Líftæknifyrirtækið Alvotech gekk í morgun að tilboði fagfjárfesta um sölu á hlutabréfum að andvirði 23 milljarða króna. Þetta segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Seld verða 10,1 milljón hlutabréf í fyrirtækinu á 2.250 krónur á hlut. Viðskiptin verða í gegnum Kauphöllina, Nasdaq Iceland.
Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði um meira en 13% í fyrstu viðskiptum í morgun. Nú, þegar þessi frétt er skrifuð, er gengi hlutabréfa félagsins 2.450 krónur á hlut.
Langþráð leyfisveiting FDA
Þessar sviptingar í hlutabréfaverði Alvotech eiga sér stað í kjölfar þess að Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) veitti félaginu leyfi til sölu og markaðssetningar á Simlandi, líftæknilyfjahliðstæðu við lyfið Humira, í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir markaðssetningu þess fljótlega.
Á síðasta ári var Humira eitt mest selda lyf heims. Sala þess í Bandaríkjunum nam um 1.680 milljörðum króna. Lyf Alvotech, Simlandi, er fyrsta líftæknilyfjahliðstæða við Humira sem ekki inniheldur sítrat.
Alvotech hefur beðið þess að fá leyfið lengi en fengið ítrekaðar synjanir. Í apríl 2023 tilkynnti bandaríska lyfjaeftirlitið að það gæti ekki veitt Alvotech markaðsleyfi fyrir Simlandi. Daginn eftir féll markaðsvirði félagsins gríðarlega. Það náði sér þó á strik og er nú verðmætasta félagið í íslensku kauphöllinni.
Athugasemdir