Samninganefnd Eflingar segir að mögulega verði hægt að undirrita nýja kjarasamninga á næstu sólarhringum – jafnvel í dag. Í fréttatilkynningu sem birt var á vefsíðu Eflingar segir að aðeins þrjú atriði séu eftir útistandandi sem eigi eftir að semja um.
Þá segir í tilkynningunni að það sé í hendi Samtaka atvinnulífsins að ganga frá þessum lausu endum hratt og þar með binda enda á flóknar kjaraviðræður, sem hafa á undanförnum vikum harðnað töluvert.
Atriðin sem samninganefnd Eflingar telur upp í færslunni snúa að útfærslu á styrkingu uppsagnarverndar starfsfólks, ýmsum atriðum og orðalagi í samningum um trúnaðarmenn og ýmis atriði sem varða bætt kjör ræstingafólks.
Vilja vernda uppljóstrara og fjölga trúnaðarmönnum á stærri vinnustöðum
Í yfirlýsingu Eflingar segir að félagið hafi lagt fram ýmsar tillögur við útfærslu á styrkingu uppsagnarverndar starfsfólks á almennum vinnumarkaði.
Tillögurnar snúa að vernd uppljóstrara á vinnustaðnum þar sem ekki eru starfandi trúnaðarmenn og „þar sem fyrirtæki hafa ekki sjálf sett sér verklagsreglur um meðhöndlun ábendinga og kvartana starfsfólks.“ Í tilkynningunni segir að tillögunnar taki mið af gildandi lögum um vernd uppljóstrara.
Þá hefur samninganefnd Eflingar einnig farið fram á trúnaðarmönnum verði fjölgað á stærri vinnustöðum svo að þeir verði í „eðlilegu hlutfalli við fjölda starfsfólks á hverjum vinnustað.“
Athugasemd er gerð við það að núverandi samningar geri ráð fyrir einum trúnaðarmanni fyrir vinnustað þar sem vinna allt frá fimm til 50 starfsmenn. Trúnaðarmönnum er fjölgað í tvo ef fjöldi starfsmanna er umfram 50 en ekki þó gert ráð fyrir að trúnaðarmenn verði fleiri en tveir heilt yfir.
Betri kjör fyrir ræstingafólk
Í tilkynningu Eflingar segir að enn eigi eftir að klára ýmis atriði sem snúa að kjörum ræstingafólks. Efling fer fram á að skerpt verði á skilgreiningum á því hvenær ræstingafólk er í tímamældri ákvæðisvinnu.
Er því haldið fram að „[b]rögð eru að því að atvinnurekendur reyni að skjóta sér framhjá því að greiða umsamið álag sem með réttu á að greiða þegar um tímamælda ákvæðisvinnu er að ræða.“
Athugasemdir