Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði í dag fram þingsályktunartillögu um skipun þriggja manna nefndar til að rannsaka málsatvik í tengslum við snjóflóðið sem féll á Súðavík 16. janúar 1995.
Hljóti tillagan brautargengi yrði rannsóknarnefndinni gert að draga saman og útbúa upplýsingar um málsatvik til að varpa ljósi á ákvarðanir og verklag stjórnvalda. Á það meðal annars um hvernig staðið var að ákvörðunum um snjóflóðavarnir og upplýsingagjöf um hættu til íbúa, framkvæmd almannavarna í aðdraganda og kjölfar flóðsins og eftirfylgni stjórnvalda.
Í þingsályktuninni segir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd meti það að mikilvægt sé að hlutlæg og óháð rannsókn fari fram. En ljóst sé að ekki hafi farið fram óhlutdræg rannsókn í kjölfar snjóðflóðsins á Súðavík 1995. „Hefur það skapað tortryggni og vantraust gagnvart stjórnvöldum sem mikilvægt er að eyða. Taka þarf til rannsóknar málsatvik svo að leiða megi í ljós hvernig staðið var að ákvörðunum og verklagi stjórnvalda í tengslum við snjóflóðið í Súðavík.“
Á grundvelli slíkrar athugunar geta Alþingi og stjórnvöld metið hvort af atburðunum hafi verið dreginn lærdómur og hvort úrbóta sé þörf. Tekið er fram að nefndin hafi ekki orðið þess áskynja að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað.
Ítrekuðum beiðnum um rannsókn hafði verið hafnað
Tillagan að rannsókninni er gerð í kjölfar beiðni aðstandenda þrettán þeirra sem fórust í snjóflóðinu. En þeir vilja að fram fari opinber rannsókn á bæði aðdraganda og eftirmálum flóðsins. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd samþykkti beiðnina um skipun nefndar til að fara með rannsóknina í janúar. Síðan þá hefur málið beðið formlegrar afgreiðslu.
Snjóflóðið sem féll á Súðavík árið 1995 varð 14 manns að bana. Þar af voru 8 börn. Stuttu eftir að flóðið féll fóru ættingjar þeirra látnu fram á að óháð opinber rannsókn yrði gerð á viðbrögðum yfirvalda við yfirvofandi hættu, misserin og dagana fyrir flóðið.
Beiðnum aðstandenda var hafnað af ráðherrum, ríkissaksóknara og umboðsmanni Alþingis allt til ársins 2005. Var það rökstutt með þeim hætti að rannsókn hefði þegar farið fram af hálfu almannavarna sem birtist 1996.
Almannavarnir komust þar að því að ekki hefði verið hægt að forða manntjóni í flóðunum. Rannsóknin var harðlega gagnrýnd fyrir innra ósamræmi og það að sömu aðilar og borið hefðu ábyrgð væru að rýna eigin verk. Enn fremur hafði skýrsla almannavarna verið unnin með talsverðum hraða.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafði málið til umfjöllunar síðan í júní 2023. En þá sendi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra formanni þingnefndarinnar bréf þar sem hún sagðist telja að rannsóknarnefnd gæti skapað traust um niðurstöður rannsóknar á aðdraganda og eftirmálum snjóflóðanna.
Vanræksla í aðdraganda flóðsins
Í fyrra rannsakaði Heimildin aðdraganda og eftirmál Súðavíkurflóðsins. Úr rannsókninni komu þó nokkrar vísbendingar um að yfirvöld hefðu sýnt af sér vanrækslu í aðdraganda flóðsins. Til dæmis gerði hættumat á svæðinu ráð fyrir snjóflóðavarnargörðum sem aldrei risu, enn fremur hefðu mistök verið gerð þegar hættumatskort var teiknað.
Hafði þetta í för með sér að almannavarnir töldu ranglega að ekkert þeirra húsa sem lentu í flóðinu væru á hættusvæði. Í reynd voru þrjú íbúðarhús og leikskóli inni á hættusvæðinu og fóru öll húsin undir flóðið.
Þetta er í fimmta sinn sem Alþingi skipar rannsóknarnefnd en í fyrsta skipti sem nefnd er falið að rannsaka mál sem ekki tengist falli bankanna eða aðdraganda þess með einhverjum hætti.
Athugasemdir