Ífangabúðunum sem kallaðar eru Gaza bjuggu rúmlega tvær milljónir Palestínumanna áður en Ísrael hóf lokalausn síðasta hluta þjóðarmorðs á íbúum svæðisins í október síðastliðnum. Ég er bara einfaldur maður. Á að vera að skrifa skáldsögu en er ófær um það af því mér finnst fráleitt að reyna að búa til bullusögur til að hlæja af og gretta sig yfir þegar verið er að fremja þjóðarmorð. Ég er með allskonar staðreyndir í hausnum en ófær um að setja þær saman í flæðandi texta, með upphafi, miðju og hnyttnum endi. Hvað þá að berja saman sögu. Hvað ætti ég að skrifa um? Hvernig get ég skrifað skáldsögu með vísunum í þjóðarmorð á íbúum Gaza? Myndi það breyta einhverju?
Gaza er ekki stórt svæði. Ef við setjum það í samhengi við Ísland, eins og við erum gjörn á að gera, þá er það örsmátt. Ég vil nota tvö svæði á Gaza til samanburðar. Annarsvegar svæðið þar sem áður stóð Rafah borg, þar sem tæp ein og hálf milljón manna hafast nú við í tjöldum, vosbúð, hungursneyð og ömurð. Þangað sem Ísraelar sögðu þeim að flýja til þess að komast í öryggi en sprengja nú daglega varnarlausa íbúa; konur og börn í meirihluta. Egyptar meina fólkinu að flýja sunnar. Ísraelar meina fólkinu að flýja norðar. Þau eru föst, svöng, lyfjalaus og að deyja. Hitt svæðið sem ég vil nota til samanburðar er höfuðborgarsvæðið, í kringum Gazaborg í norðri. Svæðið sem Ísraelar réðust fyrst á, einangruðu og hafa svelt hvað lengst. Þar eyðilögðu þeir fyrstu spítalana og landnemar, með aðstoð ísraelska hersins, koma nú í veg fyrir að nauðsynleg hjálpargögn komist til svæðisins. Það gera þeir með því að halda veislur á veginum sem liggur þangað inn. Í norðanátt grilla þau, þannig ilmurinn af matnum berist hugsanlega yfir til þeirra sem svelta.
Ef við byrjum á að staðsetja Gazaborg á höfuðborgarsvæðinu þá væri Rafah landamærastöðin við Keflavík. Ekki langur rúntur eins og við mörg vitum. Önnur klassík er ísbíltúr til Hveragerðis. Ef við segjum að Rafah sé við Reykjavíkurhöfn þá er Gazaborg Hveragerði. Kíkja í sund? Er Bóbó api enn til? Hver kveikti í Eden? Ef við viljum heldur fara í norðurátt þá væri hægt að staðsetja þorra íbúa Gaza í Rafah við Sundahöfn og Gazaborgin, þar sem börn eru nú reglulega skotin af leyniskyttum í höfuðið við að leita sér að mat eða eldivið, væri þá við Borgarfjarðarbrúnna. Þarf einhver að stökkva inn í Hyrnuna og pissa?
Kílómetrar breyta því ekki hvort manneskjur séu manneskjur. Það að verið sé að myrða fólkið á Gaza með hungri, sprengjum og byssukúlum í 5275 kílómetra fjarlægð dregur ekki úr þjáningu þeirra. Réttlætir ekki verknaðinn. Hringvegurinn um Ísland er 1322 kílómetrar. Að keyra í beinni línu frá Reykjavík til Gaza er eiginlega akkúrat fjórir hringvegir. Vissulega langur akstur en alls ekki nógu langt til þess að réttlæta þjóðarmorð.
Þeir Íslendingar sem einhverra hluta vegna styðja enn Ísrael eru gjarnir á að kyrja að Hamas þyrfti aðeins að sleppa gíslunum, þá myndi stríðið hætta samstundis. Í fyrsta lagi þá hefur Hamas ítrekað boðist til þess að sleppa öllum gíslunum gegn varanlegum friði á svæðinu, en þeim tilboðum hefur verið hafnað. Höfnunin er vegna þess að Netanyahu ætlar sér að tæma svæðið. Gíslarnir hafa aldrei skipt neinu máli, nema sem átylla fyrir þjóðarmorðinu og afsökun fyrir framhaldi þess. Ef Hamas fengi að sleppa gíslunum þá væri stærsta einstaka ástæðan fyrir því að verið sé að fremja þjóðarmorð úti og Ísrael þyrfti skyndilega að útskýra óverjandi þjóðarmorðið fyrir heimsbyggðinni með öðrum rökum.
„Það er að meðaltali rúmlega 200 á dag, og eru þó ótalin þau sem ekki hafa fundist og eru grafin í húsarústum og þau 73 þúsund sem eru örkumluð, særð, aflimuð eða liggja fyrir dauðanum“
Setjum líka fjölda gísla aðeins í samhengi. Þeir eru 134 talsins. Það er svipaður fjöldi og kæmist í tvo strætóa, þó vissulega væri ansi þröngt á þingi. Til samanburðar má benda á að frá sjöunda október hafa um 32 þúsund Palestínubúar verið myrtir. Það er að meðaltali rúmlega 200 á dag, og eru þó ótalin þau sem ekki hafa fundist og eru grafin í húsarústum og þau 73 þúsund sem eru örkumluð, særð, aflimuð eða liggja fyrir dauðanum. Ef fólki finnst réttlætanlegt að myrða 200 saklausa borgara á dag í 158 daga og leggja nokkrar borgir í rúst á sama tíma til þess að eiga von á að bjarga 134 einstaklingum set ég alvarlegt spurningarmerki við stærðfræðigetu viðkomandi einstaklinga. Ég er bara einfaldur maður, en mér finnst eitthvað athugavert við siðferðilega réttlætingu þess að hrekja tvær milljónir á vergang, láta þær ganga í gegnum skipulagða hungursneyð og myrða 32 þúsund einstaklinga til þess að bjarga hugsanlega hundraðþrjátíuogfjórum. Hundraðþrjátíuogfjórum sem þú vilt ekki einu sinni fá afhenta gegn varanlegum friði.
Hamas eru búnir að vera. Geta þeirra til þess að berjast í þeim aðstæðum sem nú eru á Gaza er engin. Engin vopn að koma inn á svæðið þýða að andspyrnan er búin. Enda var hún ekki merkileg til þess að byrja með. Við höfum verið að horfa upp á einn best útbúna her í heimi fletja út borgir fullar af saklausum borgunum í 158 daga. Við höfum ekki verið að horfa upp á tvo fullvopnaða heri mætast á vígvöllum. Þetta er hrein útrýming. Tæming Gaza. Þjóðarmorð sem enginn vestrænn leiðtogi hefur lyft litla fingri til þess að stöðva. Af því heimurinn hefur skipað sér í fylkingar og kjörnir fulltrúar okkar eru í hinu liðinu. Með þjóðarmorðinu.
Þrátt fyrir það hefur Netanyahu notað Hamas sem átyllu fyrir því að halda þurfi þjóðarmorðinu áfram. Læknar lýsa því hvernig fjöldi barna komi inn á rústir spítalanna með skot í höfði úr rifflum leyniskytta. Tveir af gíslunum sem Netanyahu segist þrá svo heitt að fá heim voru skotnir úti á götu af ísraelska hernum þar sem þeir gengu og veifuðu hvítum fánum. Stundum er því haldið fram að Hamas sé að nota fólk sem mannlega skildi. Kannski er ég einfaldur, en ég hef aldrei séð fyrir mér hvernig það virkar þegar gíslar og börn eru skotin í höfuðið. Voru Hamasliðarnir að nota börnin sem hjálma? Einhverjir tala um göng undir spítölum, full af vopnum, og þess vegna þurfi að sprengja spítalana í loft upp, ráðast inn á þá, taka lækna höndum, yfirgefa nýfædd börn í hitakössum. Ég er kannski einfaldur en ég sé ekki alveg hvernig það allt telst til hernaðar.
Egypsk-ameríski sjónvarpsmaðurinn Bassem Youssef er ekki bara grínisti, hann er einnig hjartaskurðlæknir. Þegar hann var spurður út í aðferðir Ísraela við að útrýma Hamas kom hann með samlíkingu sem hitti í markið hjá mér. Hann sagði að ef við lítum á Gaza sem líkama og Hamas sem sjúkdóm, þá þyrfti að nálgast Gaza nákvæmlega þannig, eins og veikan einstakling. Þegar fólk er veikt þá þarf það næringu, vatn og hvíld. Þú læknar ekki sjúkdóma með því að stinga sjúklinginn ítrekað og svipta hann mat og svefni á sama tíma. Þannig gerir þú sjúkdóminn verri. Veikir sjúklinginn. Drepur hann. Ég er vissulega einfaldur maður, en það er farið að hvarfla að mér að yfirlýst markmið Ísraels, frelsun gísla og útrýming Hamas, sé kannski ekki raunverulegt markmið þeirra. Því raunverulega markmiðið hljómar eins og bergmál aftan úr fortíð sem engin manneskja sem samkennd og sál gæti sætt sig við að væri að eiga sér stað.
Athugasemdir