Bakkus hafði slæm áhrif á mig á sínum tíma þegar ég var í fótboltanum. Ég var að brillera í fótboltanum átján ára gamall og var kominn í KR, unglingaliðið. Svo kynntist ég vinahópi og byrjaði að drekka í fyrsta skipti og hætti í fótbolta. Það voru stærstu mistök lífs míns. Ég byrjaði að drekka og hitta einhverjar stelpur og fór í rangan félagsskap.
Ég hafði verið kominn í úrtökuhóp fyrir unglingalandsliðið, við fórum á úrtökumót á Laugarvatni. Þar var ég einn úr Aftureldingu og þekkti engan. Og var mjög feiminn. Það gekk ekki sem skyldi að koma sér á framfæri. Það var ekkert haldið utan um þetta þarna þá, eins og í dag. Bara sendur! Og enginn að spá í það. Einn í herbergi með gaur sem ég þekkti ekkert.
„Bara ef ég gæti spólað til baka, þá væri það þennan dag, þarna“
En ég var sem sagt nýbyrjaður að æfa í KR þegar ég byrjaði að drekka, kynntist Bakkusi. Ég hef hugsað þetta mörgum sinnum um ævina. Bara ef ég gæti spólað til baka, þá væri það þennan dag, þarna.
Það var svo gaman að drekka, ég var ekkert að hugsa um afleiðingarnar. Bara svo gaman að allt annað gleymdist. Svo þegar maður fór að hugsa: Úff, ég er búinn að gera allt of mikið af þessu! – þá var það of seint.
Svo byrjaði ég aftur í fótbolta 24 ára en var ekki eins góður og ég var en fer í utandeildina. Frá 24 til 37 ára vann ég utandeildina sjö sinnum. Einu sinni bikarmeistari. Og var markakóngur flest árin. Er með sönnun heima, alla bikarana. Leiðinlegt að glata draumnum fyrir smá áfengi.
Athugasemdir