Í nýjasta þætti Pressu voru fjórir forsetaframbjóðendur spurðir hvaða málum þeim finnst hafa átt að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu í gegnum tíðina.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, nefndi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. „Sem er það stórt og mikið mál að það hefði til dæmis átt heima hjá þjóðinni. Það má líka velta fyrir sér hvort aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, hefði ekki átt að vera það líka.“
Telur Baldur að það að Vigdís Finnbogadóttir hafi skoðað EES-málið í heilan mánuð hafi sýnt fram á að málskotsrétturinn hafi verið virkur. „Ég skoðaði þetta sjálfur og skrifaði ítarlega fræðigrein um þetta. Vigdís tók sjálfstæða ákvörðun og mat það þannig að kostnirnir væru meiri en gallarnir.“ Baldur segist þó velta fyrir sér hvort svona mikla breytingu á stjórnskipan landsins ætti ekki að vísa til þjóðarinnar.
Myndi taka samtalið fyrst
Halla Hrund Logadóttir tók undir að EES hefði verið mál sem skoða hefði þurft vel. „Ég vil segja að í samhengi við neitunarvaldið að þá mun ég alltaf sem forseti nota fyrst samtalið. Nota fyrst rödd mína áður en að kemur til neitunarvaldsins. Því það er auðvitað hægt að beita þessu dagskrárvaldi til þess að hafa áhrif á orðræðuna.“
Aðspurð sagðist Halla Hrund eiga bæði við um einkasamtöl og opinbera umræðu. Sagðist hún þá eiga við veigamikil mál. „Sem hafa grundvallarbreytingar á stjórnskipan eða langtímaáhrif á samfélagið, eins og til dæmis Icesave-málið. Ég er að tala um í þeim undantekningarsamtölum.“
Hún segir að í málum sem varða grundvallarmál s.s. auðlindir landsins verði forsetinn að vera vakandi fyrir langtímahagsmunum þjóðarinnar.
Engin spurning að vísa aðild að ESB til þjóðarinnar
Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, sagðist vera að mörgu leyti sammála Baldri. „Bæði málin sem hann nefnir – EES og Atlantshafsbandalagið – eru svona grundvallarmál með langtímaáhrif. En að sama skapi er erfitt að setja sig í spor þeirra sem þá voru.“
Katrín segir að ekki nokkur spurning sé um að vísa ætti aðild Íslands að Evrópusambandinu til þjóðarinnar ef að því kæmi. Það færi þó ekki til forseta vegna þess að það myndi ekki heyra undir lög.
Vill Katrín meina að fyrri beiting á málskotsrétti sýni að einhverju leyti skort á meðvirkni fyrrverandi stjórnmálamanna í embætti forsetans. „Nú eigum við þrjú dæmi um það að málskotsrétturinn hafi verið virkjaður. Og það var nú forseti með aldeilis pólitískan bakgrunn – Ólafur Ragnar Grímsson.“
Katrín nefnir að Ólafur Ragnar hafi ekki hikað við að beita málskotsrétti sínum í Icesave-málinu þrátt fyrir að meirihluti þáverandi ríkisstjórnar hefðu verið fyrrum félagar hans úr Alþýðubandalaginu. „Stundum er einmitt betra að þekkja vel til, hafa skilninginn á gangvirki stjórnmálanna. Ég held jafnvel að það geri mann hæfari til þess. Að vera einmitt ekki meðvirkur með stjórnmálunum að hafa kynnst þeim með djúpum hætti,“ segir Katrín.
Forsetinn þurfi alltaf að vera í nánu sambandi við þjóðina
Jón Gnarr sagðist sammála því sem hinir frambjóðendurnir sögðu. „Það sem mér datt í hug var inngangan í NATO á sínum tíma. Mér hefur alltaf fundist það mál sem hefði átt að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég man nú ekki eftir neinu öðru sem að mér finnst að forsetinn hefði átt að íhlutast um,“ sagði hann.
Jón segist enn fremur hafa verið sammála ákvörðun Ólafs Ragnars að vísa Icesave til þjóðarinnar á sínum tíma. „En við gleymum því ekki heldur að það var bara heil hreyfing á bakvið það og það var mjög hávær rödd í samfélaginu að vísa þessum lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig þetta var ekki bara eitthvað sem hann tók upp hjá sjálfum sér.“ Jón segir að sitjandi forseti þurfi alltaf að vera í nánu sambandi við þjóðina, þjóðarsálina og þjóaðrviljann.
Baldur tók aftur til máls um málið og sagði að sér þætti mikilvægast að forsetinn hefði aðeins notað málskotsréttinn þrisvar. Þingið viti þó vel að forsetinn liti yfir öxlina á sér. Hann þyrfti því ekki að tjá sig með stórbarkalegum hætti. „ Þess þarf ekki. Ef menn bara vita það að sá sem að situr á Bessastöðum mun nýta þennan neyðarhemil ef þess þarf.“
Athugasemdir