Guðlaugur Þór Þórðarson, núverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi utanríkisráðherra, segir fullyrðingar um að hann hafi komið að ákvörðun um að veita nánast öllum Venesúelabúum vernd hér á landi um tíma kolrangar.
Kornið sem virðist hafa fyllt mæli Guðlaugs var þegar þáttastjórnandi Vikulokanna í Ríkisútvarpinu „hélt þessu fram fullum fetum án mótmæla eða athugasemda frá viðmælendum í febrúar síðastliðnum.“
Guðlaugur skrifar pistil um málið í Morgunblaðinu í dag og bendir á að fólk úr öllum áttum hafi haldið þessu fram, þar á meðal blaðamaðurinn Andrés Magnússon sem starfar hjá Morgunblaðinu.
„Fullyrðingin kom sömuleiðis fram í vinsælum hlaðvarpsþætti og nú nýlega birtist fullyrðingin á prenti í Viðskiptablaðinu: „Guðlaugur Þór Þórðarson ákvað af einhverjum óskiljanlegum ástæðum að opna landið fyrir fólki frá Venesúela…“,“ skrifar Guðlaugur og segir umræddar fullyrðingar „kolrangar“ þar sem útlendingamálin hafi ekki verið á hans könnu sem utanríkisráðherra.
„Þrátt fyrir þessa staðreynd flýgur sagan áfram og upplýsingaóreiðan eykst þar sem einn endurtekur ummæli annars. Það er ekki annað hægt en að velta vöngum yfir því hvort einfaldlega sé um að ræða misskilning eða hvort ásetningur liggi að baki þeirri undarlegu og röngu söguskýringu að utanríkisráðherra beri ábyrgð á ákvörðun sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar á málefnasviði dómsmálaráðuneytisins um aukna vernd íbúa Venesúela.“
Baksagan
Það var Þorsteinn Gunnarsson, þáverandi settur forstjóri Útlendingastofnunar, sem tilkynnti í nóvember 2019 að allir Venesúelabúar sem hefðu sótt um vernd hér á landi það ár hefðu fengið hæli vegna ástandsins í Venesúela – óðaverðbólgu og upplausnar í stjórnmálum landsins. Fyrstu ákvarðanirnar um veitingu viðbótarverndar til ríkisborgara Venesúela höfðu þó aftur á móti verið teknar af Útlendingastofnun árið 2018, þegar núverandi forstjóri stofnunarinnar, Kristín Völundardóttir, var forstjóri.
Í byrjun 2019 hafði Guðlaugur Þór sent utanríkismálanefnd Alþingis minnisblað um ástandið í Venesúela þar sem ráðuneytið fór yfir ástandið í Venesúela. Stjórnmálaástandið var sagt í ólestri.
„Óstjórn, misheppnuð hugmyndafræði byggð á arfleifð Hugo Chavez og flokks Chavista, og ofbeldi núverandi forseta, Nicolas Maduro, hefur valdið því að efnahagskerfi landsins er með öllu hrunið“, segir í minnisblaðinu.
Nokkrum dögum eftir að minnisblaðið var skrifað lýsti Guðlaugur Þór því yfir að Ísland styddi Juan Guiadó, þáverandi leiðtoga venesúelsku stjórnarandstöðunnar, rétt eins og stjórnvöld víðar höfðu gert í kjölfar ákvörðunar bandarískra stjórnvalda um slíkt hið sama. Nú hafa ríkin dregið stuðning sinn til Guaidó til baka, enda missti hann embætti sitt sem forseti þjóðþings Venesúela í desember árið 2020.
Heimildin fjallaði um svar Útlendingastofnunar vegna Venesúela ákvörðunarinnar í marsmánuði síðastliðnum. Í svari stofnunarinnar sagði að ákvörðunin hefði ekki verið pólitísk.
„Hvorki dómsmálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið né ráðherrar þessara ráðuneyta hafa aðkomu að afgreiðslu umsókna um vernd,“ sagði í svari stofnunarinnar.
Athugasemdir (3)