Baldur Þórhallsson, forsetaframbjóðandi og prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, er spenntur fyrir kosningabaráttunni sem er fram undan en viðurkennir að kvíðinn geri örlítið vart við sig á sama tíma. Í ítarlegu viðtali í páskablaði Heimildarinnar fara Baldur og Felix yfir kosningabaráttuna sem fer á fullt eftir páska, en fjölskyldan stefnir á hringferð um landið á tveimur húsbílum.
„Það er alltaf leiðinlegt að lenda í orðaskaki en við erum með sterkan skráp,“ segir Baldur. Slagorð framboðsins er Baldur og Felix – vinnum saman. Þó Baldur sé í framboði er eiginmaður hans, Felix Bergsson, stór hluti af framboðinu.
Gunnar Helgason, vinur hjónanna og samstarfsmaður Felix til margra ára, stofnaði stuðningshópinn á Facebook: Baldur og Felix – alla leið, fyrir um mánuði. Gunnar tók ákvörðun að eyða út hatursfullum ummælum eftir að hafa reynt að hunsa þau til að byrja með.
„Við eigum 28 ára ástríkt samband að baki og höfum ekkert að fela,“
„Ég held að flestum hafi liðið verr heldur en okkur yfir þessari litlu hatursorðræðu sem var á áskorendasíðunni vegna þess að við höfum orðið fyrir barðinu á henni svo lengi. Það er verst ef að fólk fer að segja ósannar sögur, sem eru búnar til, einhverjar kjaftasögur sem maður veit ekkert hvernig skapast. Við höfum heyrt ýmsar kjaftasögur, hinar og þessar, og það veit enginn hvaðan þetta kemur eða hvert þær eru að fara. Og við munum eflaust lenda í því eins og aðrir. Ég lít bara á það að þetta er hluti af þessari umræðu. Fólk verður bara að tala eins og það vill,“ segir Baldur.
„Við eigum 28 ára ástríkt samband að baki og höfum ekkert að fela,“ segir Felix og Baldur tekur undir. „Við höfum ekkert gert sem við þurfum að skammast okkur fyrir. Ekkert sem við getum ekki staðið við. Nema kannski pirringur yfir mat á veitingastöðum eða þegar ég þarf að bíða lengi í röð í búð, ég viðurkenni það,“ segir hann og hlær.
Lýðræðisveisla fram undan
Baldur er lítið að velta mótframbjóðendum, og mögulegum mótframbjóðendum, fyrir sér. „Við erum að fara fram á okkar forsendum. Við erum ekkert að velta fyrir okkur hverjir aðrir eru að bjóða sig fram. Þetta er lýðræðisveisla þar sem fólk velur þann sem það telur henta best.“
Þó nokkur hafa tilkynnt framboð, þar á meðal Halla Tómasdóttir, sem bauð sig einnig fram fyrir átta árum, Sigríður Hund Pétursdóttir, fyrrverandi formaður Félags kvenna í atvinnulífinu, Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar og Ástþór Magnússon, viðskiptamaður og fyrrum forsetaframbjóðandi. Listinn er alls ekki tæmandi en yfir 50 manns hafa stofnað til meðmælasöfnunar á island.is, þar má meðal annars nefna Ásdísi Rán Gunnarsdóttur. Þá hafa ýmsir verið orðaðir við forsetaframboð og beðið er svara frá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Jóni Gnarr grínista.
Framboðsfrestur rennur úr 26. apríl og 2. maí mun landskjörstjórn auglýsa hver verða í framboði.
Athugasemdir