvindarson.
Höfundur er baráttumaður fyrir mannréttindum
Athugasemdir (2)