Maður var í síðustu viku sakfelldur fyrir húsbrot, líkamsárás og akstur undir áhrifum áfengis í Héraðsdómi Vesturlands. Maðurinn var ákærður af íbúum húsnæðisins fyrir að hafa reynt að brjótast inn í húsið og slegið til annars íbúanna í tilraun sinni til að ryðjast inn um baðherbergisglugga á húsinu.
Í skýrslu sem hjón, sem búa í húsinu, lögðu fyrir dóm er atvikum lýst þannig að aðfaranótt 17. júlí 2022 hafi heimilisfólk orðið vart við bifreið sem ók hratt að hlaði hússins og stöðvaði þar.
Heimilisfólkið hafi ekki kannast við bílstjórann sem var samkvæmt lýsingu í annarlegu ástandi. Þegar einn heimilismanna hafi farið að bílnum til að gá að líðan mannsins hafi hann rankað við sér og orðið æstur og sýnt af sér ógnandi hegðun.
Hjónin hafi því næst læst sig inni í húsinu þar sem aðrir fjölskyldumeðlimir voru einnig staddir. Skömmu eftir það hafi ákærði reynt að komast inn í húsið, tekið í hurðir og barið í glugga.
Mundaði heimagert sverð
Í skýrslu brotaþola er því lýst að á einum tímapunkti hafi ákærði dregið fram „heimagert sverð og sveiflað því í kringum sig.“ Þá hafi maðurinn einnig kastað af sér þvagi á útihurð hússins. Síðan hafi maðurinn opnað glugga á húsinu og reynt að skríða inn um hann.
Þegar einn heimilismannanna reyndi að ýta ákærða frá glugganum hafi ákærði slegið til hans með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut áverka á andliti. Heimilisfólkið brá því næst á það ráð að sleppa hundi sínum út sem fældi ákærða frá húsinu og út á tún.
Maðurinn hafi síðan ráfað um svæðið en verið kominn aftur að hlaði hússins þegar lögreglu bar að garði. Samkvæmt lýsingu lögreglu var maðurinn „sjáanlega ölvaður, illa áttaður og nokkuð æstur.“ Þegar lögregla reyndi að handsama manninn hafi átök brotist út sem leiddi til þess að tveir lögreglumenn slösuðust lítillega og lýstu því að hafa fundið til eymsla eftir á.
Bar fyrir sig minnisleysi
Í skýrslu sem ákærði gaf fyrir dómi sagðist hann hafa verið á ættarmóti umrætt kvöld, þar sem hann hafi neytt áfengis og skemmt sér. Næsta sem maðurinn sagðist hafa munað eftir var að hafa vaknað í fangaklefa.
Í skýrslutöku fyrir dómi sagðist ákærði hvorki muna eftir húsbrotinu né handtökunni. Á þeim grundvelli hafnaði ákærði ásökunum eins þeim var lýst í ákæruskjali málsins.
Málsvörn verjanda byggði einnig á því að hann taldi taldi ásakanir hjónanna vera ótrúverðugar og að málið hafi verið illa rannsakað af lögreglu, en í vitnaskýrslu lögreglu kom fram að myndefni frá búkmyndavélum lögreglu hafi ekki verið vistað.
Í dóminum var einnig velt vöngum yfir því hvort ákærði hafi raun verið ökumaður bifreiðarinnar. Þegar lögreglu bar að garði umrætt kvöld hafi ákærði sagt lögreglu að vinkona sín hafi ekið sér í bifreiðinni. En hún var hvergi sjáanleg á vettvangi og fram kemur í dómnum að hvorki ákærði né neinn annar hafi getað staðfest þá frásögn.
Í skýrslutöku gat ákærði ekki sagt til um hversu mikið hann hafi drukkið umrætt kvöld, „þetta hafi gengið sinn eðlilega gang miðað við aðstæður.“ Þá taldi ákærði líklegt að hann hafi farið í óminni vegna þess að hann hafi verið á þunglyndislyfjum á þeim tíma sem hafi ýtt undir minnisleysið. Fyrir dómnum kvaðst ákærði hafa í kjölfarið hætt að drekka.
Málsvörnin metin ótrúverðug
Dómurinn féllst ekki á varnir ákærða að neinu leyti og taldi ekkert benda til þess annars að ákærði bæri ábyrgð á ölvunarástandi sínu og háttsemi sinni. Þá taldi dómurinn frásögn ákærða um að vinkona hans, sem enginn veit nein deili um, hafi ekið bifreiðinni ótrúverðuga.
Við ákvörðun refsingarinnar ver litið til þess að með tilraunum sínum til þess að ryðja sér leið inn á heimili brotaþola hafi maðurinn brotið 71. grein stjórnarskrárinnar sem lýtur að friðhelgi heimilisins.
Ásamt þriggja ára skilorðsbundinnar refsingar var maðurinn sviptur ökuleyfi sínu gert að greiða bæði sakarkostnað og málsvarnarlaun verjenda síns sem samanlagt nemur um 870.000 krónum.
Athugasemdir