Er þetta ekki næstum komið?
Einhvern tíma í fyrra (2023) var umhverfisráðherra spurður í útvarpsviðtali hvernig gengi að uppfylla skuldbindingar okkar í loftslagsmálum. Hann svaraði að allt gengi vel — nóg væri að benda á mikla fjölgun rafbíla.
Þetta vekur nokkrar spurningar: Hversu mikilvægt er að skipta út jarðefnaeldsneyti til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum? Getur verið að aðrir þættir vegi þyngra en notkun jarðefnaeldsneytis? Síðast en ekki síst, er það rétt að lausnin felist aðallega í því að virkja meira?
Hvert er markmiðið í loftslagsmálum?
Það er mikilvægt að hafa í huga að markmið okkar í loftslagsmálum er að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum niður í núll. Það er þetta sem kallast að ná kolefnishlutleysi. Orkuskipti, það er að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti, eru einungis einn hluti af því.
Hve mikil er losun okkar?
Eftirfarandi tölur sýna árlega losun í tonnum af koltvíoxiði á mann, hér á landi og í nokkrum samanburðarlöndum. Tölurnar eru fengnar af mjög gagnlegri vefsíðu Birnu Sigrúnar Hallsdóttur. Losun vegna millilandaflugs og landnotkunar er sleppt, eins og venjan er þegar lönd eru borin saman.
Tölurnar eru fyrir árið 2021:
Ísland 12,6 t/m
BNA 19 t/m
ESB 7,7 t/m
Bretland 6,4 t/m
Noregur 9 t/m
Hver eru áhrif orkuskipta?
Orkuskipti geta einungis minnkað losun sem stafar af brennslu jarðefnaeldsneytis. Við spyrjum því: Af þessum 12,6 t/m, hve mikið er vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti? Gögn af sömu vefsíðu benda til þess að losun vegna brennslu á jarðefnaeldsneyti (án millilandaflugs) hafi verið 4,3 tonn á mann árið 2021. Full orkuskipti myndu minnka losun á mann (miðað við þessar tölur) frá 12,6 tonnum í 8,3 tonn á mann. Eftir stendur samt sem áður hærri tala en heildarlosun ESB eða Bretlands fyrir árið 2021.
Hvað um hin 8,3 tonnin?
Um 40% af losun okkar stafar af útblæstri frá málmbræðslu. Það eru um 5 tonn á mann. Græn raforka er notuð til að knýja efnahvarfið. Þess vegna hafa orkuskiptin engin áhrif á losun frá stóriðju. Þessi 5 tonn á mann sitja því eftir og mynda stærsta hluta þessara 8,3 tonna. Afgangurinn, um 3,3 tonn, er að mestu vegna landbúnaðar og meðhöndlunar úrgangs.
Af hverju erum við öðruvísi?
Svo virðist sem Ísland sé iðnvætt að því marki sem gæti virst ótrúlegt í augum þeirra sem þekkja ekki aðstæður. 75% af raforku fara til stóriðju á Íslandi. Það kemur því ekki á óvart að Íslendingar eigi heimsmet í raforkuframleiðslu á mann. Miðað við Noreg er hún tvisvar sinnum meiri á mann og níu sinnum meiri miðað við ESB. Ástæðan er umfang stóriðju.
Umfang stóriðju og sú staðreynd að losun er mikil, þrátt fyrir að verksmiðjurnar séu alfarið knúnar af grænni raforku, eru þættir sem saman mynda sérstætt vandamál fyrir þjóðina. Það er brýnt að bregðast við þessu áður en farið verður í nýjar virkjanaframkvæmdir.
Hvernig bregðast yfirvöld við þessari áskorun?
Stjórnarráð Íslands hefur sett fram aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Stærsta aðgerðin er orkuskipti sem gætu minnkað losun um 34%. Þau krefjast meiri raforku, en virkjunarframkvæmdir stangast á við verndun náttúru. Mismunandi sviðsmyndir hafa verið settar fram, t.d. af umhverfisráðuneytinu (Grænpappírinn svokallaði) og einnig af samtökunum Landvernd. Orkuskipti minnka heldur ekki losun stóriðju.
Stóriðja, með 40% af losuninni, hefur verið skilgreind undir svokölluðu ETS kerfi (Emissions Trading System). Í stórum dráttum verður EBS með sameiginlega áætlun til að minnka losun í þessum flokki, en Ísland og Noregur gætu flotið með. Fyrirtæki mega stunda viðskipti með kolefnisheimildir. Það gæti í mesta lagi leyft okkur að draga hægar úr losun. Að auki má ætla að markaður fyrir kolefnisheimildir verði lagður niður á einhverjum tímapunkti. Aðgerðaráætlun ríkisins varðandi stóriðju nefnir m.a. kolefnisföngun. Þessi tækni er skammt á veg komin og lítil reynsla af henni. Markmið allra þessara aðgerða er samt sem áður óbreytt. Það er að minnka losun niður í núll.
Það er umhugsunarefni að 75% af raforku landsins, um 15 TWs/ári, fara til stóriðju. Lokun einnar álverksmiðju gæti losað um 3.000 GWs/ári af raforku, sem hægt væri að nýta í orkuskipti. Það myndi duga til að rafvæða allar vegasamgöngur. Það yrðu af þessu margfaldir ávinningar: CO2 losun myndi lækka umtalsvert, bæði frá samgöngum og stóriðju. Síðast en ekki síst yrði þetta til að vernda íslenska náttúru.
Vil heldur ekki sjá verksmiðjurnar sem hann Tryggvi Herbertsson er að kynna ef hann ætlar síðan að gína yfir landinu okkar með vindmillum bara til þess að rafvæða þessar verksmiðjur.