Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, ætlar að gefa kost á sér til forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann á fundi í Bæjarbíói í Hafnarfirði í hádeginu. „Við ætlum að svara kallinu hátt og skýrt og taka slaginn,“ sagði Baldur undir fagnaðarlátum viðstaddra.
Sem forseti segist Baldur ætla að beita sér fyrir mannréttindum allra samborgara sinna. Hann og Felix hyggist standa þétt við bakið á þeim sem minna mega sín auk þess að láta málefni barna og ungmenna sig varða. Sagði Baldur enn fremur að forseti ætti ætíð að tala fyrir friði og vara sig á því að vera meðvirkur með ráðamönnum.
„Forsetinn verður að standa vaktina. Hann verður að standa vörð um þjóðina,“ sagði Baldur.
Margir jákvæðir gagnvart framboðinu
Baldur hefur verið orðaður við embættið síðastliðnar vikur en nýlega stofnaði Gunnar Helgason, náinn vinur Baldurs og eiginmanns hans Felix Bergssonar, Facebook-hóp þar sem hann skoraði á hjónin að bjóða sig fram. Hópurinn, Baldur og Felix - Alla leið, telur nú á nítjánda þúsund manns.
Í könnun sem Valgeir Magnússon eða Valli sport, framkvæmdastjóri TBWA/Norway, lét framkvæma mældist Baldur vel meðal þjóðarinnar. En Valgeir er kosningastjóri framboðs Baldurs.
Samkvæmt könnuninni voru 53% svarenda jákvæðir gagnvart því að hann yrði næsti forseti Íslands. Voru það umtalsvert fleiri en voru jákvæðir gagnvart Höllu Tómasdóttur, sem tilkynnti framboð sitt um helgina, en 35% voru jákvæðir gagnvart henni.
Fyrsti þjóðkjörni homminn sem yrði forseti
Hlyti Baldur kjör yrði hann fyrsti opinberlega samkynhneigði forsetinn í heiminum sem hlyti þjóðkjör. Aðeins einn forseti hefur verið opinberlega samkynhneigður. Það er núverandi forseti Lettlands, en hann var þingkjörinn. Það yrði því stór atburður í sögu hinsegin fólks ef Baldur og Felix yrðu forsetahjón.
Í samtali við Heimildina fyrir skemmstu sagði Baldur að það væru aðeins örfá misseri síðan einhver gat séð fyrir sér, og jafnvel hann sjálfur, að það væri raunhæft að samkynhneigt par færi á Bessastaði. „Þegar við Felix byrjuðum saman gátum við ekki einu sinni skráð okkur í sambúð, við máttum það ekki. Það eru ekki nema 14 ár síðan við máttum giftum okkur.“
Greinilegt er að margir láta sig samkynhneigð hjónanna varða en nokkuð hefur borið á hatri og fordómum í garð þeirra upp á síðkastið. Hefur það einkum sést í áðurnefndum Facebook-hóp. En þar hafa safnast inn ógeðfelldar athugasemdir um samkynhneigð Baldurs og Felix. Til dæmis ýjaði einn maður að því að Íslendingar væru búnir að vinna sér inn nægilega „kynvillingafrægð“ og hefðu því ekkert að gera við hommapar á Bessastaði.
Bætist ört í hóp frambjóðenda
Fjölga tekur í hópi þeirra sem gefa kost á sér til embættisins. En um helgina tilkynnti Halla Tómasdóttir, forstjóri og fyrrverandi forsetaframbjóðandi, um framboð sitt. Hún hlaut næstflest atkvæði í kosningunum 2016.
Aðrir sem hafa boðið sig fram eru meðal annars Ástþór Magnússon athafnamaður, Sigríður Hrund Pétursdóttir fjárfestir, Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður og Tómas Logi Hallgrímsson björgunarsveitarmaður.
Þá safna Agnieszka Sokolowska, verkefnastjóri og túlkur, Angela Rawlings, Ásdís Rán Gunnarsdóttir, Borgþór Alex Óskarsson og Einar Gunnarsson meðmælendum á island.is meðal þónokkurra annarra.
Þau sem enn eru bendluð við embættið án þess að hafa sagt af né á um framboð eru meðal annars Jón Gnarr, grínisti og fyrrverandi borgarstjóri og Salvör Nordal, umboðsmaður barna. Þá eru Alma Möller landlæknir, Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, Hlynur Jónsson fasteignamiðlari og Eyjólfur Guðmundsson, fráfarandi rektor HA, enn óákveðin.
Margir vilja að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra bjóði sig fram til embættisins. Aðspurð sagðist hún ekki hafa leitt hugann að slíku framboði. Katrín hefur þó ekki viljað svara því neitandi að hún muni bjóða sig fram.
Athugasemdir (1)