Gjörningalistaverkið Sjálfseyðingarrofinn (e. Dead Man's Switch) eftir rússneska listamanninn Andrei Molodkin er verk sem heldur listaverkum eftir Picasso, Rembrandt, Andy Warhol og fleiri þekkta listamenn í gíslingu. Listaverkin eru metin á 45 milljónir bandaríkjadollara eða um 6,2 milljarða íslenskra króna. Þau eru 16 talsins og eru geymd í sérútbúinni hvelfingu sem vegur 32 tonn.
Í hvelfingunni eru tunnur fullar af sýru sem munu hellast yfir listaverkin ef Julian Assange deyr í fangelsi. Á hverjum einasta sólarhring þarf einhver nákominn Assange að staðfesta við Molodkin að Assange sé á lífi, annars verða verkin eyðilögð. Listaverkin verða í gíslingu þar til Assange verður látinn laus. Þetta kemur fram í grein The New Yorker um listamanninn.
Í greininni kemur fram að það sé sjaldgæft að listamenn séu tilbúnir að eyða eigin verkum, enn sjaldgæfara að verk eftir aðra séu eydd og mikið sjaldgæfara að þeir sem safni listaverkum séu tilbúnir til þess að bjóða verk í sinni eigu til eyðingar. Það er þó erfitt að staðfesta að verkin sem að Molodkin segir að séu í hvelfingunni séu þar í raun og veru eða hvort að þeim verði eytt ef að Assange deyr.
Verkið heitir Sjálfseyðingarrofinn vegna þess að bandarísk stjórnvöld hafa örlög Julian Assange í hendi sér. Hann situr nú í öryggisfangelsi í Lundúnum. Bandarísk stjórnvöld reyna að fá Assange framseldan til Bandaríkjanna þar sem hann á yfir höfði sér allt að 170 ára fangelsi á grundvelli njósnalöggjafar. Þann 11. apríl mun hann hafa verið þar í fimm ár. Kristinn Hrafnsson, ritstjóri WikiLeaks, hefur hitt listamanninn Molodkin og séð verkin eftir hann. „Eins og inntakið í verkinu bendir til er Assange búinn að vera í apríl í fimm ár í þessu öryggisfangelsi í Bretlandi,“ segir hann í samtali við Heimildina.
Kristinn sagði í viðtali í Pressu í lok febrúar að það sé „alveg absúrd“ að útgefandi og blaðamaður sem ekki hafi unnið nokkrum manni mein sé látinn sitja inni um hryðjuverkamenn og morðingja. Aðbúnaður í varðhaldinu eru að sögn Kristins verri en þeirra sem afplána dóm. „Hans aðstæður eru mun verri en dæmdra brotamanna fyrir alvarlega glæpi.“
Kristinn heimsækir Julian Assange reglulega í fangelsið og segir aðstæðurnar þar vera mjög slæmar. Síðast heimsótti hann Assange á miðvikudaginn og gat því staðfest að hann væri enn þar. „Þetta ógeðslega ástand er það sem kveikir í listamanninum að styðja við bakið á hans slag, því að listamenn skilja það betur en margir að þetta eru slagir í málfrelsi og tjáningarfrelsi,“ segir Kristinn. Hann tekur það fram að hvelfingin sé svipuð á stærð og fangaklefi Assange.
Það kom Kristni á óvart hvað listamenn, söfn og eigendur listaverka voru tilbúnir að leggja verk sín undir í þessum gjörningi. Hann segir að þarna sé um að ræða gjörning „sem leggur áherslu á það að sá sem að heldur um gikkinn og sá sem ber ábyrgð á hvað verður af þessum verkum er Bandaríkjastjórn. Þetta er svona gíslataka listarinnar en ábyrgðaraðilinn er sá sem að heldur örlögum Julian Assange um sínar hendur.“
Molodkin framkvæmdi þennan gjörning af eigin frumkvæði en Kristinn kveðst vera mjög ánægður með hann. Hann finnur fyrir vaxandi skilningi hjá listamönnum um hve mikið sé undir í málum Assange. Hann segir að listamenn séu „hópur sem getur gripið til tjáningar sem er sterk og öflug.“
Ef íslenskir listamenn og listaverkaeigendur hafa áhuga á að taka þátt í gjörningi Molodkin segist Kristinn geta komið þeim í samband við listamanninn.
Athugasemdir (2)