„Við höfum ítrekað greint frá því þegar við erum spurð að við erum ekki að greiða mútur og að við höfum kvittanir fyrir allri þeirri þjónustu sem við höfum greitt fyrir. Það vita þessir ráðherrar og þingmenn vel en halda þó áfram herferð sinni gagnvart almennum borgurum sem ekkert hafa af sér gert, nema kannski særa egóið þeirra!?“ Þetta segir Sema Erla Serdaroglu, stofnandi og forseti Solaris samtakanna og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi.
Tilefni færslunnar eru yfirlýsingar þingmanna um að þeir einstaklingar sem hafa dvalið í Miðausturlöndum og hjálpað palestínskum dvalarleyfishöfum út af Gaza til Íslands séu að greiða mútur.
Á meðal þeirra sem hafa haldið þessu fram er Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann sagði í samtali við Heimildina í gær að hann hefði heyrt það að Egyptar krefjist greiðslna upp á 750 þúsund krónur fyrir fullorðna og 350 þúsund fyrir börn gegn því að hleypa fólki yfir landamærin frá Gaza. „Ég fékk þessar upplýsingar frá fólki sem starfar þarna niður frá. Ég get ekki gefið upp hverjir það eru. Ég hef heyrt hærri tölur líka.“ Aðspurður hvort íslensk stjórnvöld mættu ekki greiða landamæravörðum í Egyptalandi með slíkum hætti, því það væri einhvers konar lögbrot eða mútugreiðslur svaraði Birgir því játandi. Það væri meginástæðan fyrir því að diplómatar utanríkisþjónustunnar sem eru á svæðinu eru geti ekki gert það sama og íslenskir sjálfboðaliðar sem komið hafa fólki yfir landamærin í Rafah.
„Það sem utanríkisráðherra og skósveinar hans vilja að við séum að gera“
Sema segir í færslunni að það sé „alveg gjörsamlega sturlað að fylgjast með ráðherrum í ríkisstjórn Íslands og stofnunum þeirra sem og Alþingisfólki leggja sig markvisst fram við að sverta mannorð almennra borgara með því að ýja ítrekað að því að við sem erum í sjálfboðaliðavinnu við að reyna að koma fólki undan þjóðarmorði í Palestínu séum að brjóta af okkur og jafnvel fremja lögbrot í viðleitni okkar til að koma fólki undan þjóðernishreinsunum.
Fjöldi þingfólks, sérstaklega þingfólk Sjálfstæðisflokksins, og annað áhrifafólk tengt flokknum, hafi nú vikum saman haldið því fram, beint eða óbeint, að þeir einstaklingar sem séu í sjálfboðavinnu fyrir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við að koma palestínskum dvalarleyfishöfum út af Gaza og til Íslands séu að greiða mútur. „Þó slíkar ásakanir séu að sjálfsögðu ekki svaraverðar, sérstaklega þegar þær koma frá þingmönnum sem hafa gerst sekir um að dreifa ísraelskum stríðsáróðri og falsfréttum á Alþingi, þá fer mikil orka í að svara ítrekað fyrir slíkar ásakanir, sem er einmitt það sem utanríkisráðherra og skósveinar hans vilja að við séum að gera.“
Hún snýr sér svo að fréttatilkynningu sem utanríkisráðuneytið, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni, sendi frá sér í gær. Þar sagði meðal annars: „Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld munu eingöngu vinna eftir löglegum diplómatískum leiðum og fylgja þeim ferlum sem ísraelsk og egypsk stjórnvöld gera kröfu um. Ekki er því unnt á þessum tímapunkti að fullyrða frekar um tímalínu málsins, en áfram verða veittar upplýsingar um framvinduna hér á vef ráðuneytisins.“
Árás valdhafa gegn almennum borgurum
Sema segir að í þessum hluta tilkynningarinnar sé ýjað sterklega að því að sá hópur sem hafi verið að koma palestínsku fólki sem er þegar komið með dvalarleyfi á Íslandi yfir landamærin til Egyptalands séu að gera það með ólöglegum hætti. „Hvers konar slíkar árásir (já ég sagði árás) valdhafa gegn almennum borgurum eru einungis þeim til minnkunar. Við höfum ítrekað greint frá því þegar við erum spurð að við erum ekki að greiða mútur og að við höfum kvittanir fyrir allri þeirri þjónustu sem við höfum greitt fyrir. Það vita þessir ráðherrar og þingmenn vel en halda þó áfram herferð sinni gagnvart almennum borgurum sem ekkert hafa af sér gert, nema kannski særa egóið þeirra!?“
Hún segist vel skilja þá miklu niðurlægingu sem stjórnvöld upplifi þegar íslenskir sjálfboðaliðar hafa komið 20 palestínskum dvalarleyfishöfum út af Gaza og til Íslands og skráð hátt í 50 í viðbót til þess að fara yfir landamærin frá Gaza til Egyptalands á næstu dögum þegar íslensk stjórnvöld hafi gert slíkt hið sama fyrir núll einstaklinga á sama tíma. „Við ásakanir um lögbrot verður þó ekki unað!“
Blessaður ráðherrann var sneggri að rífa upp símann þegar hann lokaði á fjárframlögin til UNWRA. Og nú berast fregnir af því að börn hafi dáið úr þorsta og vannæringu á sjúkrahúsum norðanvert á Gaza.
En það þarf víst að forgangsraða við flókin og erfið mál. Þetta veit Bjarni 😶
Það kostar jú sitt.