Heimildinni barst fyrir skemmstu ábending um íbúa í fjölbýlishúsi í Árbæ sem hefur að undanförnu haft nasistafána úti í glugga, gestum og gangandi til sýnis.
Á mynd sem Heimildinni barst, sem var tekin nýlega, má sjá fánann hanga í stofuglugga íbúðar. Málið var tilkynnt til lögreglu sem vitjaði mannsins í gær og bað hann um fjarlægja fánann.
Blaðamaður Heimildarinnar náði tali af einum nágranna mannsins sem staðfesti að fáninn hefði verið í glugganum um nokkurt skeið þangað til lögregla kom og bað húsráðanda um að fjarlægja hann.
Í samtali við Heimildina segir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð fjögur, að lögreglan hafi heimsótt manninn og beðið hann um fjarlægja fánann ella eiga í hættu á að vera kærður fyrir brot á grein í hegningarlögum sem lúta að hatursorðræðu.
Í 233. grein almennra hegningalaga kemur fram að „hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“
Þá telur Valgarður að málinu sé lokið. „Ég held hann hafi bara brugðist ágætlega við þessi aðili, í þessu tilfelli.“ Hann væntir þess ekki að málið muni ná lengra. Segir Valgarður að mál sem þessi rati sjaldan inn á borð lögreglu en þau komi þó af og til upp.
Athugasemdir (6)