Samkvæmt nýju mati Hagstofu Íslands var mannfjöldi á Íslandi 383.726 þann 1. janúar 2024 og hafði íbúum fjölgað um 8.508 frá 1. janúar í fyrra, eða um 2,3%. Íslendingar eru því ekki orðir yfir 400 þúsund eins og Þjóðskrá greindi frá í febrúar en þar var miðað við fjölda einstaklinga með skráð lögheimili hér á landi.
Samkvæmt Hagstofunni voru 196.552 karlar, 187.015 konur og 159 kynsegin/annað búsett á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 2,5% frá fyrra ári, konum um 2,0% og kynsegin/annað um 22,3%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni.
Ný aðferð við útreikninga
Hagstofa Íslands hefur endurbætt aðferð sína við útreikninga á mannfjölda. Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár.
Niðurstaðan er sú að 1. janúar 2024 hafi íbúar verið um 15.245 þúsund færri en eldri aðferð gaf til kynna og má það ofmat að mestu rekja til innflytjenda frá ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Hagstofunni.
Meginástæða misræmis á milli fjölda einstaklinga með skráð lögheimili á Íslandi og metins íbúafjölda í landinu er sú að á sama tíma og ríkur hvati er til þess að skrá lögheimili hjá Þjóðskrá þegar flutt er hingað til lands er lítill sem enginn hvati til þess að tilkynna búferlaflutninga frá landinu.
Afleiðingin er sú að fjöldi fólks hefur flutt af landi brott án þess að tilkynna flutninginn til Þjóðskrár. Hvatinn til að skrá lögheimili hjá Þjóðskrá felst til að mynda í því að fá kennitölu, hafa aðgang að vinnumarkaði, stofna bankareikning og fá aðgang að heilbrigðis‐, mennta‐ og félagskerfum.
Fjöldi einstaklinga sem eru hluti ofmats var nokkuð jafn frá árinu 2011 til ársins 2018, fór hæst í 6.611 árið 2011 en var lægstur 5.849 árið 2017. Ofmetinn fjöldi íbúa jókst síðan stöðugt frá og með árinu 2019 og var kominn í 15.245 þúsund árið 2024. Hlutfall ofmats miðað við eldri aðferð er milli 1,7% og 2,1% íbúa frá 2011 til 2018 en stóð í 3,8% árið 2024.
Grafið hér að ofan sýnir einstaklinga á vinnualdri, 20 til 64 ára. Þar sést að karlmenn með erlent ríkisfang eru stærstur hluti þeirra sem flokkaðir voru úr landi þrátt fyrir að hafa lögheimili á Íslandi.
Mikil fjölgun var í þessum hópi eftir árið 2018. Á sama tíma hófst samfelld aukning hjá konum með erlent ríkisfang á sama aldri, þó í minna mæli en hjá körlunum. Karlmenn með íslenskt ríkisfang á vinnualdri hafa sterkari tilhneigingu til þess að vera ranglega skráðir með lögheimili á Íslandi en konur með íslenskt ríkisfang á sama aldri en ofmat hefur nokkurn vegin staðið í stað á meðal einstaklinga með íslenskt ríkisfang á vinnualdri af báðum kynjum.
Lögheimilisskráning ekki lengur viðmiðið
Árið 2021 framkvæmdi Hagstofan manntal á Íslandi í samræmi við reglugerðir Evrópusambandsins eins og gert var í öðrum Evrópuríkjum og flestum löndum heims. Íslenska manntalið byggir á margs konar heimildum úr skráargögnum eins og annars staðar á Norðurlöndum en nánar er sagt frá aðferðum þess í greinargerð um manntal og húsnæðistal 1. janúar 2021. Þegar metinn fjöldi íbúa á Íslandi í manntalinu var borinn saman við fjölda þeirra sem voru með lögheimili á Íslandi kom í ljós að metinn fjöldi manntalsins var um það bil 10 þúsund færri en skráðir íbúar í landinu.
Lögheimilisskráning Þjóðskrár Íslands hefur hingað til legið til grundvallar mannfjöldatölum Hagstofunnar en niðurstöður manntalsins 2021 gáfu tilefni til að endurskoða þá aðferð. Með því að nýta skattagögn, nemendagögn af öllum skólastigum, auk upplýsinga úr þjóðskrá fengust góðar vísbendingar um það hverjir væru líklega búsettir erlendis þrátt fyrir að vera með skráð lögheimili á Íslandi.
Í ljós kom að munurinn hefur farið vaxandi frá því síðasta manntal var gert, og í raun frá árinu 2018, og var þann 1. janúar 2024 kominn upp í 15.245.
Hér má nálgast greinargerð um nýja aðferð Hagstofunnar við útreikningana.
Ótrúlega stór skekkja - í ekki stærra samfélagi en við erum talin vera!!