Eldgos hófst á Reykjanesi klukkan 20.23 í kvöld með litlum fyrirvara. Stórir kvikustrókar voru strax sjáanlegir á fyrstu sekúndum eldgosins. Myndband sýnir hvernig eldveggur rís á örfáum sekúndum.
Rýming er hafin í Grindavík og um 700 til 800 manns var gert að yfirgefa Bláa lónið og hótel þar. Upptök gossins eru á svipuðum stað og áður á Sundhnúksgígaröðinni, en samkvæmt fyrstu mælingum Veðurstofu Íslands eru þau nær Bláa lóninu og Svartsengi en áður. Svo virðist sem aðdragandinn hafi verið stuttur en vart var við aukna skjálftavirkni aðeins stuttu fyrir gosið.
Við fyrstu sýn var fyrirvarinn talinn í mínútum en það leið einungis um mínúta frá tilkynningu Veðurstofu Íslands um að skjálftavirkni sem gæti verið fyrirboði eldgos áður en eldgosið sjálft hófst.
Smáskjálftahrina hófst um klukkan hálfátta með litlum, grunnum skjálftum við Sundhnúksgígaröðina, á svipuðum stað og gosið átti eftir að brjótast út klukkutíma síðar. Það var síðan mínútu áður en gosið hófst sem skjálfti að stærðinni 1,2 mældist á aðeins hundrað metra dýpi rúmum kílómetra norður af Stóra Skógfelli og annar dýpri um 20 sekúndum síðar. Upptök gossins eru skammt suður af fellinu og nokkur hundruð metrum austan við Sýlingafell, en handan þess er Bláa lónið.
Á myndbandinu að ofan sést upphaf gossins, fangað af vefmyndavél Live from Iceland.
Vegfarendur á Reykjanesbraut sem hafa sett sig í samband við Heimildina lýsa sjáanlegur bjarma frá gosinu. Fólk sem búsett er í yst í Hafnarfirði segir einnig frá því að það sjái gosið þaðan. Það á raunar við víðar á höfuðborgarsvæðinu en myndin hér að neðan er tekin á Seltjarnarnesi stuttu eftir að gosið hófst.
Athugasemdir