Sönghópurinn Hljómeyki hefur verið starfandi nær samfleytt í 50 ár og efnir til afmælistónleika af því tilefni á sunnudag. Sönghópurinn Hljómeyki var stofnaður árið 1974. Hópurinn skipaði sér þegar í fremstu röð íslenskra kóra og hefur á þeim áratugum sem liðnir eru flutt ógrynni verka af margvíslegu tagi – allt frá fjölradda kórtónlist endurreisnarinnar, yfir í stór verk með sinfóníuhljómsveitum og allt til íslenskrar rokktónlistar samtímans.
Hildigunnur Rúnarsdóttir tónskáld var tíu ára þegar kórinn var stofnaður. Hún hefur sungið með Hljómeyki í 38 ár og verið formaður kórsins í rúman áratug. Geri aðrir betur. Kórinn var stofnaður af nokkrum félögum úr Pólýfónkórnum sem langaði til að syngja örlítið öðruvísi tónlist en stóri kórinn var að vinna með. Hópurinn starfaði undir stjórn Ruthar Little Magnússon fyrstu árin. „Foreldrar mínir, systir mömmu og maðurinn hennar og tannlæknirinn hennar, þetta var svona fjölskyldufyrirtæki,“ segir Hildigunnur. Fjölskyldan hefur haldið tryggð við kórinn og nú syngja tvö af þremur börnum Hildigunnar einnig með kórnum.
Hljómeyki hefur pantað og frumflutt mikinn fjölda tónverka, bæði íslensk og erlend, og hafa mörg þeirra verka ratað á efnisskrár bæði íslenskra og erlendra kóra. „Við erum örugglega sá kór, fyrir utan Hamrahlíðarkórana, sem hefur frumflutt flest íslensk tónverk,“ segir Hildigunnur, en kórinn hefur til að mynda flutt tónverk eftir hana. Það getur verið auðmýkjandi að hennar sögn. „Maður áttar sig kannski ekki á að eitthvað sem ég hélt að væri ekkert mál var kannski aðeins erfiðara. Úps,“ segir Hildigunnur og hlær. Það ætti hins vegar ekki að koma að sök þar sem mörg tónskáld hafa sungið með kórnum í gegnum tíðina. Hljómeyki hefur meira að segja haldið tónleika undir yfirskriftinni Tónskáldin í kórnum, oftar en einu sinni. Akkúrat núna eru sex tónskáld í kórnum og tveir tónsmíðanemar. Af 26 sem skipa kórinn þessa stundina.
Erla Rut Káradóttir hefur verið stjórnandi Hljómeykis frá haustinu 2022. Á efnisskrá afmælistónleikanna á sunnudag má finna úrval af þeim verkum sem hafa verið samin fyrir hópinn og/eða verið frumflutt af honum. Það var ekki auðvelt verk að velja enda hafa flest helstu tónskáld Íslendinga samið verk fyrir kórinn. Flutt verða meðal annars verk eftir Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur, Önnu Þorvaldsdóttur auk margra fleiri. Auk þessa mun kórinn halda upp á afmælið með samsöngstónleikum með þjóðlegu ívafi í Dómkirkjunni 17. júní. Þar verða meðal annars frumfluttar tvær þjóðlagaútsetningar Hafliða Hallgrímssonar sem hann tileinkar kórnum.
Ljósmyndari Heimildarinnar leit við á æfingu Hljómeykis í vikunni þegar undirbúningur fyrir afmælistónleikana var í fullum gangi:
Athugasemdir