„Ég ber nú bara mjög mikla virðingu fyrir Alþinginu okkar og okkar svona lýðræðiskerfi hér í landinu og sem forseti þá myndi ég ekki vera mikið með neina einræðistilburði, það er að segja taka fram fyrir hendurnar á Alþingi nema í einhverjum algjörum undantekninga tilvikum,“ segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi.
Jón var gestur í Pressu á föstudag ásamt Katrínu Jakobsdóttur, Baldri Þórhallssyni og Höllu Hrund Logadóttur. Þau fjögur eru þeir frambjóðendur sem mælst hafa með mest fylgi þeirra sem sækjast eftir því að verða næsti forseti Íslands. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi hópur frambjóðenda deildi sviðinu í umræðuþætti fyrir kosningar.
Undantekningatilvikin um einræðistilburði sem Jón minntist á snúa að synjunarvaldi forseta. „Ég býst við því já, ég hef ekki hugsað mér einhvern veginn að vera að setja fram einhver laga frumvörp eða neitt svoleiðis sko.“
En það er alveg heimild til þess, þú skilur þetta þannig?
„Já, já. Ég hef ekki verið hrifinn af einræðistilburðum á Íslandi, alls ekki.“
En Jón hefur fundið fyrir slíkum þegar hann gegndi embætti borgarstjóra. „Ég var til dæmis hvattur mjög til þess í stöðu minni sem borgarstjóri að vera með meiri einræðistilburði og jafnvel talaður niður fyrir að gera það ekki. Þannig að ég sé mig ekki fyrir mér beita sko neinum svona ákvæðum nema kannski málskotsréttinum í einhverjum undantekningar tilfellum.“
Athugasemdir (1)