Lénið katrinjakobs.is var skráð þann 26. mars síðastliðinn. Sami greiðandi er skráður fyrir það lén og lénið katrinjakobsdottir.is, sem er heimasíða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Sú síða er tímabundið lokuð en var upphaflega sett á laggirnar árið 2006, þegar Katrín var upprennandi stjórnmálamaður.
Katrín hefur ekki staðfest forsetaframboð en hafa margir spáð því að hún stefni á framboð. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í byrjun síðasta mánaðar var Katrín spurð hvort hún ætlaði í slíkt framboð. Hún sagðist þá ekki hafa „leitt hugann að slíku framboði“, hún væri í starfi forsætisráðherra og yrði „hér áfram um sinn“.
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, hefur einnig verið nefnd sem líklegur forsetaframbjóðandi. Hún hefur þó ekkert sagt af eða á um það sjálf en lénið hallahrund.is hefur verið skráð.
Aðrir frambjóðendur
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona sagði í gær að ef Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram til embættis forseta Íslands muni hún gera það líka.
Nokkrir hafa þegar lýst yfir framboði þótt framboðsfrestur sé til 26. apríl næstkomandi. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er einn þeirra, en hann naut stuðnings 56 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun Prósents sem birt var í síðustu viku þar sem spurt er um þá sem gefið hafa kost á sér í embætti forseta Íslands. Séu þeir taldir með sem ekki vita hvern þeir vilja styðja, mældist Baldur með stuðning 37 prósent allra.
Halla Tómasdóttir, sem einnig bauð sig fram árið 2016, er næst vinsælasti frambjóðandinn samkvæmt könnuninni. Alls sögðust 23 prósent þeirra sem taka afstöðu með einhverjum frambjóðanda styðja Höllu í embættið. Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi dómari og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, naut stuðnings átta prósent.
Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, hefur gefið út að hann muni tilkynna um ákvörðun sína um hvort hann bjóði sig fram eða ekki í myndbandi sem hann mun birta á samfélagsmiðlum á þriðjudag.
Ég hélt að Steinunn Ólína væri virðingarverð persóna. Núna hefur hún sýnt þá hlið á sér sem mér finnst algerlega óhæf í okkar virðulegasta embætti.
Kveðja,
Páll
Hún á að geta svarað, svo og aðrir sem hyggja á framboð. Hvað heldur fólk eiginlega að það sé? Ég er hjartanlega sammála Steinunni Ólínu.