Heimilisfriður er meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum. Um 150 manns koma á hverju ári í fyrsta viðtal til Heimilisfriðar til að leita sér aðstoðar eftir að hafa beitt heimilisofbeldi. Á síðasta ári gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands úttekt á meðferðarúrræðinu, að beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Meðferðaraðilar hjá Heimilisfriði telja úrræðið mikilvægt í sínu bataferli og finna mun eftir að meðferð hófst.
Úttektin var gerð á skjólstæðingum Heimilisfriðar á árunum 2017 til 2023.
Í skýrslunni lýsir einn faðir hvernig hann fann að ofbeldið sem hann beitti var farið að hafa áhrif á börnin á heimilinu. Var það hvatinn sem fékk hann til að leita sér hjálpar. Börnin forðuðust föður sinn þar sem þau vissu sjaldan í hvernig skapi hann var í þann daginn.
„Þegar ég kom heim úr vinnunni og svona þá forðuðu börnin sér inn í herbergi, vildu voða lítið við mig tala og þetta var alltaf spurning um það hvort að pabbi verði reiður eða ekki þannig að ég bara ákvað að reyna að gera eitthvað í mínum málum.“
Í hverri viku leita að jafnaði þrír gerendur í heimilisofbeldismálum sér aðstoðar hjá Heimilisfriði í fyrsta skipti. Markmið meðferðar er að gerendur hætti að beita ofbeldi og taki ábyrgð. Sálfræðingar hjá Heimilisfriði segja það mikið tabú að gangast við því að hafa beitt ofbeldi. Skömmin er enn meiri hjá konum sem eru gerendur.
Varnarviðbrögð við ofbeldi
Mörkin milli geranda og þolanda sem leita sér hjálpar hjá Heimilisfriði eru ekki alltaf ljós. Tvær konur, sem töldu sig vera gerendur, leituðu til Heimilisfriðar að eigin frumkvæði. Höfðu makar þeirra sannfært þær um að þær væru ofbeldisfullar og „hræðilegar manneskjur.“ Önnur kvennanna sagði manninn sinn saka sig um að beita hann líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. „Ég náttúrulega kem þangað inn með það hugarfar sko, mitt hugarfar er náttúrulega þannig að ég er ofbeldismanneskja sko, og bara hvernig laga ég það.“
Þær gerðu sér báðar grein fyrir því í meðferð hjá Heimilisfriði að þær væru með varnarviðbrögð við ofbeldi sem var verið að beita þær eða „reactive abuse.“ Er það eitthvað sem gerist þegar einstaklingur hefur verið í langan tíma í óheilbrigðum aðstæðum.
Í samböndum þar sem báðir einstaklingar beittu ofbeldi leitaði annar aðilinn til Heimilisfriðar, í þeirri von um að maki þeirra myndi fylgja á eftir. „Ég held hann hafi kannski bara ekki verið opinn fyrir þessu,“ sagði þolandi og gerandi. Sagði viðkomandi að honum þætti maki sinn beita sig meira ofbeldi en hún hann. „En ég ákvað bara að byrja á sjálfri mér og vona að hann mundi fylgja mér eftir. En svo var það ekki þannig.“
Ólíkar birtingamyndir ofbeldishegðunar
Ein birtingarmynd ofbeldis er stöðug eftirfylgni í gegnum síma og tölvu. „Ég sá það, ég fór bara inn á settings og sá að það var einhver annar skráður sími inná mína reikninga.“
Skjólstæðingar Heimilisfriðar voru í sumum tilvikum ekki jafn líklegir og makarnir til að viðurkenna ofbeldisbrot.
Í skýrslunni stendur að það komi „ekki á óvart þar sem algengt er að svarendur hafa tilhneigingu til að fegra svör sín þegar spurt er um viðkvæm og alvarleg málefni á borð við að beita líkamlegu ofbeldi.“ 47% þolenda sögðu að í hefðbundnum mánuði hefði þeim verið hrint, það hefði verið hrifsað í þá eða snúið upp á handlegg þeirra.
Aðeins 19% gerenda viðurkenndu að þeir hefðu sýnt af sér slíka hegðun. 31% þolenda lentu í því að einhverju var hent á eftir þeim eða þeir barnir með einhverju en 16% gerenda gengust við slíkri hegðun. Í þeim tilvikum sem fórnarlamb segist hafa orðið fyrir hótunum um líkamlegt mein viðurkenna nánast allir gerendur að hafa hótað slíku.
Eftir að meðferð var hafin hjá Heimilisfriði lækkuðu hlutföllin verulega hjá þeim sem hefðu upplifað ofbeldi. Ofbeldið hvarf ekki að öllu leyti. „Þannig lækkaði hlutfall þeirra sem sagði maka hafa hrint sér eða þrifið í sig um meira en helming (úr 47% í 20%).“
Í skýrslunni kemur fram að 20% þolenda hefðu verið þvingaðir eða reynt að þvinga til þá samfara með ofbeldi og hótunum. Enginn gerendanna sagðist hafa beitt slíku ofbeldi. Eftir að meðferð hófst lækkaði hlutfallið um helming eða niður í 10%. „Þetta sýnir að þótt líkamlegt ofbeldi hafi ekki horfið að öllu þá dró verulega úr því, sem gefur til kynna að meðferðarúrræðið hafi jákvæð áhrif,“ segir í skýrslunni.
Talsvert algengara var að skjólstæðingar beittu andlegu ofbeldi en líkamlegu. Fyrir meðferð hjá Heimilisfriði hafði meirihluti gerenda eða 61% niðurlægt eða móðgað maka sinn þannig að hann varð miður sín. Þegar makar þeirra voru spurðir svöruðu 73% þeirra að þeir hefðu upplifað slíka framkomu.
Um 27% skjólstæðinga Heimilisfriðar höfðu skemmt eða eyðilagt persónulegar eigur maka og 18% hótuðu að vinna sér mein ef maki yfirgæfi sig. Hegðunin eftir meðferð hófst minnkaði hjá hópnum og í flestum tilvikum hafði hegðunin ekki átt sér stað í einhvern tíma.
Bati eftir meðferð hjá Heimilisfrið
80% skjólstæðinganna töldu „að þeir ættu auðveldara með að halda ró sinni við ögrandi aðstæður en fyrir meðferð.“ 92% þeirra sem voru í sambandi eða giftir töldu að eftir meðferðina sýndu þeir maka sínum meiri skilning.
84% þeirra sem áttu börn eða stjúpbörn „töldu sig vera betra foreldri/stjúpforeldri eftir að meðferð hófst.“ Svör maka voru ekki jafn afgerandi en 73% maka sögðu að maki þeirra ætti auðveldara með að halda ró sinni við ögrandi aðstæður.
„Ég var náttúrulega rosalega einangruð og mátti ekkert tala við neinn“ segir maki einstaklings í meðferð hjá Heimilisfriði. „En eftir [að maki hóf meðferð] hef ég alveg farið út með vinkonum og svona. Sem ég gat ekki áður […]. Ég tala meira í síma við mömmu mína og svona út af því að ég gat það ekki. Ég fékk bara minn tíma sem ég mátti gera það.“
Nefndu makar að mörgum þeirra þætti óþægilegt „að vera í samskiptum við ættingja og vini sem vissu af ofbeldinu, því þau voru dæmd fyrir að vera áfram með geranda ofbeldisins.“
„Þetta er svo ótrúlega snúin staða, þú veist, það er svo auðvelt að dæma utan frá og maður vill ekki að fólk sé að dæma. […] Eins og vinkonur mínar, þær eru ekkert búnar að fyrirgefa allt sem hefur gengið á. Þannig að það er mjög svona stirt þarna á milli og ég reyni að tala ekkert um manninn minn við vinkonur mínar af því það er enginn skilningur. Þær vilja bara losna við hann. Þannig að þá bara segi ég frekar ekki neitt og það er líka ekki gott.“
Í skýrslunni lýsir einn þolandi því að samskiptin við börn hennar hafi orðið verri. „Við skilnað höfðu börnin snúið baki við móður og tekið alfarið afstöðu með föður: „Ég er að missa börnin frá mér, […] Hann er enn þá í skemmdarhugleiðingum […], [eldri dóttir mín] hún varla talar við mig eftir þennan skilnað.“
Viðmælendur sáttir með meðferð Heimilisfriðar
Viðmælendur voru sammála um að meðferð Heimilisfriðar „væri bæði nauðsynleg og gott úrræði fyrir þá sem beita ofbeldi í nánum samböndum.“
„Mér finnst þetta bara frábært úrræði að þetta sé í boði og einhver sé að taka þetta að sér,“ er haft eftir einum þeirra. Hjá öðrum þolanda ofbeldis kom fram að erfitt væri að ræða heimilisofbeldi án þess verða dæmdur, en hjá Heimilisfriði upplifðu hún og maki hennar hið gagnstæða: „En mér fannst eins og þarna hafi hann ekki verið dæmdur og hafi bara svolítið fengið svona […] spark í rassinn en það var samt gert vel.“
Gerendur ofbeldisins vonast til þess að Heimilisfriður fái að vaxa og dafna. „Þau komu mér á rétta braut og hérna hjálpuðu mér rosalega mikið og bara einhverju leyti björguðu minni geðheilsu og ég bara vil að þau viti það.“
„Ég var farinn að geta stigið út úr aðstæðunum áður en að breytingarnar urðu það alvarlegar að ég væri búinn að missa tökin,“ sagði einn gerandinn. „Ég bara leyfi ekki fólki að koma mér í þær aðstæður að ég missi tökin ef að ég finn fyrir því að blóðið er farið að sjóða svolítið þá stend ég bara upp og labba út. […] þessi tól sem að ég fékk hjá þeim til þess að stíga út úr aðstæðunum og horfa á sjálfan mig og aðstæðurnar hlutlaust að það svona hjálpar mér hvað mest.“
Athugasemdir