Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir í samtali við RÚV að hún íhugi forsetaframboð alvarlega. „Ég ætla bara að viðurkenna það að undanfarna daga hef ég verið að hugsa málið.“ Ákvörðun hennar muni liggja fyrir á allra næstu dögum. „Enda ekkert gott að liggja of lengi yfir þessu.“
Forsætisráðherra segist þó ekki hafa íhugað framboðið framan af árinu. „Ástæða þess er auðvitað að mín staða er sú að ég hef verið að leiða ríkisstjórn og þar voru mjög stór verkefni.“ Undanfarnar vikur hafi þó margt fólk haft samband sem hafi hvatt hana til að íhuga framboð vandlega.
Katrín vildi ekki segja hvort meiri líkur eða minni væru á því hvort hún byði sig fram en staðfesti að hún hefði upplýst formenn hinna flokkanna í ríkisstjórn um það að hún væri að hugsa um framboð. „Þau samtöl voru góð eins og öll okkar samtöl,“ sagði forsætisráðherra við fréttastofu RÚV.
Athugasemdir (2)