Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir stofnanir og ríkisfyrirtæki, þar sem fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna sitja í stjórn, virða eigendastefnu ríkisins og stjórnarsáttmála að vettugi.
Það hafi ekki verið fyrirséð að fé yrði fært til hluthafa Kviku til þess að ríkið gæti eignast tryggingafélag. Ekkert komi þó lengur á óvart þegar ríkisstjórnin sé annars vegar. Þetta kemur fram í Facebook-færslu sem þingmaðurinn birti í morgun.
Þórdís vill selja Landsbankann, Lilja og Katrín ekki
Um helgina var tilkynnt um kaup Landsbankans, sem er í eigu íslenska ríkisins, á tryggingafélaginu TM. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fjármála- og efnahagsráðherra, lýsti því yfir að hún myndi ekki samþykkja kaupin nema ef Landsbankinn væri einkavæddur í kjölfarið.
Þetta hröktu aðrir ráðherrar á þingi í gær. Bæði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra lýstu því yfir að ekki stæði til að selja Landsbankann.
Gengdarlaus útþensla ríkisins
„Ég hélt að það væri skýrt að krafan væri sú að engin fyrirtæki í ríkiseigu ættu að stuðla að aukinni þenslu í hagkerfinu. Eru ekki allir á sömu blaðsíðu?“ spyr Þorgerður Katrín. „Ekki síst eftir marg auglýsta aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum. Að það væru allir að róa í sömu átt að sama markmiði; slá á verðbólgu og fara ekki út í þensluhvetjandi aðgerðir.“
Segir hún það frumlega leið að hagræða í ríkisrekstrinum með því að ríkisvæða tryggingafélag fyrir 28,6 milljarða króna. En fjármálaráðherra hefur talað mikið fyrir því upp á síðkastið að mikilvægt væri að hagræða í ríkisrekstrinum til að mæta auknum útgjaldakostnaði.
Þorgerður Katrín segir að horft sé upp á gengdarlausa útþenslu ríksisins. „Afrekaskrá í hagræðingu er engin. Frekar er gefið í. Á vakt og á ábyrgð flokks sem eitt sinn kenndi sig við ráðdeild í ríkisrekstri.“ Stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins telji sig því geta bætt við báknið óáreitt.
„Yfirgengilegt stjórnleysi“
„Hitt er síðan kúlturinn í kringum samskipti innan ríkisstjórnar. Makalaust yfirlýsingakapphlaup á milli ráðherra sem virðist engan endi ætla að taka. Hver er í sínu horni að merkja sér sitt svæði. Þaðan sem yfirlýsingar flæða, oftast til heimabrúks og stangast á við aðra,“ skrifar Þorgerður Katrín.
Hún segir það furðulegt að horfa upp á. Hún hafi upplifað margt í stjórnmálum en þetta sé henni nýtt. „En fyrst og síðast dregur þetta fram yfirgengilegt stjórnleysi og sýnir að það er engin funkerandi ríkisstjórn í landinu. Í hverju málinu á fætur öðru. Það er enginn metnaður, hvað þá sameiginleg sýn.“
Athugasemdir (1)